Sunnanvindur hefur blásið um lánamál á Íslandi síðastliðið ár. Þegar alheimsástand sparkaði okkur niður var höggið svo fast að hið ótrúlegasta gerðist; lánakjör á Íslandi bötnuðu. En eins og vitað er fylgir sunnanvindinum ekki aðeins eintóm sæla.
Leiðin hingað var ekki auðveld. Því allt frá bankahruninu árið 2008 hafa verið í gangi dómsmál og lagasetningar – sem hluti af uppgjöri við þann tíma. Og skyldi engan undra því bankahrunið var vissulega mikið högg á fjármálalíf Íslendinga.
Hluti af viðbrögðum hins opinbera við stöðunni þá, voru lagasetningar þar sem bönkum var bannað að lána einstaklingum nema að undangengnu mati á lánshæfi.
Auk þess var þeim gert að veita lántakendum ráðgjöf um væntanlega lántöku.
Þetta útspil ríkisins var vanhugsað. Bankarnir fylgja nú kröfunni um greiðslumat af hörku þrátt fyrir að niðurstaða þess sé oft glórulaus.
Sem dæmi má nefna að í reglum um greiðslumatsfyrirkomulag er þess sérstaklega getið að taka þurfi tillit til samgöngukostnaðar. Þannig er bönkum óheimilt að líta til þess að einstaklingur búi og starfi á sama stað. Þetta hefur aldrei átt vel við – hvað þá í dag.. Sömuleiðis er bönkunum óheimilt að líta til þess að einstaklingur eða par hafi staðið í skilum á leigugreiðslum sem eru jafnvel langt umfram niðurstöðu greiðslumats bankans.
Að þessu leiti fylgir bankinn reglum ríkisins að öllu leiti en minna hefur farið fyrir faglegri, áreiðanlegri og óháðri fjármálaráðgjöf. Kannski má að einhverju leiti yfirfæra sökina á löggjafann. Því fyrirtæki sem stunda hagnaðardrifna lánastarfsemi mun líklega ekki vera fært um að veita að fullu óháða ráðgjöf.
Allir sem tekið hafa lán í banka vita að sjaldnast hafa þeir eitthvað um það að segja hvaða starfsmaður ráðleggur þeim. Og í því getur falist nokkur áhætta. Engin krafa er gerð af ríkisvaldinu um hvað starfsfólkið þarf að kunna. Engin hæfnisviðmið eða skýr stefna í því með hvað hætti þessi ráðgjöf skuli veitt.
Hefði verið betra að eyða Ríkispúðrinu í að efla fjármálafræðslu?
Og er það ekki dapurlegt að bankarnir skuli geta valið sér að fylgja einni lexíu bankahrunsins, þeirri sem þeim hentar, af fullum krafti en skilja hina eftir í rykmekkinum?
- Eitt en ekki annað - 21. maí 2021
- Hvað ertu að gera hérna? - 22. apríl 2021
- Hvernig er fattið? - 11. mars 2021