Akureyri á stóran stað í hjarta íbúa höfuðborgarsvæðisins. Akureyri er sá staður sem við heimsækjum ekki síst þegar ekki er óhætt að heimsækja erlendar stórborgir. Við flykkjumst norður til að komast í snjóinn á veturna og á sumrin í heita sólina sem virðist vera hlýrri þar en sunnar á landinu. Börnin elska sundlaugina og jólahúsið er skyldustopp.
Nú á tímum Covid höfum við, höfuðborgarbúarnar, sótt enn meira norður til að detta þar í smá útlandagír. Borða á góðum veitingastöðum, sem eru þar á hverju horni, rölta og versla í göngugötunni eða kíkja í kringlu þeirra norðanmanna, Glerártorg. Aðrir hafa jafnvel komið sér fyrir á tjaldsvæðinu í hjólhýsi og nýtt það sem bærinn hefur upp á að bjóða. Öll eigum við það sameiginlegt að versla þjónustu og vörur á svæðinu og fáum þá öll sömu spurningu ítrekað; ertu með KEA kortið?
Í einni góðri heimsókn norðan heiða var ákveðið að fá sér bara þetta kort sem greinilega er nauðsynlegt þegar bærinn er heimsóttur. Tilboð á nautasteikinni í Nettó eða afsláttur á Greifanum þegar vinahópurinn fór saman út að borða myndi jafnvel borga kostnaðinn við þetta kort á skömmum tíma. Með öllum tæknilausnum nútímans tók það örskotsstund að finna út að 500 kr. væri nú eini kostnaðurinn við að verða aðili að KEA og í kjölfarið væri kortið þitt. Gengið var í að sækja um kortið á netinu en tölvan var fljót að segja nei þegar í ljós kom að póstnúmer lögheimilis umsækjandi var ekki á félagssvæði KEA.
Þá er stóra spurningin; má þetta bara? Má t.d. gefa út afsláttarkort fyrir Krónuna í Austurveri þar sem skilyrði fyrir handhafa væri að eiga lögheimili í póstnúmeri 103. Fólkið að norðan, fólkið úr Árbænum og líka það sem býr hinum megin við Háaleitisbrautina mættu ekki sækja um það?
Má vera með sérkort bara fyrir Norðlendinga, sem fá þá 2% afslátt af matarreikningum í Nettó, afslátt í GeoSea sem og margt fleira, og segja nei, KEA kortið er ekki fyrir aðra íbúa landsins. Er þetta ekki bein mismunun þar sem tilteknum hópi, öðrum en Norðlendingum, er gert ókleift að njóta gæða samfélagsins (KEA kortsins) vegna ætlaðra eða sýnilegra, andlegra eða líkamlegra eiginleika (lögheimilis!) eða atferlis, og einstaklingi er gert erfiðara fyrir en öðrum við sambærilegar aðstæður eins og það er kynnt í ritinu Bann við mismunun.
Eða er þetta ef til vill óbein mismunun þar sem skilyrðið lítur út fyrir að gera öllum jafnt undir höfði en er einstaklingum í ákveðnum hóp óhagstæður. Erum við ekki með stjórnarskrá sem segir að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum án tillits m.a. til ætternis og þjóðernisuppruna. Eða gildir hún ekki örugglega líka fyrir norðan?
Í Evrópurétti er mikil áhersla lögð á banna mismunun á grundvelli ríkisfangs. Ljóst er að norðanmenn mismuna ekki á grundvelli ríkisfangs, heldur bjóða þeir innflytjendum með íslenska kennitölu og lögheimili Norðanlands velkomna í hóp félagsmanna KEA. Líklega myndi Evrópurétturinn ekki líta svo á að forsvarsmenn KEA kortsins séu að mismuna okkur, ferðaþyrstu höfuðborgarbúunum, með því að hafna okkur í þeirra félagsskap. Auk þess er KEA einkafyrirtæki sem býr við þjónustufrelsi og því undanþegið meginreglur Evrópuréttarins og því er Akureyringum í lófa lagið að sitja einir að KEA kortinu.
Líklega brýtur það ekki í bága við lög að samþykktir KEA um að aðildarmenn þurfi að hafa lögheimili á á félagssvæðinu en skilur eftir spurning hvers vegna kaupfélag sem er í rauninni fjárfestingarfélag reki afsláttarkort sem kostar ekki nema einn rauðan Jón Sig. fyrir sitt heimafólk. Gestir þeirra verða samt sem áður áþreifanlega varir við þessa mismunun, enda reglulega spurðir að því hvort þeir séu með KEA kortið góða sem þeir mega ekki fá. Þetta er klaufaleg gestrisni, svolítið eins og að bjóða gesti sínum upp á kökusneið og kaffi, en passa sig alltaf á því að hafa sína sneið þykkari og aðeins meira í bollanum.
Ég hlakka til að mæta norður á N-1 mótið í sjötta sinn nú í sumar, en líklega mun ég versla í Krónunni eða Bónus!
- Ertu með KEA kortið? - 12. apríl 2021
- Frjáls verslun með áfengi - 17. mars 2007
- Skamm Ögmundur! - 8. nóvember 2006