Í janúar skrifaði ég pistil sem fjallaði um þegar landið myndi aftur rísa eftir ýmsar krefjandi áskoranir. Jarðskjálftar, atvinnuleysi, heimsfaraldur og óveður yrðu að baki og hækkandi sól tæki við. Þetta er allt í áttina. Í stað jarðskjálfta fáum við nú að berja augum eitt magnaðasta og mest heimsótta eldgos Íslandssögunnar, bólusettum fjölgar og við sjáum fyrir okkur fulla afléttingu þeirra takmarkana sem við höfum búið við í á hálft annað ár. Mig langar næstum að skála þegar ég skrifa þetta.
Það hefur sjaldan verið jafn gaman að fylgjast með samfélagsmiðlum því flest allir á suðvesturhorni landsins fá að njóta bjarma gossins og nú nýlega fóru hraunspýjurnar að ná það hátt að nú sér maður gosið frá Grindavík, Reykjanesbæ og höfuðborgarsvæðinu. Hversu magnað?
Atvinnuleysi á Reykjanesi er í sögulegu hámarki og heimsfaraldurinn leikið svæðið grátt þegar landið lokaðist nánast og lítið var um erlenda ferðamenn. Í gegnum árin hafa Suðurnesjamenn ítrekað reynt að benda á hversu magnaður Reykjanesskaginn er með öllum sínum náttúruperlum. Bláa Lónið þarf varla að nefna en til viðbótar eru hérna náttúrufyrirbæri á heimsmælikvarða: brú milli heimsálfa, Gunnuhver, Brimketill, Selatangar, Seltún og nú eldgos svo eitthvað sé nefnt. Þetta síðast nefnda færði móðir náttúra okkur eftir jarðskjálftahrinur í rúma 14 mánuði. Við erum auðvitað öll sólarmegin í lífinu og þökkum fyrir þetta magnaða náttúrufyrirbæri sem eldgosið í Geldingadölum er. Aðgengilegt og fallegt. Eftirsótt og heimsfrægt. Reykjanesskaginn er orðinn heimsþekktur staður.
Það er í senn stórmerkileg og mögnuð upplifun að ganga upp að eldgosinu í Geldingadölum. Í dag hafa tæplega 60 þúsund manns farið um svæðið samkvæmt talningu á mælaborði ferðaþjónustunnar. Þetta magnaða sjónarspil náttúrunnar býður upp á nýtt listaverk á hverjum degi og skiljanlegt að það kalli á að fólk fari aftur og aftur. Langvinsælast er að skoða gosið í ljósaskiptum og myrkri og má sjá á mælaborði ferðaþjónustunnar að fjöldinn rýkur upp þegar komið er yfir kvöldmat.
Allir helstu fjölmiðlar heims hafa fjallað um eldgosið, komið og heimsótt Ísland og fjallað um hraungosið sem litlu ógnar og allir elska. Á meðan ferðaþyrstur heimurinn bíður eftir að komast bólusettur í ferðalag dregur íslensk ferðaþjónusta upp seglin. Því byrinn mun sannarlega koma, enda bara rétt handan við (bólusetningar)hornið.
Það fer hver að verða síðastur að sjá eldgosið í myrkri. Sól hækkar á lofti og daginn fer að lengja. Búast má við mjög fínu veðri á gosstöðvunum um helgina og því kjörið að skella sér í göngutúr, í góðum skóm með nesti og spariskapið. Þessi stórkostlega skemmtun og upplifun sem náttúran býður nú upp á kostar ekki krónu…..kannski smá svita og könnun á aðstæðum.
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021