Draumóradeildin

Úrslitakeppnin í amerísku NFL deildinni hefst á morgun, og mun stór hluti Bandaríkjamanna hvorki tala eða hugsa um annað næstu vikurnar. Eins og allir vita þá er ameríski ruðningurinn íþrótt þar sem leikmenn halda á boltanum í höndunum og keppast við að bera inn í mark andstæðinganna og reyna á víxl að kasta boltanum fram, hlaupa með hann í flóknum mynstrum eða einfaldlega ryðjast með hann í gegnum þvögu. Öðru hverju er reyndar sparkað í boltann, en það er fyrst og fremst þegar liðunum hefur mistekist að koma boltanum áleiðis með höndunum. Þess vegna er leikurinn kallaður fótbolti.

Það hefur löngum farið í taugarnar á Evrópufólki (og kúltiveruðum ameríkönum) að þessi kjánalega nafngift á amerískum ruðningi valdi því að hin fagra íþrótt—knattspyrnan—skuli vera kölluð því barnalega heiti „soccer“ í Vesturheimi. Reyndar hafa Evrópumenn engum öðrum en sjálfum sér að kenna um þetta, þar sem nafnið „soccer“ mun eiga upptök sín á Bretlandseyjum. Hér á landi hefur verið reynt að klína nafninu „ruðningur“ á íþróttina en líklegt er að þeir einu sem noti það heiti á íþróttina séu þeir sem halda að Denver Broncos sé hestakyn og New England Patriots sé hluti af hinni svokölluðu Teboðshreyfingu.

En hvað sem nafngiftinni líður, þá er ameríski fótboltinn langstærsta og vinsælasta íþróttin í Bandaríkjunum—og verður óðum vinsælli víða annars staðar, þar á meðal hér á landi. Reyndar eru yfirburðir NFL deildarinnar yfir annað sjónvarpsefni í Bandaríkjunum fáheyrðir. Þegar tímabilið hófst í Bandaríkjunum nú í haust voru NFL leikir vinsælasta sjónvarpsefnið í 29 af 30 stærstu sjónvarpsmörkuðum Bandaríkjanna. Af þeim tuttugu útsendingum í sögu bandarísks sjónvarps sem hafa fengið mest áhorf eru allar þeirra amerískur fótbolti, og var metið slegið þann 1. febrúar sl. þegar 168 milljónir áhorfenda sáu svindlarana frá Boston, í New England Patriots, leggja Seattle Seahawks að velli í úrslitaleik deildarinnar.

Fyrir okkur mörlendinga, sem þekkjum lítt til þessarrar framandi íþróttar, getur verið erfitt að átta sig á vinsældunum. Við fyrstu sýn virðist lítið vera að gerast á vellinum. Leikmennirnir raða sér upp gegnt hvor öðrum og keyra svo inn í hóp andstæðinganna með gríðarlegum látum, hjálmaskaki og brambolti. Oftast nær hnikast staðan á vellinum nánast ekkert. Áhugamenn um knattspyrnu horfa gjarnan á þessar aðfarir af mikilli fyrirlitningu og sjá það íþróttinni helst til ágætis að hægt sé að taka upp gagnleg áhugamál samhliða ameríska fótboltanum, til dæmis hekl og aðrar hannyrðir. Þetta er skemmtileg ályktun þar sem bandarískir íþróttaáhugamenn hafa löngum talað á svipuðum nótum um knattspyrnuna.

En hvað er það sem veldur þessum ógnarvinsældum ameríska fótboltans?

Nefna má nokkrar ástæður þess að ameríski fótboltinn hefur komist í þá yfirburðastöðu sem hann nýtur, og sumar þeirra skýra einnig að einhverju leyti hvernig stendur á því að Íslendingar og aðrir Evrópubúar hafa í auknum mæli smitast af NFL-æðinu.

Í fyrsta lagi þá er leikurinn sjálfur skemmtilegri, flóknari og líflegri en virðist við fyrstu sýn. Hver einasta sókn er útspekúleruð og á milli varnar og sóknar er stöðugur sálfræðihernaður þar sem vörnin reynir að giska á hvað leikstjórnandi andstæðingsins hefur í hyggju. Flóknum leikkerfi sóknarinnar er ætlað að búa til glufur í varnarleiknum svo hægt sé að senda boltann á hlaupara eða einfaldlega hlaupa með boltann framhjá varnarmönnunum áleiðis að marki. Þjálfarar og leikstjórnendur liðanna eru í raun að spila skák með lifandi mönnum, þótt hið óþjálfaða auga sjái ekkert annað en hamagang og tiviljanir.

Í öðru lagi er leikurinn mjög ofbeldisfullur. Þetta höfðar til margra. Allur kúlturinn í kringum NFL deildarinnar höfðar samtímis til karlmannlegra stæriláta og ýmis konar strákslegra stæla. Þetta má sjá glögglega á þeim auglýsingum sem sýndar eru í ótalmörgum leikhléum. Þar eru fullvaxta karlmenn oft og iðulega sýndir sem vitsmunalega og andlega staðnaðar strákar sem lifa eins og Pétur Pan í eilífri barnæsku. Algengt þema í auglýsingum þessum er að gera grín að líkamlegum væsklum, hommalegum karlmönnum og gáfnaljósum. Það verður heldur ekki sagt að saga NFL deildarinnar á síðustu árum gefi tilefni til þess að sæma deildina sérstökum friðarverðlaunum; enda er mýgrútur leikmanna með alls kyns misalvarlega dóma, kærur og ásakanir á bakinu—gjarnan fyrir ruddalega framkomu eða ofbeldi gagnvart konum, ólöglega meðferð skotvopna og þess háttar. En það er misjafn sauður í mörgu fé og hafa forystumenn deildarinnar sýnt umtalsverðan metnað í þá átt að draga úr meðvirkni með þess háttar hegðun. Þeim bestu fyrirgefst þó flest—nema þá helst ef upp kemst að þeir séu vondir við dýr, enda er það ekki karlmannlegt.

Í þriðja lagi má nefna að í kringum íþróttina eru stundaðir gríðarlega vinsælir getraunaleikir og veðmálaiðnaður. Fyrir mjög mörgum er áhuginn á NFL deildinni fyrst og fremst til kominn af þátttöku í draumadeildum (fantasy leagues) þar sem aðdáendur hafa fyrst og fremst áhuga á því að þeir leikmenn sem þeir hafa valið úr hinum ýmsu klúbbum þá vikuna nái tölfræðilega góðum árangri. Að halda með liði, fylgja því í gegnum þykkt og þunnt, er alls engin forsenda til þess að gerast forfallinn áhugamaður. Það er ekki óalgengt að sjá áhugamenn um deildina eyða meiri tíma í að fylgjast með stöðuuppfærslum úr draumadeildum sínum á meðan á leik stendur heldur en með leiknum sem verið er að sýna. Á undanförnum árum hafa nokkur fyrirtæki fundið aðferðir við að umbreyta þessum draumadeildum í fjárhættuspil. Reyndar hefur verið að koma í ljós að þessir leikir eru í meira lagi vafasamir, og eru flestir þátttakendur hafðir af féþúfu. Amersíki fótboltinn er vitaskuld ekki eina bandaríska íþróttin þar sem svona veðmálastarfsemi þrífst—en þar sem íþróttin ber höfuð, herðar, hjálm og axlapúða yfir allar aðrar, þá vekur hneykslið í kringum hinar svokölluð Draumadeildir (Fantasy leagues og Daily Fantasy) einkum sprottið upp í tengslum við NFL deildina.

Nú um helgina fer fram fyrsta umferð í úrslitakeppni NFL deildarinnar. Þrátt fyrir alla þá vankanta sem upp hafa verið taldir á NFL deildinni verður erfitt að halda sig fjarri skjánum þegar þessir leikir verða háðir. Á laugardag mætast Kansas City Chiefs og Houston Texans og Pittsburgh Steelers mæta Cincinatti Bengals. Á sunnudag heimsækir Seattle Seahawks lið Minnesota Vikings, og verður áhugavert að fyljgast með heljarmennunum keppa í allt að fimmtán stiga frosti. Sama dag mætir lið Green Bay Packers til Washington og mætir heimamönnum í Redskins. Fyrir þá sem hafa áhuga á því að veðja á leikina skal því spáð hér að Kansas City sigri Houston, Cincinatti vinni Pittsburgh, Seattle skáki Minnesota og Washington komi öllum á óvart og leggi Green Bay að velli.

Góða NFL helgi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.