Barátta sem skiptir máli

„Ég er Marcus Rashford, 23ja ára svartur maður frá Withington og Wythenshawe, Suður-Manchester. Þrátt fyrir að ég hafi ekkert annað, þá hef ég að minnsta kosti það.“

„Ég er Marcus Rashford, 23ja ára svartur maður frá Withington og Wythenshawe, Suður-Manchester. Þrátt fyrir að ég hafi ekkert annað, þá hef ég að minnsta kosti það.“

Svona var niðurlagið í yfirlýsingu sem knattspyrnumaðurinn gaf út í vikunni eftir að hafa þurft að þola linnulaust kynþáttaníð og hótanir í kjölfar þess að hann brenndi af vítaspyrnu í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Evrópumótinu í fótbolta.

Marcus Rashford er fyrir margar sakir óvenjulegur knattspyrnumaður. Hann er fæddur árið 1997 inn í verkamannafjölskyldu. Móðir hans var einstæð og gekk í mörg störf til þess að sjá Marcus og fjórum eldri systkinum hans fyrir fæði og klæði.  Hann gekk í herbúðir Manchester United sjö ára gamall. Hann var algjörlega óþekktur sem leikmaður þegar hann var fyrir mildi örlaganna kallaður inn í byrjunarlið liðsins í Evrópuleik gegn danska liðinu Midtjylland í febrúar 2016 vegna þess að allir reyndari sóknarmenn liðsins reyndust meiddir. Rashford skoraði tvö mörk í leiknum og „the rest is history“ eins og sagt er. Hann var yngsti leikmaðurinn á EM 2016, hann lék á HM í Rússlandi árið 2018 og á nýafstöðnu Evrópumóti. Þá hefur hann verið í sigurliði ensku bikarkeppninnar, ensku deildarbikarkeppninnar og Evrópudeildarinnar auk þess sem breska dagblaðið The Guardian útnefndi hann knattspyrnumann ársins 2020. Hér er af nægu að taka en í stuttu máli er hann súperstjarna í knattspyrnuheiminum.

Þrátt fyrir afrek hans innan vallarins eru það ekki síst verk hans utan vallar sem gera hann óvenjulegan. Þekkjandi fátækt af eigin raun hefur hann látið að sér kveða í málefnum fátækra barna. Þar er einnig af nægu að taka. Í júni 2020 skrifaði Rashford opið bréf til bresku ríkisstjórnarinnar þar sem hann skoraði á stjórnvöld að binda enda á fátækt barna í landinu.[1] Barátta hans varð til þess að ríkisstjórnin breytti um stefnu og samþykkti að börn sem reiddu sig á fríar máltíðir í skólanum fengju líka mat í sumarfríinu. Fyrir vikið hlaut hann heiðursorðu Elísabetar Englandsdrottningar.

Rashford leiðir nýja kynslóð knattspyrnumanna sem þora að stíga fram og taka afstöðu. Knattspyrnumenn sem verja mannréttindi og nýta ítök sín og miðla til þess að hafa raunveruleg áhrif. Sjaldan, ef nokkurn tímann, hafa réttindamál verið eins áberandi á knattspyrnumóti og á EM í sumar. Fyrir leik Þýskalands og Ungverjalands hugðist þýska knattspyrnusambandið lýsa Allianz Arena knattspyrnuvöllinn í litum regnbogans, til stuðnings réttindabaráttu samkynhneigðra. Í vikunni áður hafði ungverska þingið samþykkt breytingar á lögum gegn barnaníð í landinu sem fól í sér bann við myndgerð eða kynningu á samkynhneigð fyrir einstaklinga undir 18 ára aldri. Evrópska knattspyrnusambandið kom í veg fyrir þessar fyrirætlanir með þeim rökum að sambandið væru „stjórnmálalega og trúarlega hlutlaus samtök“.

Í upphafi leiks hafa leikmenn „tekið hnéð“ og vottað þar með réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum, sem og víðar, virðingu sína. Ýmsir ráðamenn í Bretlandi hafa gagnrýnt þessa afstöðu leikmannanna og til dæmis kallaði Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, háttsemina „látbragðspólitík“.[2] „Shut up and dribble,“ sagði Fox fréttastöðin við körfuboltahetjuna LeBron James eftir að hann gagnrýndi Donald Trump.

Þessir sömu ráðamenn hafa hneykslast manna hæst á því kynþáttaníði sem þeir leikmenn liðsins sem misnotuðu vítaspyrnu sína í úrslitaleiknum hafa orðið fyrir. Viðbjóðurinn sást skýrt á veggmynd af Rashford í heimahverfi hans í Manchester. Eftir úrslitaleikinn var myndinni rústað með níðyrðum sem höfðu verið krotuð yfir andlit hans. En hatrið fékk ekki lengi að lifa því myndin var endurgerð daginn eftir af íbúum hverfisins sem huldu níðið með blómum, hvatningarorðum og kærleik. Það er ekki boðlegt að bera fyrir sig hlutleysi þegar grundvallarmannréttindi eru annars vegar og með endurgerðinni sést svart á hvítu að þessi barátta skiptir máli.


[1] https://www.theguardian.com/football/2020/jun/15/protect-the-vulnerable-marcus-rashfords-emotional-letter-to-mps

[2] e. gesture politics.

Latest posts by Árni Grétar Finnsson (see all)

Árni Grétar Finnsson skrifar

Árni Grétar hóf að skrifa á Deigluna í apríl 2011.