Það er mikil kúnst að búa til góða hasarmynd og hvað þá vel heppnaðan þríleik af slíkum myndum. Ein sú best heppnaða hlýtur þó að teljast vera Lethal Weapon – „Tveir á toppnum“ eins og hún var auglýst í bíóauglýsingum íslensku dagblaðanna frumsýningarmánuðinn ágúst 1987. Þriðja myndin í bálknum kom út 1992 og í einni senunni eru þeir félagar Martin Riggs og Roger Murtaugh á hælum skúrkanna um götur Los Angeles. Eltingaleikurinn dregur þá á skrítinni holu í jörðinni að mati Riggs, leiknum af Mel Gibson, og hann spyr hvað þetta sé eiginlega. „Neðanjarðarlestin“ – The Subway, útskýrir Murtaugh. „Subway?? – L.A. has a Subway?“ muldrar Riggs við sjálfan á meðan hann hleypur niður stigann. Og það er ekki um að villast. Þetta er lestarstöð í smíðum. Og í klassísku hasaratriði endar Riggs á að keyra glænýja lest upp úr göngunum með braki og brestum.
Martin Riggs hefði líklega endað á að fá veglegan reikning frá félaginu Los Angeles Metro Rail fyrir skemmdirnar sem hann olli á fyrstu neðanjarðarlínu borgarinnar, hinni 26 km löngu A línu, sem opnaði sumarið 1993, ári eftir frumsýningu Lethal Weapon 3. En í reynd var þetta ágæt auglýsing fyrir Los Angeles County Metropolitan Transportation Authority sem þá var nýsameinað félag nokkurra minni eininga og hafði fengið það verkefni að endurreisa almenningssamgöngur í lestum fyrir Los Angeles, sem þá höfðu verið óstarfræktar í meira en 30 ár. Fjármagn hafði fengist í gegnum hlutdeild í söluskatti eins og algengt er með þannig verkefni í Bandaríkjunum. Í dag rekur félagið 6 lestarlínur (léttlestir og neðanjarðarlestir) og er með fjölda annarra í smíðum eða hönnun.
Það sem rak Los Angelesbúa til að samþykkja nýja skatta í þessum tilgangi voru síauknar umferðartafir á áttunda og níunda áratugnum. Tafir sem nýjar götur, slaufur og akreinar virtust aldrei ætla að ná að vinna á. Og samt er borgin þekkt fyrir tröllaukin umferðarmannvirki, slaufur á mörgum hæðum og hraðbrautir svo breiðar að þær líkja svörtum Amazonfljótum. Það sem Los Angelesbúar áttuðu sig á var að þú byggir þig ekki svo glatt út úr umferðarvandræðum með meiri umferðarmannvirkjum. Það kemur sá tímapunktur sem það verður hreinn ógerningur. Hitt verkefnið, að fá almenning til að nota almenningssamgöngur, er þó enginn hægðarleikur heldur. Og lengi vel voru farþegatölurnar í Los Angeles ekkert að hrópa húrra fyrir. En áfram héldu menn ótrauðir og í dag lítur út fyrir að kerfið sé orðið nógu stórt, og með nægilega mikla þekju, til að fleiri treysti sér til að nota það. Hlutdeild almenningssamgangna er nú 7%* en var 5% fyrir stuttu síðan og hafði verið lengi. Framundan eru gríðarmiklar fjárfestingar og væntingar um að hlutfallið aukist enn meira.
Nú er Reykjavík engin Los Angeles og umferðarvandamál svipur hjá sjón í samanburði. Engu að síður erum við að feta okkur á sömu brautir og sú borg gerði þegar Mel Gibson var enn með mullett. Fordæmið sem hún gefur okkur er að þótt borgin sé bílmiðuð, frekar dreifð og splundruð er það engin ástæða til að bjóða ekki upp á sem bestar almenningssamgöngur. Það er hægt að þoka farþegatölunum upp á við, þótt það geti tekið tíma. Borgarlínan mun líklega ekki byrja að hafa mælanleg áhrif fyrr en eftir mörg ár, kannski miklu seinna en yfirlýst markmið segja til um. En þá er fyrir öllu að hafa úthaldið og áræðnina til að halda ótrauð áfram. Erfiðið mun á endanum bera ávöxt. Það er Los Angeles leiðin.
* heimild: Los Angeles County Shared Mobility Action Plan. 2016.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021