Er tími Vatnsberans að renna upp?

Það slær ekki vandamálum mannkyns á frest að minna sig á smæð okkar í hinu stóra samhengi hlutanna, en það getur minnt okkur á að það sé ef til vill óhætt að leyfa sér að njóta þess ævintýris að fá að lifa—hvort sem það er á tímum kórónaveirunnar eða vatnsberans, þótt hið síðarnefnda hljómi vissulega meira spennandi.

Áhugafólk um stjórnuspeki og stjörnufræði var margt spennt yfir vetrarsólstöðum á þessu ári en það bar til um þær mundir að reikistjörnurnar Satúrnus og Júpíter röðuðu sér upp í beina línu frá jörðu séð. Þetta er mjög þýðingarmikið þar sem þessi atburður er samkvæmt stjörnuspekingum hugsanlega upphaf mikillar uppljómunar mannkyns. Það kallast tímabil Vatnsberans og var sungið um í söngleiknum Hárið.

Gasrisarnir tveir eru kannski gamlar stjörnur sem sólin okkar náði að temja. Þær mætast í beinni línu á um tuttugu ára fresti, en atburðurinn á vetrarsólstöðum núna var sérstakur að því leyti að frá jörðunni séð virtust hnettirnir renna saman í einn—og svo eykur það á dulmagn viðburðarins að hann átt sér einmitt stað á þessum styttsta degi ársins á norðuhvelinu. Þetta hefur ekki gerst svo lengi sem elstu menn muna, nema þá þeir sem voru komnir til vits og ára þann 4. mars 1226, þegar þetta gerðist síðast með svipuðum hætti. Eitthvað mun vera um fólk sem trúir því að til séu manneskjur, eða mannverur, sem sannarlega hafi lifað báða þessa atburði og jafnvel fleiri slílka—en í hópi þeirra sem því trúa er nánast algjör trúnaður lagður á mikilvægi stjörnuspekinnar í skilningi á málefnum mannkynsins.

Það er kannski ekki verra en hvað annað að nota himintungl og hegðun þeirra sem einhvers konar haldreipi í lífinu og fyrirboða um bjartari tíð. Upphaf tímabils vatnsberans út frá stjörnuspekinni hljómar nokkurn veginn eins og nákvæmlega það sem mannkynið þarf á að halda um þessar mundir. Í textaþýðingu Sr. Davíðs Þórs Jónssonar á frægum texta úr Hárinu segir:

Kærleikur í dýrð mun drottna,
drápsvélarnar ryðga´og brotna,
fyllist jörðin friðarvilja,
fólk mun læra´að virða´og skilja
því við sjáum loks hið sanna,
hina sönnu frelsun manna


Og þeir trúa því margir að Betlehemsstjarnan sjálf hafi einmitt verið svipaður viðburður eins og varð á vetrarsólstöðum 2020. Það gerðist árið 7 f. Kr. – og reyndar gerðist það þrisvar það ár, þar á meðal í desember. Fimm árum síðar runnu saman Satúrnus og Venus og mun sú sýn hafa verið tilkomumikil. Fyrir stóran hluta mannskyns voru tíðindin um þær mundir einmitt upphaf mikillar uppljómunar.

Hvort sem útreiknanlegir atburðir á stjörnuhimninum feli í sér einhverja sérstaka fyrirboða eða ekki þá getur það haft djúpa merkingu að horfa til himins. Við erum smá og verölind er stór. Það sem virðast risavaxin vandamál í hjörtum manna og viðskiptum þeirra á milli eru ekki sérlega fréttnæm tíðindi á Satúrnusi og Júpiter, sem halda áfram ferðalagi sínu kringum sólina hvort sem sóttvarnalæknar og forsætisráðherrar vilja að fólk haldi sig heima eða ekki.

Það slær ekki vandamálum mannkyns á frest að minna sig á smæð okkar í hinu stóra samhengi hlutanna, en það getur minnt okkur á að það sé ef til vill óhætt að leyfa sér að njóta þess ævintýris að fá að lifa—hvort sem það er á tímum kórónaveirunnar eða vatnsberans, þótt hið síðarnefnda hljómi vissulega meira spennandi.

Maður getur allaveganna leyft sér að vona. Er þetta ekki einmitt rétti árstíminn til þess?

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.