Ef við værum að horfa á bíómynd þá hefði Covid-19 greining forseta Bandaríkjanna verið atriðið sem við hefðum sagt okkur að þetta hefðum við átt að sjá fyrir að myndi gerast. Vísbendingarnar um þennan snúning í sögunni hefðu jú allar verið til staðar. Því hvernig hefði forsetinn talað? Hafði hann ekki látið eins og veiran væri ekki hluti af hans veruleika? Allt hefðu þetta verið vísbendingar sem hefðu átt að leiða áhorfandann að því að sjálfur myndi forsetinn svo enda smitaður af vírusnum. Auðvitað fékk forseti Bandaríkjanna Kína-vírusinn sem hann svo hafði kallað.
Við vöknuðum upp við tíðindin í morgun. Kona hans hafði einnig greinst (sem er enn og aftur áminning um að veiran er bráðsmitandi og að lítil samskipti þarf milli fólks til að smita). Pólitískur ráðgjafi forsetans sem ber nafnið Hope hafði smitað forsetann. Þegar 32 dagar eru til kosninga eru þetta dramatísk tíðindi. Spurningin er mun frekar hver áhrifin verða. Forsetinn er á þessum tímapunkti 8% undir á landsvísu. Þrátt fyrir að Biden hafi yfirhöndina í baráttunni er sigur hans alls ekki vís, enda getur óskaplega margt gerst á mánuði í kosningabaráttu. Afleiðingar Covid-19 greiningar forsetans eru hins vegar þær að forsetinn stendur frammi fyrir því, jafnvel þó hann veikist ekki að ráði, að einangrun heggur í hans dýrmætustu eign í baráttunni. Tíminn er það sem helst vann með honum.
Þessar kosningar voru framan af kosningar sem Biden hafði tökin á meðal annars vegna þess að honum tókst að halda athygli fólks og fjölmiðla við það að kosningarnar snerust um árangur og aðgerðir Trump forseta í kjölfar Covid-19. Kosningabaráttann snerist fyrir hálfum mánuði með andláti Ruth Bader Ginsburg. Demókratar urðu þá fyrir þungu áfalli og Trump tókst að beina athyglinni að því mikilvæga verkefni að skipa nýjan Hæstaréttardómara. Sviptingar baráttunnar halda áfram því nú stendur bandaríska þjóðin ekki aðeins frammi fyrir því að forseti þjóðarinnar hefur greinst með Covid-19 því útlit er fyrir að vírusinn hafi aftur komist í kastljós kosningabaráttunnar. Stórar spurningar lúta að því hvaða áhrif þessi tíðindi muni á lokakafla kosningabaráttunnar. Verði veikindi forsetans alvarleg, sem er auðvitað óskandi að verði ekki, gæti það haft áhrif á trúverðugleika hans gagnvart kjósendum í ljósi þess að forsetinn hefur sjálfur gert lítið úr hættu veirunnar og gert grín að því að Joe Biden gangi um með grímu í kosningabaráttunni og hefur líka gert grín að Biden fyrir að hafa fækkað kosningafundum. Síðast á þriðjudag var Trump spurður út í þá ákvörðun að halda fjölmennan kosningafund. Þá svaraði hann því til að slíkir fundir hefðu ekki haft nein neikvæð áhrif á kosningabaráttu hans. Nú spyrja fjölmiðlar hvenær forsetinn hafi smitast og hversu lengi hann hafi vitað af smitinu. Sótti hann kosningafundi vitandi af því hver staðan var? Gæti hann hafa smitað Joe Biden sem stóð með honum á sviði í kappræðum á þriðjudagskvöld? Þá hefur það verið rifjað upp að forseti Bandaríkjanna stóð með Amy Coney Barrett á fréttamannafundi um síðustu helgi í Rósagarðinum, þegar hann greindi frá því að hún væri kandidat hans í Hæstarétt Bandaríkjanna.
Önnur grundvallarbreyta er að tímaramminn fyrir það ferli að skipa nýjan hæstaréttardómara þótti afar þröngur fyrir en nú má telja sennilega að það gæti tafist, jafnvel þannig að það náist ekki fyrr en í nóvember. Að loknum kosningum.
- Í þágu hverra er auðlindaákvæði? - 7. júní 2021
- Síðustu 17 ár Ruth Bader Ginsburg – hvaða þýðingu höfðu þau? - 14. maí 2021
- Má gagnrýna góð markmið? - 2. apríl 2021