Í ársbyrjun 2020 kynnti meirihluti borgarstjórnar áform um skertan opnunartíma á leikskólum. Ákvörðunin mætti andstöðu fjölbreyttra hópa sem töldu breytinguna geta dregið úr framgangi foreldra á vinnumarkaði, ógnað starfsöryggi og valdið ófyrirséðum tekjumissi.
Áhrif þjónustuskerðingarinnar voru sett í jafnréttismat en niðurstöður lágu fyrir á sumardögum. Þær sýndu glöggt þau neikvæðu áhrif sem breytingin myndi hafa á margvíslega hópa samfélagsins. Hér mætti nefna foreldra með takmarkaðan sveigjanleika í starfi, svo sem fólk af erlendum uppruna, fólk í vaktavinnu og lágtekjuhópa. Eins mætti nefna fólk sem ferðast um langan veg til vinnu, til að mynda íbúa efri byggða sem starfa vestarlega í borginni. Ekki síst myndi breytingin þó hafa veruleg neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.
Leikskólinn sem jafnréttistæki
Kynjajafnrétti mælist reglulega mest á Íslandi. Við stöndum framarlega í alþjóðlegum samanburði. Háskólamenntuðum konum hefur fjölgað. Feðrum býðst nú fæðingarorlof. Foreldrar deila í auknum mæli fjölskylduábyrgð. Árangur hefur náðst í jafnréttisbaráttunni. Samt reynist konum enn torvelt að standa jafnfætis körlum á vinnumarkaði.
Kynbundinn launamunur mælist reglulega um 10% hérlendis. Þeim körlum sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs fækkaði á síðustu árum. Hundruð barna sitja föst á biðlistum eftir leikskólavist í Reykjavík. Hundruðforeldra komast ekki aftur á vinnumarkað í kjölfar barneigna. Konur eru líklegri til að taka á sig aukna umönnunarbyrði heimilanna og mæta breyttum þörfum fjölskyldunnar. Fjölskylduvandinn er gjarnan á herðumkvenna. Mæður taka enn á sig mesta ábyrgð barnauppeldis – því betur má fórna kvennalaunum en karlalaunum. Konur sitja eftir í vítahring.
Rannsóknir sýna jákvæð áhrif barneigna á launaþróun karla, en neikvæð áhrif á launaþróun kvenna. Vinnandi konum er gjarnan falin minni ábyrgð í kjölfar barneigna en karlar hljóta aukinn framgang. Atvinnurekendur virðast margir álykta að barneignir dragi úr framlagi kvenna á vinnumarkaði. Minni atvinnuþátttaka kvenna á vinnumarkaði hefur svo aftur áhrif á tekjuöflun þeirra, framgang í starfi og lífeyriskjör.
Þó leikskólinn sé sannarlega fyrsta skólastigið og mikilvægur liður í þroskaferli sérhvers barns – þá er hann ekki síður jafnréttistæki. Óskert leikskólaþjónusta er því mikilvæg í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.
Tími fyrir tilslakanir
Þrátt fyrir niðurstöðu jafnréttismats ákvað meirihluti borgarstjórnar að takmarka opnunartíma leikskólanna síðastliðið haust. Uppgefin ástæða þjónustuskerðingar var sögð sóttvarnir, jafnvel þó fjölmargar aðrar leiðir væru færar sem ekki kölluðu á skertan opnunartíma. Til samanburðar fundu frístundaheimili borgarinnar farsælar leiðir til sóttvarna án þess að komið yrði niður á þjónustu við fjölskyldur. Það duldist engum að meirihlutinn sætti hér færis og notfærði sér viðkvæmar aðstæður í þjóðfélaginu svo knýja mætti fram fyrirhugaða þjónustuskerðingu.
Síðan hafa liðið fjölmargir mánuðir. Við erum stödd um miðbik aprílmánaðar. Faraldurinn og tilheyrandi takmarkanir hafa tekið margvíslegum breytingum. Í gærdag voru jafnvel kynntar enn frekari tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum – en hvað sem öðru líður kynnir Reykjavíkurborg engar fyrirhugaðar tilslakanir á þjónustuskerðingum leikskólanna.
Um nokkurra mánaða skeið hafa ríflega 5.200 fjölskyldur lifað við skerta leikskólaþjónustu í Reykjavík. Jafnréttismatið sýnir glöggt hvernig breytingarnar geta unnið gegn framgangi kvenna á vinnumarkaði, ógnað starfsöryggi fólks af erlendum uppruna og komið illa niður á lágtekjuhópum. Við höfum náð góðum árangri í baráttunni við veirunna og tímabært að huga að tilslökunum og aukinni þjónustu við borgarana. Það er tímabært að tryggja aftur óskerta leikskólaþjónustu í Reykjavík. Eftir hverju erum við að bíða?
- Hjólaborgin - 16. júní 2021
- Brúarsmíði í borginni - 18. maí 2021
- Eftir hverju erum við að bíða? - 14. apríl 2021