„Er þetta nú efst á forgangslistanum?“

Þetta eru rök sem heyrast iðulega þegar einhver mælir fyrir auknu frjálsræði varðandi verslun á áfengi, eins og t.d. hefur verið gert með frumvarpi sem lagt var fram á þingi fyrr í vetur. Þetta eru rök þeirra sem eru á móti breytingunni en vilja ekki stíga fram og segja það beint út.

Í staðinn er málið tæklað með því að gefa í skyn að stjórnmálamenn sem tali fyrir þessari breytingu séu léttvægir, ekki alvöru stjórnmálamenn og ekki með forgangsröðunina á hreinu. Sannir stjórnmálamenn eiga samkvæmt þessu alltaf að vera með áhyggjusvip yfir vandamálum heimsins en ýta frá sér öðrum málum.

„Rétta forgangsröðunin“ er reyndar afar fljótandi hugtak, misjafnt eftir því hver er spurður og breytist frá einum tíma til annars. Sá sem býr á landsbyggðinni gæti verið líklegur til að setja samgöngu- og byggðamál efst á forgangslistann en sá sem stendur í stappi við bankann sinn nefnir skuldamál og sá sem er með barn á biðlista eftir leikskólaplássi mun sennilega nefna skólamálin. Sá sem er 19 ára gæti nefnt sem forgangsmál að lækka aldurstakmark á skemmtistaði og í áfengisverslanir. Það sér auðvitað hver heiminn með sínum augum og þau mál sem fram koma eru mikilvæg að sumra mati en annarra ekki.

Boðflennan

Hugsunin um að forgangsröð mála eigi að stýra allri stjórnmálaumræðu byggir á þeirri röngu forsendu að stjórnmálin séu einhvers konar útilokandi leikur þar sem bara er hægt að samþykkja takmarkaðan fjölda mála í einu. Svona eins og að ef frumvarp um breytingar á sölu áfengis verði samþykkt þá sé frumvarp um aukin fjárframlög til Landspítalans sett beinustu leið í tætarann upp í ráðuneyti.

Eða að á Alþingi hverju sinni sé akkúrat mátulegur fjöldi mála til að þingið geti klárað þau sómasamlega en þá treður ansans áfengisfrumvarpið sér inn og sprengir allt utan af sér eins og boðflenna í partýi.

Svoleiðis er þetta auðvitað ekki í raun og veru. Blessunarlega þá höfum við stjórnkerfi sem ræður við það að gera fleira en eitt í einu. Það er vel hægt að breyta lögum um verslun með áfengi og vinna að ýmsum öðrum málum í leiðinni.

Hin brýnu mál þingsins

Það er svolítið áhugavert að breytingar á áfengislöggjöfinni virðast vera eina málið þar sem áhyggjur af forgangsröðun skjóta upp kollinum. Samt er málaskrá Alþingis full af málum sem þingmenn og jafnvel ráðherrar eru að leggja fram og vel mætti skoða í þessu ljósi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og fleiri þingmenn Framsóknar eru til dæmis með frumvarp um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið sem gengur út á að rýmka þann tíma sem fáni má vera við hún. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra er með frumvarp um visthönnun vöru sem notar orku, Össur Skarphéðinsson og fleiri vilja þingsályktunartillögu um eflingu ísaldarurriðans í Þingvallavatni og Oddný G. Harðardóttir og fleiri þingmenn tala fyrir ályktun um minni plastpokanotkun. Um öll þessi mál mætti spyrja með æstri röddu: HVAÐ GERIR ÞETTA FYRIR HEIMILIN Í LANDINU???

Ísaldarurriðar og fátæk heimili

Fegurðin í þessu er engu að síður að það er einmitt hægt að afgreiða þetta allt saman frá þinginu án þess að eitt taki frá öðru. Ísaldarurriðinn fær sína umfjöllun rétt eins og þingsálykun um bráðaaðgerðir fyrir fátæk heimili. Hvert þingmál útheimtir í grunninn ekki meira en nokkur blöð sem þarf að prenta út, dreifa og ræða á þinginu.

Málið er auðvitað miklu frekar að þessi röksemd, þ.e. að breytingar í frjálsræðisátt í áfengismálum séu ekki rétt forgangsröðun, er bara ein leið til að tala gegn málinu án þess að ræða efnislega um það. Svipuð rök komu fram á sínum tíma þegar rætt var um að leyfa bjórinn, sem varð að veruleika árið 1989. Á þeim tíma sem það mál var rætt var sjálfsagt einhver forgangsröðun í gangi sem bjórmálið passaði ekki inn í.

Engu að síður er sú breyting ein af þeim lagabreytingum sem er hvað minnistæðust frá þeim tíma og hefur haft mikil áhrif á samfélagið. Þó bjór, vín og áfengi þyki kannski ekki brýn mál til að tala um þá eru þetta vörur sem stærstur hluti fullorðinna Íslendinga neytir reglulega. Fyrirkomulag þessara mála hefur áhrif á líf fólks. Tilkoma bjórsins á sínum tíma hefur að flestra mati haft góð áhrif á áfengismenninguna hér og það eru a.m.k. sárafáir sem tala um að þeir vilji snúa við og breyta þessu aftur í fyrra horfið. Þetta mál er eins, það er í raun stórt, þótt reynt sé að tala það niður sem léttmeti og ef það verður samþykkt þá verður það rifjað upp síðar meir sem merkileg breyting.

Hvar eru frjálslyndu þingmennirnir?

Þeir þingmenn Bjartrar framtíðar og Pírata sem gerðust flutningsmenn frumvarpsins um að færa verslun með áfengi yfir í búðir eiga hrós skilið. Þeir sýna með því að þeim er alvara með málflutningi sínum um að flokkslínur eigi ekki að eyðileggja framfaramál og að það sé gamaldags liðahugsun að starfa á þeim nótum. Hins vegar var enginn þingmaður Samfylkingarinnar á málinu, en talsmenn flokksins tala gjarnan á þann hátt að sá flokkur sé rétti valkosturinn fyrir frjálslynt ungt fólk. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig þingmenn flokksins kjósa um málið þegar þar að kemur.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.