Í heimsstyrjöldinni fyrri kom babb í bátinn hjá fréttaþjónustu William Randolph Hearst, The International News Service. Fréttaveitan hafði fjallað um mannfall Breta með óhagfelldum hætti, og missti í kjölfarið ýmis fríðindi sem öðrum stríðsfréttariturum stóðu til boða, svo sem aðgang að víglínunum og símskeytaþjónustu bandamanna, sem gerðu þeim kleift að senda fréttir frá Evrópu til Bandaríkjanna. Þessar refsiaðgerðir stjórnvalda gerðu fréttariturum INS því ómögulegt að sinna starfi sínu.
Fréttaritararnir dóu ekki ráðalausir, heldur tóku upp á því að „stela“ fréttum annarra fréttaveita á borð við Associated Press, sem áttu fréttaritara í fremstu víglínu. Í sumum tilvikum var þessi fréttastuldur hlægilega einfaldur í framkvæmd, en hann fór þannig fram að fréttamenn INS lásu fréttir AP á austurströnd Bandaríkjanna um leið og blöðin komu úr prenti, endurskrifuðu þær og sendu síðan símleiðis á vesturströndina þar sem hægt var að prenta þær eins og nýjar vegna tímamismunarins.
Fréttastuldur fyrir hæstarétt
AP var auðvitað ósátt við að INS skyldi hagnýta sér vinnu fyrirtækisins með jafn óskammfeilnum hætti, en deila fyrirtækjanna rataði alla leið fyrir hæstarétt landsins. Málið er raunar ákaflega merkilegt, því í því fólst enginn áburður um hugverkastuld. Fréttamenn INS gerðu aldrei tilraun til þess að birta texta frá AP sem sinn eiginn. Þeir stálu efni fréttanna, en aldrei forminu eða framsetningu. Kjarni deilunnar var því í rauninni sá hvort hægt væri að eiga umfjöllunarefnið sjálft; staðreyndir.
Niðurstaða dómsins var ekki alveg einhlít, en hann komst að því að öflun upplýsinga gæti skapað tímabundinn eignarrétt undir þröngum skilyrðum. Almennt taldi hann hinsvegar að það væri galið að nokkur maður gæti „átt“ vitneskju um merkisatburði, ummæli sem látin eru falla á opinberum vettvangi eða aðrar staðreyndir um gang sögunnar. Með öðrum orðum væri ekki hægt að eiga fréttir, þótt hugsanlega mætti eiga orðalagið sem lýsir þeim. Þetta skapar djúpstæðan vanda fyrir viðskiptamódel fréttamiðla og þar með öflun frétta – því yfirleitt sækjast lesendur frétta mun frekar í frásagnarefnið en frásagnarmátann, auk þess sem fjölmiðlar leggja beinlínis upp úr því að draga úr áferðarsérkennum fréttaskrifa með kröfu um hlutleysi og einfaldan stíl.
Af hverju eignarréttur skiptir máli
Í stuttu máli er eignarréttur forsenda þess að markaðir virki. Hann tryggir að fyrirtæki sem verður fyrir kostnaði til þess að búa til vöru, hver sem hún kann að vera, sé eitt í stöðu til þess að afla tekna af sölu vörunnar. Fyrirtækið á vöruna, þar til það selur hana fyrir verð sem það telur hæfilegt. Þannig veit fyrirtækið hvers virði varan er á markaði, og hversu miklu er eðlilegt að kosta til þess að framleiða hana. Ef verð vörunnar er hátt fær fyrirtækið um leið skilaboð um að það gæti verið skynsamlegt að leggja í fjárfestingu, fjölga starfsmönnum og framleiða meira af henni. Það er hin aldagamla, allt að því klisjukennda meginniðurstaða hagfræðinnar um ósýnilegu höndina, verðið, sem beinir tíma og kröftum fólks þangað sem þeirra er helst þörf til að fullnægja þörfum samborgara sinna.
En eignarréttur þarf ekki að njóta lagalegrar verndar til þess að geta gegnt þessu hlutverki sínu í viðskiptum; það nægir að hann sé til í praxís. Og það var hann í tilviki fréttamiðla langt fram eftir síðustu öld vegna tæknilegra hindrana, ef frá eru talin undantekningatilvik eins og fréttastuldurinn í fyrri heimsstyrjöld. Fréttablöð voru nefnilega yfirleitt gefin út einu sinni á dag, sem merkti að um leið og blað birti nýja frétt, skúbb, sem það hafði aflað með ærnum tilkostnaði, þá neyddust lesendur til þess að kaupa eintak af upprunafjölmiðlinum. Aðrir fjölmiðlar gátu ekki apað fréttina eftir fyrr en næsta tölublað fór í prentun daginn eftir, og þá var fréttin orðin gömul og verðlítil. Þannig gat fjölmiðill sem lagði metnað sinn í rannsóknarblaðamennsku og sjálfstæða efnisöflun innheimt svo til allar þær tekjur, þann virðisauka, sem fréttamenn þess höfðu skapað samfélaginu. Markaðurinn virkaði.
Netið grefur undan eignarrétti staðreynda
Þetta breyttist hægt og bítandi með tilkomu síðdegisblaða, útvarpsins og sólarhringsútsendinga fréttastöðva, en stærsta breytingin átti sér hinsvegar stað með vefmiðlum. Þá styttist tíminn sem fjölmiðill sat einn að skúbbi í örfáar mínútur, því aðrir fjölmiðlar gátu nánast samstundis apað fréttina eftir eða gert hana að sinni með mun minni tilkostnaði en upprunafjölmiðillinn.
Dæmin eru fleiri en hönd á festir; þegar Nýtt líf birti bréfaskriftir fyrrverandi sendiherra þurftu lesendur ekki að kaupa blaðið til þess að lesa fréttina, heldur gátu þeir hæglega lesið endursagnir vefmiðla án þess að greiða krónu fyrir, þrátt fyrir að Nýtt líf hafi verið eini fjölmiðillinn sem „fjárfesti“ í efnisöflun til þess að ná fréttinni. Það mætti nefna svipuð dæmi úr framvindu Lekamálsins, afhjúpun Kastljóss á afbrotum barnaníðings í upphafi árs 2013 eða umfjöllun Fréttatímans um kynferðislega misnotkun innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi; samstundis var hægt að afla sér allra upplýsinga um málin í öðrum fjölmiðlum en þeim sem skúbbuðu, og þannig högnuðust þeir hver á annars vinnu.
Áhrifin á efnisöflun
Það er auðvitað að ýmsu leyti ákjósanlegt í opnu lýðræðissamfélagi að sem mestar upplýsingar séu aðgengilegar sem flestum og víðast, en það er afleitt fyrir rekstrargrundvöll fjölmiðlanna sjálfra. Skilaboðin sem markaðurinn sendir upprunafjölmiðlum nýrra frétta eru þau að afurðin sé minna virði en raunin er, því aðrir fjölmiðlar innheimta hluta teknanna sem skúbbin skapa með því að gera þau að sínum (stundum er þetta kallað ytri áhrif, en tilvist þeirra bendir yfirleitt til þess að markaðir séu ekki að ráðstafa gæðum með skilvirkum hætti). Hvatinn er því sá að hver og einn fjölmiðill verji minna fé og mannafla í rannsóknarblaðamennsku og sjálfstæða efnisöflun, ekki meira, en húkki sér þess í stað far með vinnu annarra.
Það gæti skýrt hvers vegna blaðamenn á svo til öllum fjölmiðlum víða um heim kvarta undan því að þeir séu undir auknum þrýstingi að skila af sér efni og þeir fái sífellt minni tíma til þess að einbeita sér að rannsóknum – og hvers vegna þessar umkvartanir hafa farið hærra eftir því sem internetið hefur rutt sér til rúms. Hættan er sú að markaðurinn með fréttir sé að detta í sundur og fjölmiðlar kannibaliseri hver annan vegna þessa skorts á eignarrétti yfir söluvörunni – ósýnilega höndin er hætt að leiða.
Engin lausn í sjónmáli
En hvað er þá til ráða? Það er erfiðari spurning viðfangs. Það virðist engin leið að skapa hinn langþráða eignarrétt yfir staðreyndum nema skapa um leið ómannvænlegt samfélag; það er auðvitað rétt hjá hæstaréttardómurum Bandaríkjanna að það væri galin tálmun á tjáningarfrelsi að ætla að skapa eignarrétt yfir fréttum með því að meina öðrum að greina frá en þeim sem er fyrstur til.
Markaðir hafa sem betur fer nokkuð einstakt lag á að leysa vandamál sem þessi, en lausnin er enn sem komið er ekki í sjónmáli og á meðan fer gæðum fréttamiðla óumflýjanlega hrakandi. Í millitíðinni hlýtur að vera eðlilegt að eiga samtal um hvort fjölmiðlar gegni nægilega veigamiklu hlutverki til þess að hægt sé að réttlæta að berja í markaðsbrestina með ríkisaðstoð. Veigamikill hluti þess samtals ætti að snúast um hvort rekstur ríkisfréttastofu sé heppilegasta leiðin til þess að styðja við sjálfstæða efnisöflun og rannsóknarblaðamennsku, eða hvort það væri heppilegra að nýta fjármunina til stuðnings við einkarekna fréttamiðla eins og tíðkast víða í Evrópu. En það er efni í annan pistil.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015