Fjölmargar skýringar eru á því af hverju Vesturlönd unnu Kalda stríðið. Hin augljósasta er sú að allt þjóðskipulag andstæðingsins var grundvallað á hugmyndafræði sem er ósamrýmanleg mannlegu eðli og bar dauðann í sér í fleiri en einum skilningi. En skýringarnar eru fleiri, einkum á því sem snýr að sjálfum lyktum þessa stríðs.
Framan af Kalda stríðinu var endirinn auðvitað ekki vís. Sovétmenn höfðu á að skipa mörgum af færustu vísindamönnum heims og í krafti alræðis og miðstýringar tókst þeim – á yfirborðinu – að ná forskoti á hinn frjálsa heim á mörgum sviðum. Þeir voru þannig fyrri til að koma manni út í geim og margt benti til þess út á við að þjóðskipulag kommúnista væri að virka. Kapphlaup stórveldanna var í þeim skilningi tvísýnt.
En í kapphlaupi þjóðanna, fólksins sem bjó sitt hvorum megin járntjaldsins, varð snemma ljóst hver úrslitin yrðu. Frjálst markaðsskipulag, sem byggði á lýðræði og mannréttindi, réttarríki þar sem frelsi fólks til orðs og æðis var í hávegum, tók forystuna svo um munaði. Kúgun og skortur þjóðanna austan varð áþreifanlegur í samanburði við lífsgæði Vesturlandabúa eftir því sem árin liðu.
Níundi áratugurinn varð að samfelldu og langvinnu dauðastríði Sovétríkjanna og leppríkja þeirra. Í janúar 1980 tók Ronald Reagan við forsetaembætti í Bandaríkjunum og stefna hans gagnvart Kremlverjum var einörð og nokkurn veginn alveg laus við málamiðlanir. Öflugur einkageiri Vesturlanda var smám saman að valta yfir ríkisrekna iðnaðinn austur frá þegar kom að tækniframförum. Með Reagan komu skarpari skil í hinni hugmyndafræðilegu baráttu og skilaboð hans náðu eyrum þeirra sem lifðu í ánauð austan tjaldsins.
Frelsið hafði getið af sér dægurmenningu sem var óþekkt í alræðisríkjunum – poppið eða popkúltúrin sem geislaði af frjálsum hugsunarhætti og lífsgæðum, velsæld og velmegun. Gallabuxur og tjáningarfrelsi. Rétt eins og boðskapur Reagans náði þessi bylgja til íbúa Austur-Evrópu. Í fullkominni óþökk yfirvalda leyfðu íbúar sér í felum að njóta þessara gæða í smáskömmtum, og máttu sæta þungum refsingum ef upp komst um þessi svik þeirra við sósaíalismann.
Þennan straum var vonlaust að hemja. Í dauðastríðinu reyndu alræðisöflin að veita hinum kúguðu þegnum sínum aðgang að dýrðinni með afmörkuðum hætti í þeirri von að það mætti verða til seðja hungrið eftir frelsinu og fólk gæti svo haldið áfram að vinna samkvæmt hinni sósíalísku hugsjón þegar slíkum viðburðum væri lokið.
Gott dæmi um þannig viðburð eru tónleikar með bandaríska tónlistarmanninum Bruce Springsteen sem haldnir voru með vitund og vilja yfirvalda í Austur-Þýskalandi hinn 19. júlí 1988 í Austur-Berlín. Þar söng Springsteen fyrir 300 þúsund manns undir yfirskriftinni “Rock the Wall”. Andstætt vonum valdhafanna urðu tónleikarnir ekki til þess að seðja hungur fólksins eftir frelsinu. Þvert á móti. Frelsisþorstinn varð óslökkvandi og árið eftir risu íbúar Austur-Þýskalands upp og rifu niður múrinn sem aðskildi þessa tvo heima.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021