Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti á dögunum áform um stórauknar hjólreiðar á Englandi. Íslenska ríkið ætti að taka þetta sér til fyrirmyndar. Auðvitað hefur margt verið gert, nú er til dæmis í gangi vinna við endurskoðun hjólreiðaáætlunar Reykjavíkur, en þótt höfuðborgin megi alveg leiða þarf ríkið samt að vera með.
Hér er hrár listi af hugmyndum fyrir slíka landsstefnu:
Bættar leiðir út úr Höfuðborgarsvæðinu
Út úr Höfuðborgarsvæðinu liggja leiðir til þriggja átta. Vestur til Keflavíkur þarf að hjóla í vegöxl Hraðbrautar. Í mörg ár hefur verið rætt um að bæta tengingu milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur en það ekki klárað. Á leið norður er aðeins hægt að hjóla í vegöxl Vesturlandsvegar og svo er komið að Hvalfjarðargöngum og þar sem hjól komast ekki. Leiðin austur fyrir fjall liggur í gegnum heiði og er hættuleg hjólreiðafólki. Í raun er höfuðborgarsvæðið nánast einangrað hvað hjólreiðar varðar og fáir möguleika á þægilegum dagsferðum út úr því.
Öflugri innviðir í bæjum utan höfuðborgasvæðisins.
Á fjölmörgum stöðum utan Höfuðborgarsvæðis ættu hjólreiðar hæglega að geta orðið einn af aðalferðamátum bæjarbúa, alla vega hluta ársins. Tökum bæi eins og Vík í Mýrdal, Ísafjörð eða Selfoss. Margir bæir á Íslandi eru af fullkominni stærð til þess og liggja ekki í mikilli brekku.
Sveitarfélögin þurfa að fjárfesta: koma upp hjólastígum, semja við hjóla- og rafhjólaleigur, koma upp viðgerðarstöndum og skoða að merkja skemmtilegar leiðir út fyrir bæjarmörkin.
Hjólahraðbrautir í þéttbýli
Bæta þarf þarf margar lengri leiðir milli bæjarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu. Breikka þarf stígana, fækka kröppum beygjum, fækka ljósum, fækka brekkum eins og kostur er, t.d. með byggingu undirganga. Dæmi um þetta er til dæmis leiðin milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Eðlilegt er að skoða þetta samhliða lagningu borgarlínu.
Aðgreindar hjólareinar í borgargötum
Í Reykjavík, og víða á Höfuðborgarsvæðinu eru búið að leggja flotta stíga á grænum svæðum. En það þarf að fjölga og bæta við fleiri hjólareinum meðfram götum, svona að dönskum sið, draga þannig úr umferðarhraða og auka öryggistilfinningu hinna hjólandi.
Merkt hjólaleið frá Seyðisfirði til Suðurnesja
Fyrir sjör árum var unnin mjög fín skýrsla um hvernig tengja mætti Ísland inn í Eurovelo – hjólanetið með leið milli Seyðisfjarðar og Keflavíkurflugvallar. Fyrst og fremst snerist þetta um merkingar en þó myndi hjólastígur milli Hellu og Hvolsvallar, þar sem bílaumferðin er mest, hjálpa til við að gera leiðina öruggari. Síðan þá hefur lítið gerst. Því miður því þetta er einfalt verkefni sem gæti orðið mjög vinsælt.
Að lokum
Fleira mætti auðvitað tína til eins og fjárhagslega og skattalega hvata og fleira. En ég held að innviðirnir skili mestu. Það verður að vera þægilegt að hjóla til að fólk hjóli. Við eigum að taka fram landakortið og byrja að láta okkur dreyma. Að þessu sinni er ekkert að því að taka sér Íhaldsmanninn Boris Johnson til fyrirmyndar.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021