Skattar eru eflaust mörgum ofarlega í huga enda rennur frestur einstaklinga til að skila framtalinu út eftir tvo daga. Þó að flest séum við sátt við að borga sanngjarnt gjald í rekstur ríkisins eru mörk fyrir því sem getur talist eðlileg skattheimta. Á einhverjum tímapunkti fer of stór hluti vinnu okkar í sameiginlega sjóði og of lítið er eftir til að uppfylla okkar persónulegu markmið. Má færa fyrir því rök íslenska ríkið sé komið ansi nærri þessum mörkum enda tekur það vænan skerf af nær öllum peningafærslum.
Þó svo að skattar séu fyrst og fremst hugsaðir til að fjármagna ríkið og til tekjujöfnunar geta þó komið upp tilvik þar sem skynsamlegt er að nýta þá til að búa til efnahagslega hvata og bregðast við óviðráðanlegum ytri aðstæðum.
Dæmi um slíkar ytri aðstæður eru áhrif hlýnunar jarðar af mannavöldum. Sífellt fleiri átta sig á því að ekki er í boði að bíða og sjá hvað verður, heldur eru skjótar aðgerðir nauðsynlegar til að hindra voveifleg afleiðingar eftir aðeins nokkur ár.
Ýmislegt hefur verið lagt til. Ríkisstjórn Íslands lagði t.a.m. nýlega fram áætlun um aðgerðir í loftslagsmálum sem miðar að því að draga úr losun koltvísýrings til að geta staðið við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.
Margar af þeim aðgerðum munu hafa töluverð áhrif á daglegt líf á næstu árum og eflaust má deila um hversu miklu þær skili. Líklega er skilvirkasta leiðin að settu marki hækkun kolefnisgjalds eða kolefniskatts. Forsenda slíkrar skattheimtu hlýtur að teljast nokkuð traust, ekki síst vegna þess að um er að ræða ytri markaðsáhrif sem erfitt er að verðleggja með öðrum hætti.
Lofslagsvandinn er gott dæmi um mál sem hægt er að lýsa með hugtakinu um harmleik sameignarinnar eða Tragedy of the commons. Gengur það í grófum dráttum út á að einstakir aðilar hegða sér einungis út frá eigin hagsmunum þangað til að sameiginleg gæði eru ónýt eða fullnýtt.
Þar sem flókið er að skilgreina eignarétt á andrúmsloftinu er erfitt að samræma skammtímahagsmuni einstaklingsins við hlýnun jarðar. Þó að afleiðingarnar geti verið hörmulegar, virka hvatarnir þannig að mikil hætta er á því að skeytingaleysi gagnvart umhverfismálum getur leitt til þess að ekki verði gripið tímanlega í taumana.
Af þessum sökum er erfitt að benda á markaðslausn á loftslagsvandanum. Því liggur beint við að freista þess að hafa áhrif á þessa hvata t.d. með sérstöku gjaldi eða skatttöku til þess að kostnaður þess að blása út t.d. koltvísýringi sé nær raunvirði þessara ytri áhrifa.
Hvernig til tekst veltur töluvert á útfærslu gjaldtökunnar. Dæmi er um að slík skattlagning hafi t.a.m. mætt andstöðu frá hópum sem finna mikið fyrir breytingum á t.d. eldsneytisverði. Hættan er að slík skattlagning komi einna harðast niður á tekjulágum hópum enda er erfitt að útfæra slíka álagningu án þess að hún komi niður á grunnframfærslu. Skemmst er að minnast mótmæli gulu vestanna í Frakklandi sem fyrst spruttu upp vegna hærra skatta á eldsneyti og fóru langt með að lama efnahagslífið tímabundið.
Því er mikilvægt að forsendur stjórnvalda fyrir auknum álögum séu skýrar. Að það sé tekið fram að ekki sé stefnan að hækka skatta almennt heldur lækki önnur gjöld á móti. Ljóst á að vera í hvað þessir fjármunir eigi að fara og síðast en ekki síst þarf skattlagningin að vera gagnsæ og rökrétt. Þar sem um neysluskatta væri að ræða mætti til dæmis athuga fýsileika þess að lækka virðisaukaskatt á móti hærri kolefnisskatti enda eru þeir í eðli sínu ekki ólíkir.
Til að auka líkurnar á sátt um slíkar álögur er nauðsynlegt að það sé alveg skýrt að ekki sé um enn eina leiðina til að auka frekar á nú þegar himinháa skattlagningu. Því er forsenda hækkunar kolefnisskatts lækkun annarra gjaldtöku til að innheimta ríkisins fari ekki út fyrir eðlileg mörk.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021