Við hægfræðingar eigum á brattan að sækja að sannfæra flesta aðra í samfélaginu um að við séum vísindamenn. Þetta er eitthvað sem ég læt stundum fara í taugarnar á mér. En það er vitaskuld til einskis. Eina vitið er að líta á svonalagað mótlæti sem áskorun. Fólk sem telur að hagfræði sé ekki vísindi veit annað hvort ekki hvað hagfræði er eða það veit ekki hvað vísindi er.
Einhverjir kunna að segja: Vísindamenn gera tilraunir. Hagfræði er ekki vísindi vegna þess að hagfræðingar geta ekki gert tilraunir. Bull og vitleysa, og það fyrir tvennar sakir: 1) Er stjörnufræði vísindi? (Já, augljóslega.) En stjörnufræðingar geta ekki gert tilraunir. 2) Hagfræðingar gera tilraunir í vaxandi mæli. Það á sérstaklega við um hagfræðinga á sviði þróunarmála, en einnig á öðrum sviðum. Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2019 voru veitt fyrir brautryðjandi rannsóknir á þessu sviði: sjá hér.
Aðrir kunna að segja: Hægfræðingar geta ekki spáð fyrir um neitt. Það er ekki hægt að kalla slíkt vísindi. En eru jarðfræðingar sem rannsaka jarðskjálfta þá ekki vísindamenn?
Enn aðrir vilja ef til vill einungis nota orðið vísindi yfir faggreinar sem hafa náð langt í því að skilja það sem þær rannsaka. Hér stendur eðlisfræði langt framar öðrum greinum. Eðlisfræðikenningar eru nákvæmar og virðast útskýra nánast allt sem gerist í heiminum. Eini vandinn er að í mörgum tilvikum er reiknigeta okkar ekki nægilega mikil til þess að við getum reiknað út hvað kenningar segja að eigi að gerast.
Margir telja aftur á móti að hagfræði sé tóm þvæla og geti því ekki talist vera vísindi.
En er rétt að setja samasem merki á milli velgengni og þess að rannsóknarsvið teljist vísindi? Tökum læknisfræði. Læknisfræði er vitaskuld yfir það heila mjög farsæl grein. En það eru svið innan læknisfræði þar sem lítið hefur orðið ágengt. Tökum geðlækningar. Vitaskuld hefur þó nokkur þekking skapast á því sviði. En ég held að það sé sanngjarnt að segja að framfarir hafi valdið vonbrigðum og ansi margt sé á huldu.
Fæðing barna er annað svið þar sem ansi mörgum stórum spurningum er ósvarað. Ástæðan er Líklega sú að það er erfitt að gera tilraunir á því sviði. Eitt dæmi: Hverjar eru afleiðingar þess að konur eigi barn með keisaraskurði. Í sumum löndum eru yfir 40% fæðinga með keisaraskurði. Í öðrum löndum er þessi tala mun lægri. Er skaðlegt fyrir heilbrigða konu með enga áhættuþætti að velja að eiga barnið sitt með keisaraskurði? Sannfærandi svar við þessari (stóru) spurning er ekki til staðar. Það kemur kannski einhverjum á óvart að sumar af áhugaverðustu (og mest sannfærandi) rannsóknunum á þessu sviði eru rannsóknir hagfræðinga: sjá dæmi hér.
Það er erfitt að setja fram stutta skilgreiningu á því hvað er vísindi og hvað ekki. Ég mæli með þessari bók fyrir þá sem hafa áhuga á að kafa dýpra í þessa spurningu.
Eitt sem ég held að eigi stóran þátt í því að fólki hrís hugur við því að líta á hagfræði sem vísindi er að hagfræði er oft notuð í pólitískum tilgangi. Margar niðurstöður í hagfræði hafa pólitískar afleiðingar. Fólk á til að hafa mjög sterkar fyrirfram ákveðnar skoðanir þegar kemur að málum sem hafa pólitískar afleiðinar. Þetta gerir það að verkum að fólk á það til að blanda hagfræði saman við pólitík og siðfræði. Og það hjálpar ekki til að sumir hagfræðingar eru það sem kallast á ensku „a hack“, þ.e., talsmenn ákveðinna sjónarmiða alveg óháð staðreyndum. Þessir aðilar eiga þátt í því að koma óorði á hagfræði, því miður.
En hagfræði er ekki eina vísindagreinin sem á við þetta vandamál. Lofslagsvísindi eiga við þetta sama vandamál að stríða, þó í minni mæli. Mun færri telja lofslagsvísindi ekki vera vísindi yfir höfuð. Lýðheilsa á einnig við þetta vandamál að stríða.
Á síðustu áratugum hefur áhersla rannsókna í hagfræði verið að færast frá kennilegum rannsóknum yfir í emperískar rannsóknir. Þessi þróun mun held ég á endanum hjálpa til við að breyta ásýnd hagfræði. En þessi þróun hefur því miður ekki seitlað nægilega vel út í almenna umræðu um hagfræði sem fag. Hagfræðikennsla og umræða um hagfræði í fjölmiðlum snýst enn að mestu um kenningar. (Hayek vs. Keynes, bla, bla.) Vonandi breytist það með tímanum.
Þeir sem hafa áhuga á því að kynna sér emperískar rannsóknir og þá aðferðafræði sem notuð er í hagfræði við emperískar rannsóknir ættu að kíkja á þessa bók.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009