Það er segin saga að þegar erfiðleikar herja á, þá eru það sem eru veikastir fyrir sem þjást mest. Börn eru eðli máls samkvæmt alltaf í þeim hóp sem getur litla björg sér veitt þegar ógn steðjar að. Þetta má glöggt sjá af þeirri beinu tengingu sem virðist vera milli efnahagssamdráttar og fjölgunar tilkynninga til Barnaverndar.
Í kjölfar bankahrunsins fjölgaði tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur um 13,6%. Árið 2009 dróst landsframleiðsla saman að raungildi um 6,5% og heildaratvinnuleysi á árinu 2009 varð 8% á ársgrundvelli.
Árið 2020 fjölgaði tilkynningum um 14% frá árinu á undan. Á sama tíma varð um 6,6% samdráttur í landsframleiðslu og atvinnuleysi mældist 6,4% á síðasta ári.
Það er áhugavert að skoða í þessu samhengi að langmesta fjölgun tilkynninga verður í þeim flokki sem heitir „vanræksla varðandi umsjón og eftirlit“ en í þeim flokki eru tilkynningar sem lúta að áfengis- og vímuefnaneyslu foreldra, ofbeldi gegn börnum og heimilisofbeldi. Hér er um að ræða þann flokk tilkynninga sem segja má að snúist um aðstæður og getu foreldra til að búa börnum sínum öruggar og þroskavænlegar aðstæður.
Á milli áranna 2008 og 2009 varð 43% aukning í tilkynningum um vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit (fóru úr 1015 í 1451). Á milli áranna 2019 og 2020 varð 16,5% aukning í sams konar tilkynningum (fóru úr 2075 í 2417).
Af þessu má sjá að þegar syrtir í álinn í efnahagslegu tilliti og atvinnuleysi eykst hefur það bein áhrif á stöðu og getu foreldra til að veita börnum sínum öruggar aðstæður og skyldi engan undra.
Hins vegar er ekki að sjá að efnahagskreppur hafi þessi sömu áhrif á aðstæður unglinga, a.m.k. ekki þegar horft er á þannfjölda tilkynninga sem varðar áhættuhegðun barna, en í þeim flokki eru fyrst og fremst unglingar. Á milli áranna 2019 og 2020 fjölgaði þeim tilkynningum um 5% (úr 1329 í 1394). Í þessum flokki eru t.d. tilkynningar um vímuefnanotkun unglinga en þeim fækkar á sama tíma um tæp 25% (úr 231 í 174). Á árunum 2008 – 2009 fjölgaði tilkynningum um áhættuhegðun barna um 2% (úr 1855 í 1893). Á sama tíma fjölgaði þó tilkynningum um vímuefnanotkun unglinga um 23,5% (úr 191 í 236).
Það er stórkostlegt að sjá þá miklu breytingu sem orðið hefur í fjölda tilkynninga sem lúta að áhættuhegðun barna á síðasta áratug. Fjöldi slíkra tilkynninga hefur farið úr 1893 (árið 2009) í 1394 (árið 2020). Í þessum flokki fækkar því tilkynningum um 26% á sama tíma og heildartilkynningum fjölgar um 23% (úr 4332 árið 2009 í 5316 árið 2020). Það er svo sem ekki efni þessarar greinar að fara yfir ástæður þessa, en það má svo sannarlega binda vonir við að þegar næsta efnahagskreppa skellur á okkur eftir 10 ár eða svo að í þeim hópi verði foreldrar sem í dag eru ungmenni sem almennt eru í miklu betri stöðu en ungmenni voru fyrir 10 árum síðan.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020