Árlega koma vel yfir 2 milljónir gesta í Hörpu, nokkur þúsund á dag. Til samanburðar eru gestir Kringlunnar 5 milljónir. Það er því ekki hægt að halda því fram að Harpan sé eitthvað fullkomlega misheppnað verkefni frá samfélagslegu tilliti. Þar eru haldnir viðburðir hvern dag. Hún er vinsæll áfangastaður heimamanna og ferðamanna. Hún er orðið eitt kennileita Reykjavíkur. Hún gerir okkur kleift að halda viðburði í Reykjavík sem ella yrðu örugglega ekki haldnir.
Ég ljóstra samt vonandi ekki upp neinu leyndarmáli með því að upplýsa að Harpa hefur ekki verið einhver gullhæna fyrir ríki og borg. Hún kostar skattgreiðendur sitt á hverju ári og ólíklegt að það muni nokkurn tímann breytast. Það er ef til vill einfaldlega raunin með svona hús en það bara nauðsynlegt að vera hreinskilinn með það.
Uppi eru hugmyndir um byggingu ýmissa annarra húsa hér á landi, til að mynda þjóðarleikvanga í boltagreinum og öðrum íþróttum. Margar þessara hugmynda eru mjög dýrar í uppbyggingu. En það er ekki bara stofnkostnaðurinn sem skiptir máli heldur reksturinn og nýtingin.
Í því samhengi er rétt að hugleiða hvaða rekstur eigi að fá fólk á staðinn, hvaða lið og hvaða fólk eigi að stunda æfingar þar og hvaða hversdagslegu leikir hversdaglegra íslenskra félagsliða eigi að fara þar fram. Það er það sem mun á endanum tryggja reksturinn og nýtinguna.
Keppnisleikir landsliða og stöku Coldplay tónleikar geta augljóslega ekki einir borið upp kostnaðinn af slíkum mannvirkjum. Ekki fremur en Sinfónían ein getur borið uppi rekstur Hörpunnar eða tryggt nægilega nýtingu hennar til að okkur finnist framkvæmdin á endanum vera sannarlega þess virði.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021