Á þessum orðum hefst nýleg grein Stundarinnar um þarfa baráttu Arnar fyrir bættu fjármálalæsi í skólum.
Þó að stór hluti fréttarinnar fjalli um gildi fjármálalæsi og ósk um að vægi hennar aukist, ákveður blaðamaður Stundarinnar að leggja höfuðáherslu á tortryggni viðmælandans á því að það séu Samtök fjármálafyrirtækja sem styrki þessa fræðslu og útvegi til þess bók endurgjaldslaust.
Af þessu mætti halda að bankarnir mæti í skólana og selji innlánsreikninga eða véli grunlausa grunnskólanema til kaupa á hlutabréfum Icelandair. Svo er þó ekki. Samtök fjármálafyrirtækja styrkir verkefni sem einungis miðar að því að auka fjármálalæsi í skólum sem virðist ekki vera vanþörf á. Margar af afdrifaríkustu ákvörðunum fólks, svo sem íbúðakaup eða skipulag lífeyrissparnaðar, krefjast fjármálalæsis og getur skipt sköpum að gefa sér réttar forsendur snemma á lífsleiðinni til að tryggja sér trausta afkomu seinna meir. Má t.d. benda á að í greinargerð fjármálaáætlunar 2019- 2023 er talin raunveruleg hætta á því að fólk lendi í fjárhagserfiðleikum á fullorðinsárum ef vantar upp á fjármálalæsi.
Samtök fjármálafyrirtækja stunda ekki sölumennsku í grunnskólum eða ræða umdeildar kenningar eða skoðanir, heldur snýst málið um fjármálastærðfræði og grunnhugtök svo sem vexti eða tímavirði peninga sem kemur flestum vel í daglegu lífi og í almennri þjóðfélagsumræðu.
Það felst akkur í því að fá fagfólk sem hefur oftar en ekki eytt stórum hluta ævi sinnar í að tileinka sér viðkomandi þekkingu á viðfangsefninu til að til miðla af reynslu sinni. Frekar mætti gagnrýna skólana fyrir að vera ekki með nægjanlega góðar tengingar við atvinnulífið, þar sem flestir nemendur enda að lokum, en að gera ráð fyrir hinu versta. Væri t.d. gerð athugasemd við að Landssamtök bakarameistara styrktu kennslu í matreiðslu með því að bjóðast til að senda félagsmenn sína í grunnskólana til að kenna ungu fólki að baka brauð?
Sérfræðingar í menntamálaráðuneytinu og skólum landsins leggur línurnar um það hvernig grunnnámi sé háttað og ákveður í grófum dráttum hvað er kennt. Ef fagfólk hefur metnað til þess að styðja þetta starf með efni sem viðurkennt er að gagnist nemendum, er einhver ástæða til að gera það tortryggilegt? Ef atvinnulífið býðst til að efla skólastarf með kennsluefni eða sérfræðingum sem miðla af þekkingu sinni án þess að í því felist einhverjar sérstakar auglýsingar, er ekki bara allt í lagi að þiggja það?
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021