Á Ísafirði er starfrækt merkilegt fyrirtæki, Dokkan Brugghús. Gott ef ekki að það komist á sama stall og Vagninn á Flateyri – staðurinn sem ávallt er á undan sinni framtíð og óþarfi er að kynna. Enda eiga þessir rekstraraðilar það sameiginlegt aðgera lífið skemmtilegra eða hið minnsta aðeins bærilegra.
Dokkan er fyrsta vestfirska handverksbrugghúsið og hið eina eins og sakir standa. Fyrsti bjórinn leit dagsins ljós sumarið 2018. Dynjandi IPA, Drangi, Dokkan Pale og Djúpið eru allt ljúffengir bjórar sem hægt er að mæla með og vafalaust lesendum Deiglunnar að góðu kunnugir. Ekki er heldur amalegt að koma við í brugghúsinu sjálfu, ræða við eigendur, smakka smá og kynnast framleiðsluferlinu. Nema það er ekki hægt að kaupa vöruna og taka með heim eins og harðfiskinn sem keyptur var á fyrri viðkomustað.
Dokkan og önnur handverksbrugghús landið um kring eiga ekki eingöngu í samkeppni við stærri framleiðendur um hylli neytenda eins og eðlilegt er heldur þurfa þau að standa í frekar harðri og einkennilegri glímu við einokunarverslun ríkisins með áfengi og tóbak um hillupláss og sölustaði fyrir sínar vörur. Brugghúsunum er svo heldur ekki heimilt að auglýsa vöru sína en himinhátt áfengisgjaldið skal greitt til ríkisins hvað sem öðru líður. Starfsumhverfi og rekstrarskilyrði brugghúsanna er jafn bagalegt og sjálf tilvist Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
En jákvæð breyting er sem betur fer innan seilingar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, mælti í vikunni fyrir frumvarpi á Alþingi þess efnis að heimila handverksbrugghúsum sölu á vörum sínum á framleiðslustað. Ekki er um að ræða stóra breytingu á annars úreltri áfengislöggjöf en hún er engu að síður mikilvæg og tryggir betur jafnræði í áfengisverslun og bætir stöðu brugghúsanna nokkuð gagnvart ægivaldi ríkisins. Hér er um að ræða stjórnarfrumvarp og því má ætla að traustur þingmeirihluti sé fyrir samþykkt frumvarpsins og fyrst þingmenn Framsóknarflokksins eru fylgjandi málinu þá er varla mikla andstöðu að finna í þinginu.
Því miður er ekki að finna í frumvarpi dómsmálaráðherra heimild til handa innlendum vefverslunum að selja áfengi í smásölu til neytenda eins og erlendum vefverslunum er heimilt að gera hér á landi. VG og Framsóknarflokkur virðast hafa staðið gegn slíkri breytingu við ríkisstjórnarborðið. En ef meirihluti þingmanna er fylgjandi þeirri sjálfsögðu og nauðsynlegu breytingu þá ætti sú breytingatillaga við frumvarp dómsmálaráðherra eðlilega að koma fram og verða að lögum.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020