Í dag rennur janúar 2020 sitt skeið á enda. Janúar hefur í gegnum tíðina verið að ósekju úthrópaður sem þyngsti og leiðinlegasti mánuður ársins. Sem einlægur aðdáandi og rað-strengjari áramótaheita hef ég alltaf verið hrifin af janúar sem síendurteknum upphafspunkti bestu útgáfunnar af sjálfri mér. Í janúar ber einnig upp afmæli mitt sem ég gladdi mig ekki minna nú á 39. aldursári en það gerði þegar ég varð sex ára. En meira að segja janúar klappstýrur eins og ég verða að játa sig sigraða eftir það hlaðborð af leiðindum sem janúar 2020 hefur boðið landsmönnum upp á.
Náttúruöflin hafa látið rækilega finna fyrir sér og einhverjir hafa mögulega velt fyrir sér á ögurstundum hvort Ísland sé hreinlega byggilegt. Það hljóta að hafa verið fleiri lægðir en sólarstundir í janúar. Óveður hafa geisað, snjóflóð fallið, jarðskjálftar skekið og jörð bólgnað vegna meintrar kvikuþenslu sem kann mögulega að leiða til eldgoss á næstu dögum eða árhundruðum. Til viðbótar við okkar heimagerðu náttúruhamfarir hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna heimsfaraldurs á kórónaveiru. Og til að toppa allt þá hafa sumir samlandar okkar verið að ganga í gegnum veganúar og/eða dry janúar meðfram þessu.
Ef þetta væri ekki svona niðurdrepandi þá er eiginlega aðdáunarvert hvað janúar nær mikilli fjölbreytni í leiðindum. Hann má nú eiga það. Og fyrst við erum farin að horfa á jákvæðu hliðarnar þá hefur janúar náð að teygja á birtunni. Í upphafi mánaðar, 1. janúar, var sólin á lofti frá kl. 11:19-15:43 eða í 4 klukkustundir og 24 mínútur. Í dag, 31. janúar, er sólin á lofti frá kl. 10:12-17:10 eða 6 klukkustundir og 58 mínútur. Við þiggjum það. Svo færði janúar okkur sigur handboltalandsliðsins okkar á Dönum. Burtséð frá afrekinu að leggja ríkjandi heims- og ólympíumeistara þá er sigur á Dönum umfram aðrar þjóðir alltaf sætasti sigurinn sem liður í langvarandi hefnd okkar fyrir 14-2 tapið í vináttulandsleiknum á Idrætsparken í Kaupmannahöfn 1967. Takk fyrir það janúar, þér er ekki alls varnað. Þín verður samt ekki saknað.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021