Þegar maður byrjar að fylgjast með íþróttum eftir langt hlé getur það virkað yfirþyrmandi að finna réttu leikina til þess að horfa á og gerast spenntur yfir. Sönn stórveldi íþróttanna eru yfirleitt á sínum stað, en þegar litið er á liðaskipan í efstu deildum með tíu til fimmtán ára millibili þá hefur töluvert breyst.
Fyrir fimmtán árum var til að mynda röð efstu liða í ensku deildinni kunnugleg. Manchester United varð meistari, tíu stigum á undan Arsenal og ellefu á undan Liverpool. Liðin sem urðu þá í fjórða og fimmta sæti (Leeds og Ipswich) eru ekki lengur í úrvalsdeild. Bradford City og Coventry voru tvö neðst og féllu, og tóku með sér liðið sem nú virðist vera það langbesta í ensku úrvalsdeildinni, Manchester City. Í heildina eru bara þrettán félög eftir af þeim tuttugu sem skipuðu ensku úrvalsdeildina fyrir fimmtán árum síðan.
Þetta flökt á liðum milli deilda er hiklaust einn stór kostur evrópskrar deildakeppni umfram bandarískar íþróttir, eins og hafnarboltann, sem fjallað var um síðasta föstudag. Fallbaráttan er oft ekki síður spennandi heldur en toppslagurinn í knattspyrnudeildum Evrópu, á meðan neðstu liðin í bandarísku íþróttadeildunum hafa ekki að neinu að keppa nema að lenda sem neðst til þess að eiga möguleika á að velja til sín betri nýliða.
En þetta getur líka valdið ruglingi og óöryggi. Það er semsagt ekki vandræðalaust að velja leikina sem eru þess verðir að fylgjast með, þegar það er langt gap í þekkingu manns á íþróttinni. Og hvernig gæti maður þá farið að því að finna réttu leikina til þess að horfa á?
Í angist minni yfir þessu setti ég upp einfalda leið til þess að leggja mat á hvernig tíma mínum fyrir framan sjónvarpsskjáinn yrði best varið. Svarið við þessu, eins og mörgu öðru, er hægt að finna í Excel. Hugmyndin er að leggja mat á hversu áhugaverðir leikir eru út með því að líta annars vegar til þess hvar liðin eru í deildinni, og hins vegar hversu langt er á milli þeirra. Rökin eru þau að jafnan sé áhugaverðara að fylgjast með betri liðum en slökum, en einnig að áhugaverðara sé að fylgjast með liðum sem eru áþekk að styrkleika heldur með liðum þar sem getumunurinn er mikill. Út frá þessu er hverjum leik gefin einkunn—eins konar eftirvæntingarvísitölu—á skalanum 1 til 100, þar sem leikur milli tveggja efstu liða fengi 100 stig. Munurinn á stöðu félaganna kemur beint inn í jöfnuna, en tekin er kvaðratrótin af stöðu félaganna í deildinni (fengin með samanlagðri sætatölunni).
Augljóst er að þessi nálgun mun ekki í öllum tilfellum skila hárréttri niðurstöðu. Í lokaumferð er augljóst að leikur á milli liðanna í 17. og 18. sæti er áhugaverðari en leikur á milli liðanna í 9. og 10. sæti. Þessi nálgun tekur auðvitað ekki heldur tillit til annarra þátta, svosem eins og sögulegra illdeilna félaga eða þess háttar. Hér er því um tilraun að ræða sem getur gefið ágæta vísbendingu um það hvar líklegast sé að finna góðan leik.
Hér að neðan er því að finna lista yfir leiki næstu helgar í ensku deildinni:
Swansea City (8. sæti) – Everton (7. sæti) 56 stig
Bæði liðin hafa byrjað skemmtilega. Fyrir okkur Íslendinga eru Swansea leikir vitaskuld skylduáhorf en Everton hefur líka byrjað stórvel—og má benda sérstaklega á hinn stórgóða Ross Barkley og hinn náföla Steven Naismith, sem gerði þrennu gegn Chelsea síðustu helgi eftir að hafa komið inn á sem varamaður snemma í leiknum.
Leikurinn er réttilega sýndur á Stöð 2 Sport 2 kl. 14 á laugardaginn.
Liverpool (10. sæti) – Norwich (9. sæti) 51 stig
Allir leikir Liverpool eru tilfinningaþrungnar stundir. Mín reynsla af aðdáendum Liverpool er að þeir séu að jafnaði fámálir og einrænir að eðlisfari en skrúfi eingöngu frá tilfinningakrananum í þessar rúmu nítíu mínútur sem þeirra menn spila í deildinni—og skiptir þá litlu máli hvort eitthvað sé í húfi, hver sé staðan í deildinni eða hversu langt er liðið frá því að ljóst varð að tímabilið í heild yrði enn ein vonbrigði. Leikurinn um helgina skorar hins vegar hátt í væntingavísitölu, enda er Norwich með jafnmörg stig og Liverpool um miðja deild.
Leikurinn er sýndur á Stöð 2 Sport 2 kl. 15 á sunnudaginn.
Aston Villa (15. sæti) – WBA (14. sæti) 43 stig
Þetta gæti verið leikurinn sem kemur á óvart. Aðeins eitt stig skilur liðin að. Aston Villa mátti teljast óheppið að tapa 3-2 fyrir Leicester um síðustu helgi, og kemur líklega inn í leikinn nagandi sig í handarbökin yfir glötuðum tækifærum það sem af er tímabili. Svipaða sögu má segja um WBA sem hélt eflaust að lukkudísirnar væru farnar að fljúga í takt með þeim þegar þeir töpuðu naumlega fyrir meisturum Chelsea í þriðju umferð (áður en það kom endanlega í ljós hversu lélegt Chelsea liðið er). Liðin koma vafalaust bæði inn í þennan leik með það markmið að sýna og sanna að fallbarátta verði ekki hlutskipti þeirra á þessari leiktíð.
Leikurinn er sýndur á Stöð 2 Sport 3 kl. 13.50 á morgun.
Manchester City (1. sæti) – West Ham (5. sæti) 42 stig
Það hefur verið unun að fylgjast með Manchester City í deildinni hingað til. Frammistaða liðsins í fyrstu leikjum tímabilsins gefur til kynna að það eigi jafnvel möguleika á Evrópumeistaratitli í vor þótt mótlætið gegn Juventus í vikunni varpi ákveðinni efasemdaslikju yfir þá ályktun. West Ham stendur líka vel miðað við væntingar, byrjaði tímabilið á óvæntum 0-2 sigri á Arsenal á Emirates, valtaði svo yfir Liverpool á Anfield, 0-3, og vann svo sannfærandi sigur á Newcastle um síðustu helgi, 2-0.
Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsending kl. 16.20 á morgun.
Bournemouth (16. sæti) – Sunderland (19. sæti) 31 stig
Bournemouth byrjaði deildarkeppnina af krafti og leit út fyrir að Öskubuskuævintýri félagsins gæti haldið áfram. Liðið hefur verið óheppið að landa ekki fleiri stigum, en baráttuandinn og leikgleðin eru allsráðandi. Þessi leikur er kjörið tækifæri fyrir heimamenn að landa sínum fyrsta sigri í efstu deild.
Leikurinn er sýndur á Stöð 2 Sport 6. Útsending hefst kl. 13.50 á morgun.
Tottenham (12. sæti) – Crystal Palace (6. sæti) 27 stig
Leikur Crystal Palace og Manchester City um síðustu helgi hefði fengið 100 stig, enda hafði Crystal Palace unnið alla leiki sína fram að því og var í öðru sæti á eftir City. Og leikurinn var aldeilis þess virði að sjá, því Crystal Palace var aðeins örfáum mínútum frá því að taka stig af Manchester City og líma sig upp í topp deildarinnar. En þetta var dýrt stig og Palace er komið í 6. sæti. Hið göfuga lið Tottenham hefur því tækifæri til þess að jafna Palace að stigum í þessum leik og endurraða stöðunni í miðju deildarinnar.
Leikurinn er sýndur á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsending kl. 12.20 á sunnudag.
Southampton (11. sæti) – Manchester United (3. sæti) 23 stig
Eins og alþjóð veit urðu Rauðu djöflarnir fyrir áfalli í vikunni þegar þeir misstu Luke Shaw úr leik og töpuðu fyrsta leiknum í Meistaradeildinni. Leikurinn um helgina lítur ekki út fyrir að ætla að verða áhugaverður, nema auðvitað fyrir þann stóra hóp Íslendinga sem trúir á Rauðu djöflana umfram öll önnur goð, menn og meinvætti. Ef aðdáendur Manchester United kæmu sér saman um þingframboð er líklegt að flokkurinn yrði stærri en Píratar. Fyrir vikið er alltaf þess virði að fylgjast með úrslitum Manchester United, þótt ekki sé nema til þess að vita hversu mikla nærgætni þurfi að sýna stuðningsmönnum liðsins næstu daga.
Leikurinn er vitaskuld sýndur á Stöð 2 Sport 3 og hefst útsending kl. 13.50 á morgun.
Newcastle (20. sæti) – Watford (13. sæti) 21 stig
Það er svosem ekki margt um þennan leik að segja. Þetta er leikurinn sem allir mega missa af um helgina. Hann er þó sýndur beint á Stöð 2 Sport á morgun og hefst útsending kl. 13.50.
Chelsea (17. sæti) – Arsenal (4. sæti) 16 stig
Þetta er vitaskuld leikurinn sem að öllu jöfnu hefði átt að vera stórleikur helgarinnar. Chelsea er enskur meistari og Arsenal er eitt af stórveldunum. Við þetta bætist áratugalangar illdeilur milli knattspyrnustjóra liðanna, Jose Mourinho og Arsene Wenger, sem njóta þess í ystu æðar að gera hvor öðrum tjón og falli spá. En Chelsea hefur verið hreint út sagt ömurlegt í upphafi tímabilsins og miðað við fyrstu fimm umferðinar á liðið mjög takmarkaðan möguleika gegn stórgóðu Arsenal liði. Reiknireglan gefur þessum leik bara 16 stig, enda tekur hún ekki tillit til þeirrar ánægju sem stór hluti knattspyrnuáhugamanna fær út úr því að horfa á Chelsea tapa—helst illa.
Leikurinn er sýndur á Stöð 2 Sport 2 kl. 11.45 á morgun.
Stoke (18. sæti) – Leicester (2. sæti) 13 stig
Þetta er minnst spennandi leikurinn á dagskrá ensku deildarinnar um helgina. Hið eina sem segja mætti áhugavert um leikinn er að með sigri getur Leicester náð að stimpla sig inn sem lið sem taka þarf verulega alvarlega í deildinni í vetur, í staðinn fyrir að vera fallbyssufóður eins og flestir sérfræðingar spáðu. Út frá reiknireglunni hér að ofan er varla hægt að hugsa sér minna áhugaverðan leik.
Leikurinn er sýndur Stöð 2 Sport 4 kl. 14, og hefði að ósekju mátt nýta þann útsendingartíma betur, til dæmis með endursýningu á torfærukeppni frá 9. áratuginum.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021