Líklegast þýðir lítið að fela það. Ég er einlægt leiður yfir þessari útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ekki reiður, dofinn, hræddur eða í hefndarhug. Nei, ég er núna einfaldlega leiður. Eins og flestum Evrópusinnum þá líður mér eins og eitthvað fallegt hafi brotnað.
Hvernig sem á það er litið þá töpuðum við Evrópusinnarnir þessum leik. Og ekki bara út af óheppni. Auðvitað fengum við nóg af tækifærum til að hindra þessa niðurstöðu. Og ég meina ekki að hindra hana með einhverjum bellibrögðum heldur eftir eðlilegum leikreglum lýðræðisins.
1) Íhaldsflokkurinn vann kosningar þar sem hann boðaði þjóðaratkvæði um málið.
2) Útgöngusinnar unnu þá þjóðaratkvæðagreiðslu.
3) Flokkar sem studdu niðurstöðuna þjóðaratkvæðisins unnu kosningarna í kjölfar hennar.
4) Íhaldsflokkurinn vann svo öruggan sigur í kosningunum í desember þar sem hann setti útgöngu á oddinn.
Sigur Evrópusinna í einhverjum af þessum fernum kosningum hefði stöðvað málið. Það var samt ekki vilji til að setja málið í þann forgang að gera það. Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar stukku á hugmyndina um þjóðaratkvæði. Af því að það er víst svo asnalegt að vera á móti þjóðaratkvæðum.
Engin alvörubandalög voru svo mynduð af Evrópusinnum í þingkosningum í kjölfar atkvæðagreiðslunnar. BREXIT-flokkurinn bauð ekki fram gegn sitjandi þingmönnum íhaldsflokksins. Sú strategía gekk eftir.
Ekkert sambærilegt var í gangi á hinum vængnum. Skoskir þjóðernissinnar, SNP, vildu ná fram annarri atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands, Frjálslyndir demókratar sáu fram á að stækka, og Verkamannaflokkurinn vildi verja sitt. Með þessum sundurlausu markmiðum var engu að síður fallist á að flýta kosningum. Táknrænast í því er líklega að formaður eins evrópusinnaðasta flokksins, Frjálslyndra demókrata, var felldur af frambjóðanda SNP. Og formaður Verkamannaflokksins steig aldrei inn í þessa baráttu af nokkrum krafti, enda bersýnilegat ESB-andstæðingur inni við beinið. En auðvitað var ekki hægt að losna við hann í tíma.
Niðurstaðan var auðvitað eins og við er að búast þegar maður mætir inn á völlinn og er ekki einu sinni búinn að ákveða hver eigi að vera í marki. Það verður bara að viðurkennast. Það var meiri ástríða og betra skipulag í hinu liðinu.
Það breytir því ekki að er ég leiður yfir því hvernig fór. En kannski veit maður ekki bara hvað maður hefur verið heppinn. Á þeim fjörutíu árum sem ég hef fengið að trítla á þessari jörð hafa tæplega þrjátíu verið samfelld sigurganga þeirra sem aðhyllast alþjóðahyggju, evrópusamvinnu og pólitísk bandalög þjóða í þágu friðar, fríverslunar og lýðræðis. En nú er raungerast eitt mesta bakslag í þeirri þróun.
Það besta við ESB hefur alltaf verið geta þess til að bjóða þjóðum að taka upp lýðræði, réttarríki og frjálsan markað eftir ákveðinni forskrift sem virkar. Það módel virkaði fyrir Spán, Portúgal, Grikkland, öll lönd í Mið- og Austur-Evrópu, og síðar á Balkanskaga. Þetta var ákveðin saga sem virkaði. Með brotthvarfi Breta er sagan augljóslega löskuð og ekki jafnáhrifarík. Þau gildi sem ESB stendur fyrir, og eru góð, munu ekki geta smitað samfélög með sama auðvelda hætti og áður.
Eins og áður sagði. Það er eins og eitthvað fallegt hafi brotnað. En svona er lífið. Það þýðir víst ekki annað en að andvarpa í dágóða stund, hrista þetta af sér og halda svo áfram.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021