Nú þegar bólusetningar eru hafnar vitum við að innan tíðar lýkur þessu furðulega skeiði í samtímasögunni. Vonandi verða þau endalok fyrr en seinna. Smitum hefur snarfækkað og daglegt líf líkist smátt og smátt því sem áður var. Enginn mun sakna bannsettu veirunnar sem hefur kostað mannslíf og þjáningu víða um heim. Gaman verður að geta gengið óþvingað um almannarýmið og ég hlakka til að stunda líkamsrækt án þess að spritta tæki og tól eða vera bundinn við hólf eins og belja við bás. Mest hlakka ég til ferðalaga um önnur lönd.
En ég þarf að gera svolitla játningu. Það eru ákveðnir þættir í þessu ástandi sem ég kem til með að sakna. Atriðið „Ég var einu sinni félagsfær” í áramótaskaupinu með Sögu Garðars og Jóhanni G. Jóhanns talaði sterkt til mín. Samkomutakmarkanir og fjarlægðarreglur hafa gert það að verkum að mánuðum saman hefur maður aðeins haft nánustu vini og fjölskyldu í kringum sig. Fólkið sem við viljum í raun og veru verja mestum tíma með. Á sama tíma hafa fallið niður hvers kyns samkomur, mót og fundir með fólki sem maður hefur minni ánægju af að hitta.
Kurteisishjal er eitur í mínum beinum og hin mesta tímasóun. Þið vitið hvað ég er að tala um. Innihaldslaust blaður í grænmetinu í Bónus við fólk sem maður þekkti einu sinni en þekkir eiginlega ekki lengur og langar ekkert að kynnast aftur. Þarna hef ég aldrei verið félagsfær. Ég hef upplifað hálfgerðan fylleríismóral eftir svona hittinga. Fengið dúndrandi hjartslátt og krónískan aulahroll. Ég á það til að heilsa löngu týnda kunningjanum alltof innilega. Ég segi hátt og snjallt „Hæ! Mikið ofboðslega er gaman að sjá þig!” og asnast til að faðma eða kyssa jafnvel á kinn. Stend svo bara með augun uppglennt eins hind í háu ljósunum þegar ég fatta að ég er ekki klár á nafninu og man ekkert um hagi viðkomandi. Ég veit því ekkert hvers á að spyrja og það rennur sífellt meira upp fyrir mér að þá þegar við deildum sameiginlegu rými af einhverjum sökum vorum við alls ekkert í nánum tengslum.
Að þessu leytinu til hefur síðastliðið ár verið sælan ein. Elsku gríman. Brynjan mín góða. Þegar allir eru með grímuna á fésinu er alltaf hægt að þykjast ekki þekkja fólk aftur. Svo er það blessuð fjarlægðarreglan. Það getur enginn móðgast þótt maður sé á hlaupum í gegnum grænmetið í Bónus og allir alsælir með lítið krúttlegt hæ. Ef svo ólíklega vill til að einhverjum tekst að króa mann af í röðinni við kassann þá má alltaf tala um Kófið því við erum auðvitað öll í þessu saman.
Það ganga flökkusögur um hermenn sem týndust á eyðieyjum í seinni heimsstyrjöldinni og héldu árum og áratugum eftir að henni lauk að stríðið stæði enn. Ég er að velta því fyrir mér hvort það megi vinna með þetta? Ég held það sé alveg salur fyrir því að ríghalda í fjarlægðarreglu og grímunotkun til að gæta ítrustu varúðar þótt Kófinu ljúki, að minnsta kosti fyrstu árin. Í öllu falli hefðu slíkar ráðstafanir bjargað mér frá misheppnaðasta kurteisishjali ævi minnar.
Ég hitti konu á besta aldri í afmæli sameiginlegs vinar. Kurteisishjal hefst. Talað um hvað salurinn sé fínn og veitingarnar góðar. Ungur maður kemur til konunnar.
Ég: „Já og er þetta svo sonur þinn? Sá elsti?”
Kona á besta aldri: „Nei, þetta er maðurinn minn.”
Ég: „……!”
Ef þjóðfélagsástandið hefði ekki endilega þurft að vera eðlilegt og veiran svona seint á ferðinni þá hefði ég getað reddað þessu svona.
Kona á besta aldri: „Nei, þetta er maðurinn minn.”
Ég: „Jahá! Sá er aldeilis unglegur með grímuna! Ertu viss um að þú viljir að Þórólfur aflétti grímuskyldunni, frú mín góð?”
Kurteisishjali lýkur með kurteisishlátri.
En það auðvitað gerðist ekki enda hefði þá ekki verið haldið upp á þetta fjandans afmæli.
- Ég fer vestur - 8. júlí 2021
- Að friðlýsa hálfan bæ - 7. maí 2021
- Farvel Filippus - 9. apríl 2021