Deiglunni hefur borist eftirfarandi bréf frá dyggum lesanda sínum, sem brást ókvæða við umfjöllun hennar um markaðslaun í 4. tbl. frá því í gær:
„Vissulega má færa rök fyrir því að taxtasamningar geti verið heppilegir í ýmsum greinum en þeim greinum fer mjög fækkandi. Þetta er ekki vegna tímabundinna efnahagssveiflna heldur vegna þeirra breytinga á eðli vinnu sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum. Nú stunda æ fleiri vinnu þar sem eðlilegar mælieiningarnar eru aðrar en unnar stundir – og því er taxtavinna óhagkvæmur mælikvarði sem sérstaklega hefur slæm áhrif á framleiðni. Taxtalaun eru helsta ástæða langrar vinnuviku á Íslandi. Ert þú einn af þeim sem vildir láta stroka út svörin hjá þeim sem voru fljótari en hinir að reikna dæmin í stærðfræðibókinni í grunnskóla?“
Ekki var það tilgangur skrifanna í gær að gera lítið úr hugmynd VR um markaðslaun, henni er þvert á móti hrósað, og þaðan af síður að upphefja taxtalaunastefnuna sérstaklega. Deiglan er ekki, hefur ekki og mun líklega aldrei verða á móti markaðslausnum. Það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að reyna að gera sér grein fyrir hvað í markaðslaunum felst. Ábati vinnuveitandans hlýtur að verða að meiri sveigjanleiki í starfsmannamálum og þá hugsanlega um leið minna atvinnuöryggi (hjá þeim sem eru slakir að reikna…) en í taxtalaunaumhverfi.
Hvað varðar spurningu bréfritara í niðurlagi bréfs hans þá er svarið: Já, hjá þeim sem voru fljótari en maður sjálfur. Bréfritara er þakkað gott bréf og ljóst að þau sjónarmið, sem þar koma fram, eru um margt ágæt.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021