Loksins. Loksins er Donald Trump farinn úr Hvíta Húsinu, mögulega fyrir fullt og allt. Síðustu fjögur ár hafa verið ansi óþægileg, skrýtin, asnaleg, og satt best að segja deyfandi líka – maður er hálfdofinn einhvern veginn eftir þetta allt saman. Loksins er hann farinn þessi appelsínuguli sorakjaftur, þessi megalómaníska karlugla, þetta ofvaxna barn sem er Donald Trump. Loksins þurfum við ekki lengur að horfa uppá hann ala á sundrungu, ótta, óreiðu og ofbeldi. Loksins getum við snúið okkur aftur að því að fjalla um Bandaríkjaforseta af sæmilegri virðingu og spekt og loksins megum við leyfa okkur að vona að Bandaríkin verði aftur að þeirri driffjöður hins frjálsa heims sem þau voru hér áður.
Vonandi. Vonandi getum við leyft okkur að dreyma um akkúrat það. Joe Biden er nú forseti Bandaríkjanna; demókrati, talsmaður baráttu gegn kynja- og kynþáttamisrétti, umhverfissinni, bjartsýnis- og hugsjónamaður. Biden byggir brýr í stað þess að brenna þær, hann sameinar frekar en að sundra. Vonandi munum við sjá þessa eiginleika hans í verki nú þegar hann er tekinn við og vonandi munum við geta horft til Kamölu Harris varaforseta, og séð í henni sömu hugsjónamanneskjuna, reiðubúna til þjónustu við Bandaríkjamenn og þeirra hag, og þannig hag allra jarðarbúa. Vonandi.
En sennilega verður það þó þannig að heilbrigðisþjónusta í Bandaríkjunum verður ennþá illfáanleg fyrir þá sem minnst mega sín. Sennilega munu börn áfram deyja í bandarískum skólum í kjölfar skotárása. Svart fólk mun sennilega áfram þurfa að berjast fyrir jöfnum tækifærum, breyttum viðhorfum og munu sennilega áfram þurfa að þola gengdarlaust ofbeldi af hálfu bandarískra lögregluyfirvalda. Sennilega mun bilið milli repúblikana og demókrata halda áfram að breikka, tengsl þar á milli halda áfram að rofna og stemningin í bandarískri pólitík mun sennilega halda áfram að súrna. Og hvað með bandaríska þjóðfélagsumræðu, mun þar ennþá vera frjór jarðvegur fyrir neó-fasisma, anti-establishment raus og alternatívar staðreyndir og fake news? Sennilega, já.
Svo getur verið að allt þetta sé alrangt. Ef til vill munu sárin á bandarískri þjóðarsál gróa nú þegar blöðruselurinn er farinn til Flórída. Mögulega munum við sjá Bandaríkin stíga mikil framfaraskref í umhverfismálum, jafnréttismálum, velferðarmálum og í öðrum málaflokkum sem beðið hafa á hakanum nú í a.m.k. eitt kjörtímabil, ef ekki lengur. Kannski verða Bandaríkin skínandi borg uppi á hæðinni (e. shining city upon a hill), eins og John Winthrop sagði við fyrstu landnemana að þau yrðu. Kannski munu orð hans rætast um að augu allra þjóða beinist aftur að Bandaríkjunum og að aðrir leiti til Bandaríkjanna eftir fordæmum. Hvað sem því líður þá getum við núna allavega, í fyrsta skipti í sennilega fjögur ár, loksins leyft okkur að vona.
- Mexíkósk langa, rjómalöguð Mexíkósúpa, brauð og salatbar - 23. júlí 2021
- Opið bréf til lyfjafræðinga sem kunna ekki að telja - 15. júní 2021
- Graði-Rauður - 17. apríl 2021