Markaðir leita í jafnvægi. Ef íbúðir vantar verða íbúðir dýrari. Þeir sem byggja íbúðir græða meira. Fleiri íbúðir verða byggðar. Verð lækkar.
En það leitar ekki allt í jafnvægi. Faraldrar gera það ekki.
Ef hver smitaður einstaklingur smitar að jafnaði 1,01 einstakling mun faraldurinn springa út og allir munu sýkjast á endanum.
Ef hver smitaður einstaklingur smitar að jafnaði 0,99 einstakling mun faraldurinn á endanum deyja út.
Við sjáum það á smitgrafinu á Íslandi. Þegar 10 manna samkomutakmarkanir eru settar ár deyr faraldurinn út. Þegar samkomutakmarkanirnar eru komnar upp fyrir 100, þegar áhorfendur mæta á leik íþróttakappleiki og leikhús opna fjölgar smitum á ný. Faraldurinn er aldrei í jafnvægi.
Við sjáum þannig nokkuð bein tengsl nýgengi og umfangi samkomutakmarkana. Nú er smitfjöldi að aukast, það byrjaði nokkurn veginn 10 dögum eftir páska þegar margir hlutir opnuðu á ný. Seinasta stóra bylgja (þessi í haust) hófst einmitt 10 dögum eftir heilmiklar tilslakanir. Líklegast er má fullyrða að þær tilslakanir (í september 2020) hafi verið of snemmbúnar.
Margir spá mikið í landamærunum. Opnun sundlauga og leikhúsa kallaði ekki á sömu hlaðvörpin með áhyggjufullum álitsgjöfum og þegar héraðsdómur dæmdi skyldudvöl á sóttvarnarhóteli ólögmæta. Samt var fyrirséð að þær myndu auka líkur á smitum.
Nú held ég því ekki fram að aðgerðir á landamærum skipti engu máli. Þær gera það augljóslega. En haldi einhverjir því fram að aðgerðir á landamærum séu auðveldari og árangursríkari leið til að halda faraldrinum í skefju, og hafi meiri áhrif á þróun hans en aðgerðir innanlands þá er það ekki fullyrðing sem lesa má út úr þeim gögnum sem almenningur hefur aðgang að.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021