Einhvern tímann heyrði ég þá sögu að hrossaskítur hefði verið talsvert vandamál hér í höfuðstaðnum í kringum aldamótin 1900, það er að segja uppsöfnun hans vegna vaxandi mannfjölda, en hesturinn var þá auðvitað helsti fararskjótinn. Þetta vandamál hvarf svo að segja á einni nóttu þegar nýr fararskjóti reið inn í samfélagið, bíllinn.
Tuttugasta öldin var öld bílsins. Áhrif hans eru eiginlegri ótrúlegri en orð fá lýst. Ekki bara gerði bíllinn það að verkum að olía varð eftirsóknarverð og því fylgdi bæði áður óþekkt ríkidæmi og átök um hagsmuni, heldur varð bíllinn líka menningarlegt fyrirbæri, táknmynd framfara og velsældar, þegar best lét. En kannski hafa stærslu áhrif bílsins verið á uppbyggingu og skipulag borga og bæja um gervalla heimsbyggðina.
Í Rússlandi eru fáir vegir. Ástæðan er einföld. Enginn átti bíl og þess vegna var ekki þörf fyrir vegi, Herinn komst allt sem hann þurfti og það var nóg í Sovetríkjunum. Uppúr 1970 fengu menn þá hugmynd að byggja nýtt hverfi í Reykjavík uppi á holti í órafjarlægð frá annarri byggð, Breiðholtið. Það hefði aldrei orðið að veruleika nema fyrir bílinn. Raunar hefur því verið haldið fram að ráðandi öfl hafi beinlínis skipulagt borgina til að auka þörf fyrir bíla og langa keyrslu í þeim tilgangi að selja Íslendingum meira bensín. Það er eflaust rakalaus samsæriskenning og verður ekki eytt frekara púðri í hana á þessum vettvangi, ekki að svo stöddu í það minnsta.
En nú virðast vera breyttir tímar. Bíllinn er á hálfgerðu undanhaldi, hann er óvelkominn víða og að honum þrengt, með réttu eða röngu. Táknmynd frelsis og velmegunar er nú að verða hornreka. Ég tel reyndar að það verði skemmtilegra að eiga og keyra bíl þegar yfirstandandi breytingar eru um garð gengnar og samgöngumöguleikar verða fjölbreyttari. Bílum mun fækka, í það minnsta ekki fjölga jafn hratt, og það verður meira pláss. Fleiri munu blanda saman fararskjótum og kannski láta heimilin sér einn bíl duga.
Bílastæðavandamál og umferðarhnútar eiga rætur sínar í ferðaþörfinni, að þurfa sí og æ að endasendast milli bæjarhluta í alls kyns tilgangi, einkum til og frá vinnu á bílnum, eins og bent var á þessum vettvangi fyrir tuttugu árum. Bílinn er þannig ekki vandmál frekar en hesturinn var fyrir rúmum hundrað árum og ný tækni getur leyst vandamálið nú eins og hún gerði þá.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021