Eitt það fallegasta við íslenska umræðu er hvernig helstu persónur og leikendur ná að endurnýja sig með reglulegu millibili.
Einn daginn ertu að reka fjölmiðil fyrir auðmann og segja ungu fólki sem þráir að vinna sem blaðamenn, vita að þau geti kannski fengið vinnu en aldrei meira en 300 þúsund kall á mánuði. Þann næsta ertu að flytja eldmessu í fjölmiðlum um hversu skammarlegt það sé að fólk á Íslandi búi við fátækt og tekjur upp á 300 þúsund á mánuði.
Eina stundina ertu að fela þig undir borði í von um að starfsmennirnir sem fengu ekki laun frá þér um síðustu mánaðarmót finni þig ekki. Þá næstu stendurðu fyrir framan spegilinn, í Che Guevara bolnum og segir við sjálfan þig að þú sért næsti leiðtogi sósíalista á Íslandi.
Og það magnaðasta er að þetta virðist ganga. Framboðið fær mikla athygli og margir skrá sig. Ofurstinn í byltingunni verður væntanlega tilbúinn í slaginn um leið og hann er búinn að láta fjarlægja Björt framtíð tattúið sitt.
All-in. Alltaf
Eitthvað fallega íslenskt við þetta. Menn eru all-in í því sem þeir fást við hverju sinni en virðast svo getað endurræst sig og talað um eitthvað allt annað í næsta verkefni. Hvort sem þú ert atvinnurekandi eða verkalýðshetja. Það eina sem þarf í þessu er málsstaður – eitthvað sem hægt er að fylkja sér á bak við og svo óvinur til að kenna um það sem illa hefur farið. Til dæmis fátækt og ríkt fólk. Hver ætlar að vera ósammála því að það þurfi að berjast gegn fátækt? Og hver er betur til þess fallinn að vera óvinurinn en helvítis auðmennirnir, kvótagreifarnir og aflandsfólkið? Það heldur enginn með þeim.
Andstæðingur: Ríkt fólk
Sósíalistaflokkur Íslands virðist byggja á þessari heimsmynd, þ.e. að ríka fólkið og auðvaldið sé andstæðingurinn, enda hafi það rænt peningum af venjulegu fólki, skilið það eftir í skítnum sem fórnarlömb og látið opinbera þjónustu drabbast niður. Þessu þarf svo að breyta með handafli.
Þessa kenningu um heiminn er auðvelt að heimfæra upp á fréttir um gang mála því hún býr á einfaldan hátt til sökudólga og þolendur í öllum málum.
Frétt um að íslenskir sjúklingar á Landsspítala sofi fram á gangi? Það er ríka fólkinu og pólitískum fulltrúum þess í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum að kenna. Lausn: hækka skatta á auðmenn og aflandsfólk.
Umfjöllun um fátækt á Íslandi? Nákvæmlega, passar við kenninguna. Ríka fólkinu að kenna, sem stal frá fólkinu og skildi það eftir í fátækt. Lausn: finna fé í skattaskjólum og gefa til fátæka fólksins.
Banki sem auglýsir að fólk eigi ekki að gefast upp á erfiðum húsnæðismarkaði heldur reyna að gera plan? Fávitar, tala niður til fórnarlamba auðvaldsins. Lausn: Hætta að sýna Falleg íslensk heimili.
Ekki loðmulluna
Svona skýringar um heiminn eru miklu beittari og áhugaverðari heldur en raunveruleikinn með öllum sínum flækjum og útskýringum. Svona loðmulla eins og t.d. að í alþjóðlegum samanburði er jöfnuður með því mesta sem þekkist og tekjudreifing ein sú jafnasta. Og að vegna mikils uppgangs í hagkerfinu og eftir uppgjör við kröfuhafana er ríkissjóður betur settur en nokkru sinni fyrr til að geta byggt upp í opinberri þjónustu.
Raunar væri áhugavert að spóla til baka um kannski 7-8 ár og máta stöðuna þá við ástandið núna. Árin 2009-2010 stóðum við í miðju hruninu og eftirmálum þess. Annað hvert heimili á Íslandi var í nauðungarsöluferli og biðröðin í anddyrinu hjá Umboðsmanni skuldara jafnlöng og þegar Dunkin Donuts opnaði. Ríkissjóður var í einhvers konar alþjóðlegri greiðsluaðlögun hjá AGS og þurfti að skera stórkostlega niður í opinberri þjónustu.
Þessu höfum við snúið við og búum núna við góða stöðu. Ekki fullkomna, en góða og höfum tækifæri til að gera vel. En svona tal er ekki vel til þess fallið að vekja athygli. Fréttir um flestir hlutir gangi vel og það sé bjart framundan fá ekki mörg klikk. „Staðan nokkuð góð“ fengi örugglega færri hit en „Fólk óttaslegið yfir erfiðri stöðu“.
Tímabil mótsagna
Þessi halli í umræðunni býr til mótsagnakennd framboð eins og Sósíalistaflokkinn. Við lifum reyndar tímabil mótsagna í stjórnmálum, eins og í Bandaríkjunum þar sem sturlaði milljarðamæringurinn Trump varð hetja alþýðunnar og fátæka fólksins þrátt fyrir nánast endalaus dæmi um að hann hefði farið illa með fólk í viðskiptum.Við fáum kannski okkar eigin útgáfu af mótsagnakenndri pólitík hér heima þar sem mennirnir sem búa sjálfir á Fallegum íslenskum heimilum og vilja helst ekki borga starfsmönnunum sínum laun verða bjargvættir alþýðunnar og gera byltingu gegn auðmönnunum sem þeir unnu einu sinni fyrir.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021