Í kjölfar þess að íslenska bankakerfið fór á hliðina komu fram á sjónarsviðið sveitir manna sem vildu siðbæta samfélagið og ekki síst stjórnmálin. Raunar var ekki margt annað lagt til málanna, hægri og vinstri var víst alveg úrelt dæmi og þetta átti að snúast um eitthvað allt annað. Það má til sanns vegar færa að ýmsu var ábótavant í samfélaginu og stjórnmálum á því tímamarki sem íslensku bankarnir, ásamt hundruðum banka um allan heim, fóru á hausinn.
Síðustu misseri hefur afrakstur þessarar miklu siðbótar íslenskra stjórnmála verið til sýnis í sölum Alþingis, þar sem þingmenn virðast helst hafa það fram að færa að labba um húsakynni löggjafarsamkomunnar á sokkaleistunum og emja yfir því að aðrir þingmenn sem hafa aðrar skoðanir á málum leggi þá í einelti. Sáralítil skoðanaskipti eða pólitísk átök eiga sér stað í raun og ef einhverjar pólitískar brotalínur eru að finna, þar sem raunverulega er tekist á um áherslur á málefni þá er það helst innan stjórnarmeirihlutans annars vegar og í millum stjórnarandstöðuflokkanna hins vegar. Efnisleg pólitísk átök eru ekki til staðar milli meirihlutans og minnihlutans á þingi.
Eldhúsdagsumræður á Alþingi í gær, sem eiga að vera vettvangur fyrir kjörna fulltrúa þessa lands að takast á um stefnumál frammi fyrir alþjóð, bera þessari stöðu glöggt vitni. Með fáeinum undantekningum snérust ræður þingmanna minnst um það sem ríkisstjórnin ætti að vera að gera en gerir ekki eða það sem hún gerir en ætti ekki að vera gera. Þaðan af síður kom eitthvað fram um að það sem ætti að gera í staðinn fyrir það sem verið er að gera.
Eldhúsdagur er orðinn að gjörningavettvangi einstakra þingmanna og hefur þar með glatað tilgangi sínum. Enginn er neinu nær um eitt eða neitt eftir að hafa fylgst með þessum umræðum í gær. Vera má að tilgangurinn með siðvæðingunni hafi verið góður en þetta er svo sannarlega að fara úr öskunni í eldinn.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021