Hjá sæfarendum var það og er enn þó nokkkur kúnst að sigla milli skerja, gæta að straumum, veðri og vindum. Lengst var byggt á reynslu og á hennar grundvelli voru síðan gerð sjókort sem siglt var eftir. Löngu síðar leysti tæknin þessa þekkingu af hólmi, upp að vissu marki.
Það sem við vitum af en sjáum ekki vekur yfirleitt með okkur ugg. Blindsker voru þau kölluð skerin sem ekki sáust, þau sem biðu undir yfirborðinu eftir því að skerast inn í byrðingin með tilheyrandi tjóni og mannskaða. Bitur reynsla varð til þess að blindsker í alfaraleiðum urðu smám saman þekkt en það breytti því ekki þau voru hulin og menn óttuðust þau.
Veirur eru ekki ósvipaðar. Við sjáum þær ekki með berum augum en við vitum af þeim og við vitum að þær geta verið hættulegar. Við lærum smám saman að lifa með þeim eins og við lærðum að sigla framhjá blindskerjum.
Enginn gat vitað hvað blindskerin voru mörg, en sem betur fer hættum við ekki að sigla, þrátt fyrir að menn gætu sagt sér að það væri mikið hættuspil og að blindsker gætu leynst út um allt. Þrátt fyrir allt þurfum við halda áfram, halda áfram að sigla, sætta okkur við að það er ekki hættulaust.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021