Eftir þrjátíu ár verður partý í bílakjallara Hörpu um hverja helgi. Já: eitthvað munu menn þurfa gera við öll tómu bílastæðin.
***
Íslendingar hafa áður byggt sér menningarhús, sem var á mörkum fjárhagslegrar getu þeirra. Bygging Þjóðleikhússins dróst svo áratugum skipti. Húsið var planað í bjartsýniskasti… tafðist í kreppu… og svo framvegis.
Neðst í Þjóðleikhúsinu var kjallari sem nota átti undir kolageymslur og kyndiklefa, svo gestunum yrði nú ekki kalt. Hugmyndin var góð fyrir sinn tíma en ný tækni, hitaveita, gerði þetta allt saman óþarft. Í dag er rýmið notað undir sýningar og fyllerí.
***
Það er algengt að bílar séu keyrðir 12000 km á ári. Sem sagt 1000 km á mánuði eða um 30 km á dag. Miðað venjulega ferðahraða í borgum má gera ráð fyir að þannig venjulegur bíll sé þá í gangi í um klukkutíma á dag. Hina 23 tímana stendur hann ónotaður, ýmist við heimili eigandans, hjá vinnustað hans eða við hliðina á einhverri búð.
Sjálfakandi bílar (sem í framtíðinni verða einfaldlega kallaðir “bílar”) munu koma. Það verður algjör bylting. Sumir hafa áætlað að með góðu neti þess háttar leigubíla (í samkeppnisrekstri, auðvitað) væri hægt að skera niður bílaflotann niður í 10% af því sem hann er í dag. Ég tek fram, það er ekki markmið í sjálfu sér að fækka bílum. En þessi þróun mun lækka ferðakostnað fólks. Flestir þurfa bara bíl í klukkutíma á dag. En þeir borga fyrir að eiga hann hann allan sólarhringinn. Einhver verður ríkur af þessu. Og líf allra verður betra fyrir vikið.
Það mun ekki lengur þurfa fjöll af mislægum gatnamótum í miðborgum. Og það sem meira máli skiptir: það mun ekki þurfa margar hæðir af bílastæðum við hlið stórra húsa. Bílarnir munu skutla fólki á staðinn og halda svo áfram sína leið.
***
Í hinum eldri hverfum Reykjavíkur eru víða kjallarar sem oft voru ekki hugsaðir sem fullburða vistarverur þegar húsin voru byggð. Þarna voru oft einmitt einhver verkstæði, verkunareldhús, kyndiklefar, áhaldageymslur og önnur herbergi sem fólk tók með sér úr sveitinni. Mörg þessara rýma hafa verið nú gerð upp og fólk býr þarna, oftast ágætlega sátt. Samt reyna menn að banna fólki að byggja kjallaraíbúðir í nýbyggingum, sannfærðir um að enginn vill raunverulega búa svona.
Ég veit ekki hvað gert verður við alla bílakjallarana þegar snjallbílabyltingin kemur. Kannski mun ný sólarbirtutækni gera okkur kleift að breyta þeim í íbúðir. Eða kannski verður það ekki leyft og hver maður mun eignast eigið bruggrými eða eigin prívat sveppagróðrarstöð. Veit ekki.
Þetta verður auðveldara með bílakjallarana miðsvæðis. Það verður gaman þegar hægt verður að nýta allt þetta neðanjarðarrými í miðborg Reykjavíkur í eitthvað skemmtilegt eins og veitinga-, djamm- eða verslunarrekstur. Já, ég spái því að það verði dag einn skemmtistaður í Hörpukjallara. Þá kunn kannski einhver þá prenta út þennan pistil og líma hann á klósettvegg svo gestir staðarins geti lesið hann. Og glott yfir spádómsgáfu minni meðan þeir kúka.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021