Ný Metoo bylgja reið eins og höggbylgja yfir samfélagið fyrir nokkrum vikum. Fjöldi kvenna steig fram og lýsti kynferðislegu ofbeldi eða áreiti sem þær höfðu orðið fyrir. Gerenda-meðvirknin sem konurnar upplifðu í samfélaginu í kjölfar þess að þjóðþekktur einstaklingur nýtti samfélagsmiðil sinn til að lýsa yfir sakleysi sínu í máli sem fæstir höfðu haft veður af, var dropinn sem fyllti mælinn.
Augljóst er að breytinga er þörf. Fjölmargar konur hafa nú stigið fram og sagt sögu sína og margar sögur hafa eflaust ekki enn ratað upp á yfirborðið. Þá er sláandi að um fjórðungur kvenna hefur upplifað ofbeldi í nánu sambandi en hugsanlega enn meira sláandi að lítið hafi breyst á undanförnum árum, því tölurnar eru ekki nýjar.
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni að undanförnu og ekki síst hversu fáir karlmenn hafa tjáð sig um málefnið. Skyldi kannski engan undra því nokkrir þeirra sem hafa tjáð sig hafa fengið slæma útreið og dregin upp á yfirborðið atvik þar sem viðkomandi hafa farið yfir mörk kvenna. Málefnið kemur við kviku svo margra kvenna og reiðin því svo skiljanleg. Margar erum við orðnar langeygar eftir því að hlutirnir breytist. Samfélagið mun hins vegar ekki breytast fyrr en við sem heild tökum höndum saman um breytingar.
Kæru vinir, boltinn er hjá ykkur. Stígið nú út úr óttanum og inn í hugrekkið og takið skýra afstöðu með þolendum og breytingum á viðhofum. Langflestar okkar munu kunna að meta það. Allt telur í þessum efnum. Hvort sem það er að ræða málefnið og hverju megi breyta við konurnar í ykkar lífi, henda í ,,læk“ hjá konu sem tjáir sig um sína reynslu eða ganga um stræti og torg og básúna boðskapinn. Við höfum margar beðið þolinmóðar og munum áfram bíða þolinmóðar, en tökum svo sannarlega eftir þegar litlu skrefin eru stigin því dropinn holar steininn.
- Elsku vinir, koma svo - 31. maí 2021
- Yndisleg borg í blíðviðri - 24. júlí 2006
- Mikilvæg málefni - 13. maí 2006