Ég tel mig vera eina af þessum heppnu konum því mér hefur ekki verið nauðgað.
Ég hef „bara“ verið áreitt kynferðislega eins og flestar og líklegast allar konur. Þetta er hluti af daglegu lífi okkar og sögurnar mínar eru léttvægar miðað við allan hryllinginn sem ég hef lesið síðustu vikur í annarri bylgju MeToo.
Atvikið þarna í rútunni í Suður-Ameríku var svona frekar óþægilegt.
Þið vitið, ekki beint þægilegt þegar rútubílstjórinn er að keyra um miðja nótt einhvers staðar í fjöllunum en er líka að reyna að grípa í hárið á þér og hálsinn til að fá þig til að totta sig.
Ég náði að koma mér undan en það eina sem ég hugsaði eftir á var hversu heimskulegt það var af mér að koma mér í þessar aðstæður.
Ég hefði bara átt að harka af mér í svitabaðinu aftast í rútunni í stað þess að fara fram í til bílstjórans fyrir ferskt loft. (Það var sko ekki hægt að opna glugga annars staðar í rútunni.)
Ég hugsaði ekki um hversu óviðeigandi og viðbjóðslegt það var af þessum rútubílstjóra að haga sér svona gagnvart mér.
Síðan er það auðvitað til að æra óstöðugan að ætla að rifja upp og telja til öll skiptin sem ég hef þurft að þykjast eiga kærasta eða kærustu á barnum til að losna undan áreitni ógeðslegra karla.
Enda eru skiptin óteljandi, sem og öll skiptin þar sem ég hef verið ein á gangi í Reykjavík, einni öruggustu borg heims, dauðhrædd um að einhver ráðist á mig.
Og athugið: ég forðast að vera ein á ferð seint á kvöldin, nema ég sé þá helst á bíl. Ég er hrædd ef það er komið myrkur og það er frekar þreytt, búandi á Íslandi þar sem er mikið myrkur stóran hluta ársins.
Ég viðurkenni að ég er svolítið hugsi yfir því hvað mér þykir þessi kynferðislega áreitni sem ég hef orðið fyrir lítið tiltökumál. Og þessi ótti, ég kippi mér líka lítið upp við hann.
Ég smætta þessa reynslu mína því flestar ef ekki allar konur sem ég þekki hafa lent í einhverju sambærilegu og margar einhverju svo miklu, miklu verra. Þetta er daglegur hluti af lífi okkar.
Við hljótum öll að vera sammála um að tími sé til kominn að kynferðisleg áreitni og kynferðisofbeldi hætti að vera hluti af daglegu lífi kvenna. Þetta er ekki eðlilegt ástand.
Í mínum huga er leiðin að því markmiði ekki flókin: þeir sem áreita okkur og beita okkur ofbeldi eiga og verða að hætta. Ábyrgðin er þeirra.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021