Það hefur verið áhugavert að fylgjast með framgangi danska forsætisráðherrans í tengslum við covid-krísuna. Hún var ein sú fyrsta til þess að fyrirskipa lokanir á landamærum og harkalegar almennar samkomutakmarkanir. Þetta sagðist hún hafa gert að ráðleggingum sérfræðinga en gaumgæfileg könnun hefur leitt í ljós að ráðherrann hafði engar slíkar ráðleggingar fengið.
Ýmis konar upphlaup urðu í tengslum við svokallað minka-afbrigði veirunnar. Leiddi þetta til allsherjarslátrunar á norður-jóskum minnkum og strangra ferðatakmarkana. Var hvoru tveggja framfylgt af miklu offorsi, en mjög er á reiki hvort þar hafi forsætisráðherrann farið fram eftir eigin dómgreind eða samkvæmt raunverulegum ráðleggingum sérfræðinga.
Og allt frá því að bóluefnin fóru að berast hefur Frederiksen farið fremst í flokki þeirra Evrópuleiðtoga sem virðast litlu vilja skeyta um gerða samninga eða raunveruleg viðfangsefni bóluefnaframleiðendanna heldur ganga fram með hótunum og heimtufrekju. Síðasta útspil hennar var svo að fara til Jerúsalem, í slagtogi við Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis—í dularfullum erindagjörðum og samkrulli við Benjamin Netanyahu. Þessi furðulega framganga leiðtoga Danmerkur er dapurleg, ekki síst vegna þess að í óstöðugum heimi er gjarnan litið til hinna velmegandi lýðræðisríkja á Norðurlöndum sem fyrirmyndir gegn upplausnaræsingi og lýðskrumi. En nú hlýtur maður að spyrja sig – á hvaða vegferð eru frændur vorir Danir?
Þjóðarleiðtogar eru líka fólk—og fólk er bæði þreytt og óþolinmótt í þessu ástandi. En það er fremur dapurlegt í mínum huga að fylgjast með framgöngu leiðtoga okkar góðu frænd- og vinaþjóðar á þessum tímum. Hin skrýtna hegðun danskra stjórnvalda minnir okkur rækilega á hversu dýrmætt og mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að vera sjálfstæð þjóð, með okkar eigin góðu leiðtoga og bera sjálf ábyrgð á hegðun okkar. Að við séum þjóð meðal þjóða, í farsælu og drengilegu samstarfi í alþjóðlegu samfélagi, á jafningjagrunni.
Vonandi verða okkar góðu frændur Danir fljótir að komast aftur á betri kúrs.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021