Heilsufræðin er stundum eins og lauf í vindi. Það fer oft hreinlega eftir því hvaða vindátt er, hvort súkkulaði er hollt í dag eða ekki. Hins vegar starfar fólk við það alla daga að gera rannsóknir á áhrifum matar og drykkja á líkamann. Hinn almenni neytandi er með þumalputtareglu. Sykur og fita eru fitandi, glútein og hveiti er agalega óhollt en það er hollt að drekka vatn, borða grænmeti og prótein. Jú og það er mjög fínt að vera á lágkolvetnakúr ef þú ert í yfirvigt.
Að vinna bug á offitu er gleðiefni. Breyta um lífstíl og endurheimta heilsu og almenn lífsgæði aftur. Fólk fer oft ólíkar leiðir að þessum markmiðum. Sumir borða einfaldlega minna, einhverjir fara í GSA matarfíkla-prógramm, aðrir taka út sykur, hveiti og mjólkurvörur eða byrja á frumbyggja-kúrnum PALEO. Enn aðrir fara í drastískar aðgerðir eins og hjáveituaðgerð þar sem maginn er minnkaður eða fá sér svokallað magaband sem er töluvert inngripsminni aðgerð.
Við erum svo ólík mannskepnan að það er ekkert eitt sem hentar öllum. Flestir reyna þó líklegast að forðast sykurinn og gengur það misvel hjá fólki. Sumum gengur best ef þeir fjarlægja sykur algjörlega úr mataræðinu en aðrir eiga auðveldara með að neyta sykurs í hófi. Fyrir þá sem eru að skera niður sykur í sínu mataræði getur reynst erfitt að kveðja gamlan vana. Gosdrykkir spila oft stóran þátt í neyslumynstri margra einstaklinga og veitir ákveðna friðþægingu eða umbun. Mörgum reynist erfitt að neyta matar án þess að geta skolað honum niður með hinu alræmda sykurvatni og veitti það því gosfíklum í megrunarhugleiðingum nýja von þegar sykurlausir gosdrykkir fóru að skjóta upp kollinum. Ný rannsókn sýnir þó að neysla sykurskerts goss geti tengst aukinni kviðfitu og líkum á hjarta- og æðasjúkdómum auk þess að geta mögulega haft áhrif á efnaskipti líkamans. Þetta hlýtur að vera áfall fyrir þá sem snéru sér að sætuefnagosi í þeim tilgangi að laga mittismálið. Hið þveröfuga er að koma í ljós. Sætuefnadrykkir eru hugsanlega fitandi og ekki bara það heldur mjög ávanabindandi líkt og sykurinn. Spyrjið bara þá sem drekka Pepsí Max.
Rannsóknir hafa sýnt að undanfarna þrjá áratugi hefur neysla á bæði gervisætu og diet gosi aukist svo um munar. Á þessu sama tímabili hefur offita orðið eitt af stærstu heilsufarsvandamálum í hinum vestræna heimi. Þessir drykkir voru þó settir á markað til að sporna við þeirri þróun sem þegar var hafin og til að mæta kröfu neytenda um hitaeiningasnauða drykki. Það skyldi því varast að setja þessar staðreyndir í samhengi án frekari sannana um tengsl. Á Íslandi hafa skammtar á sælgæti og ís líklega þrefaldast á þessu sama tímabili ásamt því að McDonalds hélt innreið sína ásamt fleri skyndibitastöðum.
Flestar þær rannsóknir sem kanna tengsl milli neyslu diet drykkja og hjarta- og æðasjúkdóma hafa verið unnar á miðaldra fólki og ungu fólki. Þessi nýja rannsókn kannar skaðleg áhrif á eldra fólk, 65 ára og eldri. Tilgangurinn var að varpa ljósi á þennan hóp þar sem byrðin á heilbrigðiskerfið og kostnaðinn við hjarta- og æðasjúkdóma væri mikill enda þjóðir heims að eldast.
Rannsóknin sem kallast San Antonio Longitudinal Study of Aging (SALSA) var með 749 í úrtakinu, Mexíkóbúa, Bandaríkjamenn og Evrópubúa sem hófu þátttöku árið 1992 og 1996. Diet gosdrykkjaneysla þeirra var skoðuð, mittismál mælt ásamt hæð og þyngd. Eftirfylgni átti sér svo stað 2001-2004.
Við greiningu gagnanna fundu rannsakendur það út að meðalmittismál þeirra sem drukku sykurskerta gosdrykki var næstum þrefalt þeirra sem drukku ekki diet gos. Á því níu ára tímabili sem rannsóknin stóð yfir kom eftirfarandi í ljós þegar búið var að taka mið af ákveðnum þáttum sem mögulega gætu haft truflandi áhrif á rannsóknina.
- Hjá þeim sem aldrei drukku diet gos jókst mittismál um 0,77 cm.
- Hjá þeim sem stundum drukku diet gos jókst mittismál um 1,76 cm.
- Hjá þeim sem drukku daglega diet gos jókst mittismál um 3,04
Niðurstaðan var því sú að bein tengsl virtust vera milli aukinnar neyslu sykurskertra drykkja og kviðfitu sem rannsakendur töldu auka líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum í eldra fólki. Ráðleggingin var því sú að eldra fólk sem drekkur oft diet gos, ætti að draga úr neyslu sinni, einkum og sér í lagi ef það er í áhættuhópi þeirra sem líklegri eru til að fá hjarta- og æðasjúkdóma.
Vert er að nefna svona í lokin, þar sem alls kyns rannsóknir hafa komið fram sem sýna oft hið þveröfuga. Í fyrra voru niðurstöður afar umdeildrar rannsóknar birtar sem sýndu fram á að neysla diet gosdrykkja væri öflugra tæki í baráttunni við aukakílóin heldur en neysla á vatni. Við nánari grennslan kom í ljós að sú rannsókn var sérstaklega styrkt af American Beverage Association og stýrt af vísindamanni sem hafði unnið sem ráðgjafi hjá Coca Cola.
Hvað veldur því að þeir sem drekka diet gosdrykki virðast eiga auðveldara með að bæta á sig kviðfitu skal ekki fullyrt um hér. Það eru þó alltaf að bætast við fleiri vísbendingar þess efnis að diet drykkir séu ekki sú töfralausn sem fólki var talið í trú um að þeir væru. Þetta þýðir þó ekki að það eigi algjörlega að sniganga diet gosdrykki því líklega eru þeir ekki jafn skaðlegir og þeir sykruðu að flestu leyti. Þeir hafa til dæmis ekki jafn skaðleg áhrif á tennur fólks og ættu ekki að stuðla að sykursýki. Það skal þó hafa í huga að ef maður er að leytast eftir því að vera í formi er gamla góða vatnið mikið töframeðal og hófsemi hvað skammtastærðir varðar er gulls ígildi.
Heimild: http://www.medicalnewstoday.com/articles/291089.php
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021