Það hefur verið áberandi í öllum störfum þríeykisins landsfræga að þau sýna sveigjanleika og skilning í ákvarðanatöku og reyna að aðlaga aðgerðir sínar að þörfum þjóðarinnar. Aðgerðirnar voru vissulega strangar en gengu ekki of langt og að sama skapi hafa tilslakanir verið nokkuð hraðar en þó eimir enn eftir af hömlum.
Eitt ætlar þríeykið þó ekki að gefa sig með. Það er opnunartími skemmtistaða. Þetta sýnir þekkingu á þjóðinni; Víðir er lögreglumaður, Þórólfur ættaður úr Eyjum og Alma er landlæknir og öll vita þau sem er að þarna má ekki gefa tommu eftir. Ölvunarstig þjóðarinnar er kúfur sem er ekki hægt að fletja. Það eykst ekki línulega með hverri klukkustund heldur í veldisvexti. Og þá fer vitund fólks um sóttvarnir þverrandi en ásetningur til smits mjög vaxandi. Þetta veit þríeykið.
Við erum því að vinna með þá nýju reglu að skemmtistaðir loka klukkan 23. Þetta er það sem mætti kalla breska skólann, þar er almennt lokað snemma, en að sama skapi byrjað snemma. Helst bara beint eftir vinnu. Þá fara menn á pöbbinn, láta barþjóninn trekkja í pint, sem er flatur og lítið áfengur bjór en froðan myndast sem sagt við það að hann skellur í glasið. Þetta er þambað fram eftir kvöldi og svo heim klukkan ellefu. Þetta er kannski ekki alveg í samræmi við hugmyndir Íslendinga um upplyftingu enda hafa verið fréttir um að djammið hafi færst yfir í heimahúsin aftur. Summa lastanna er alltaf sú sama, hvort sem við erum í eldhúspartýi eða á B5.
Við höfum prófað eitt og annað í þessu. Þegar ég fór fyrst að venja komur mínar í miðbæinn þá lokuðu allir staðir klukkan þrjú. Þetta var fyrirbæri, það var t.d. talað um „kortér-í-þrjú-gæa“ sem voru graðar helgarhetjur sem vildu alls ekki fara einir heim. Þeir þurftu að athafna sig hratt og gerðu því tilboð í allar áttir áður en klukkan sló þrjú. Þetta var meira að segja heimfært yfir í pólitíska umræðu, þar sem flokkar voru sakaðir um kortér-í-þrjú takta þegar þeir dúkkuðu upp rétt fyrir kosningar með eitthvað mál sem átti aldeilis að taka fyrir en hafði kannski ekki verið áberandi fram að því. Allir staðir lokuðu samtímis og fyrir vikið var oft mikið mannhaf á Austurvelli og ótrúlegt en satt, talsvert um ágreining sem leiddi til slagsmála. Jafnvel að einhverjar af hinum hugumprúðu helgarhetjum hafi lent saman.
Þetta gekk auðvitað ekki til lengdar og það var ákveðið að breyta reglunum. Um tíma var opnunartími gefinn frjáls. Eins og stundum er með frelsið þá taka sumir það alla leið. Þannig voru ákveðnir skemmtistaðir opnir framundir hádegi næsta dag. Eða lokuðu jafnvel ekkert. Talandi um að vera ferskur daginn eftir, þarna voru menn jafnvel ferskir marga sólarhringa í röð, enda ekki endilega mikið selt af áfengi á þessum stöðum. Það var svo fallegur endir á þessari sögu þegar einn þessara staða opnaði aftur fyrir nokkrum árum og var þá mikið nýttur fyrir AA-fundi. Fersku mennirnir frá því um aldamótin gátu hist aftur, fengið sér sterkt kaffi og talað um gömlu góðu dagana. Entust sennilega ekki jafnlengi á fótum.
Síðar meir var aftur farið í að setja reglur um þetta en þó þannig að staðirnir lokuðu á misjöfnum tíma og þeir allra síðustu um fimmleytið. En nú höfum við tekið þetta langt langt aftur, staðir loka ellefu og það er til marks um langt kvöld í bænum að vera kominn heim á miðnætti.
Ég stend sjálfan mig reyndar að því að kunna ótrúlega vel við þetta fyrirkomulag. En ég er náttúrulega fyrir löngu búinn að breytast í manninn sem ég ætlaði aldrei að verða.
Læt hér fylgja með ljóðið „Kortér í þrjú“ eftir Benóný Ægisson:
Klukkan er korter í þrjú
og dauðinn óumflýjanlegur
ég stend í þvögunni vonlaus
og reyni að leiða þig hjá mér
hjá mér
nei
ekki lengur
hjá mér
og sandurinn í stundaglasinu
hefur orðið sér út um vaselín
og rennur hraðar
hraðar
æ hraðar
já það er engu logið
uppá hraðann
í nútímasamfélagi
kvöldið leið
án þess ég yrði þess var
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021