Gætu þetta verið einkunnarorð Íslendinga? Eða væri kannski betra að nota: „Hann sér um reikninginn.“ Það er líklega of írónískt þar sem landinn keppist við að borga fyrir hvern annan á börum borgarinnar. Samt þegar að kemur að því að taka höndum saman þá er annar tónn í fólki. Vissulega er langt því frá að allir hugsi svona en alltof margir.
Ekki líta á þetta sem einhverja vörn fyrir ríkissjóð og vissulega má margt gagnrýna þar. En finnst engum skrítið að í hvert sinn sem nýjar breytingar eru kynntar þá stökkvi fram hagsmunahópar og segi að þetta gangi alls ekki? Mótrökin eru jafnvel stundum barnaleg. Í nokkrum dæmum sem ég man eftir var sagt að: fiskveiðar vmyndu leggjast af, matvælaöryggi þjóðarinnar væri ógnað, þjóðin yrði ólæs og miðbær Reykjavíkur myndi leggjast í eyði. Varla eru þessar dómsdagsspár raunhæfar? En hvað vilja þessir hagsmunahópar að sé gert í staðinn? Jú, fyrir þeim er oftast bara eitt í stöðunni. Að ríkið hætti afskiptum sínum og leyfi þeim að starfa óáreittum (og helst skattfrjálst) því annað sé ósanngjarnt. Varla erum við samt sammála því?
Hvernig geta þessir hagsmunahópar gengið fram með bros á vör og sagt að þeir séu allt öðruvísi en við hin? Ég vil taka fram að hér er ekki verið að tala um þá sem minna mega sín heldur þá sem virðast hafa enga blygðunarkennd þegar starfsvettvangur þeirra er annars vegar. Takið eftir að þetta er ekki eitthvað tengt einstaklingum sem aðhyllast ákveðinni stjórnmálastefnu. Þessir hópar koma úr öllum hlutum þjóðfélagsins. Til eru þeir sem vilja lækka allar greiðslur ríkisins sem er ákveðin hugsjón. Þetta fólk vill bara að það borgi minna og að við hin greiðum svo meira í staðinn. Er það sanngjarnt?
Við þekkjum öll vin eða fjölskyldumeðlim sem bölvar í sífellu yfir hlutum eins og hjólastígum, ríkisstyrktri list, þjóðvegum eða sköttum. Viðkomandi er ekki slæm manneskja en í mörgum tilvikum hefur hann étið upp áróður þrýstihópa sem eru honum að mestu ókunnir. En hvers vegna?
Þó lýðræði sé besta stjórnarformið sem við þekkjum þá hefur það sína galla. Við erum öll persónur og flest okkar hafa ekki aðgang að sama pólitíska þrýstingi og stórir hagsmunaðilar. Þess vegna eru landslög stútfull af undarlegum undanþágum fyrir sérhagsmunahópa sem halda þvi fram að ekkert gæti gengið upp ef eitt myndi gilda um alla.
Kannski er ég svona barnalegur en fyrir mér er það staðreynd að ef við ætlum að gera eitthvað í sameiningu þá þurfa allir að taka þátt. Undanþágur geta vissulega átt við en þegar þær eru meirihluti löggjafarinnar má kannski aðeins taka til.
- Af veirum og vöðvabólgum - 19. nóvember 2020
- Minningahöll að molum orðin - 5. október 2015
- Steypum yfir miðbæinn! - 30. september 2015