Mannréttindi eru brotin víða um heim upp á hvern einasta dag. Oft kemur fyrir að einstaklingar brjóti hverjir á öðrum þegar að þessum réttindum kemur en algengara er þó að ríkisvaldið – stjórnvöld í krafti her- eða lögregluvalds – fremur kerfisbundin mannréttindabrot á sínum eigin borgurum, oftar en ekki þjóðfélagshópum sem andsnúnir eru viðkomandi stjórnvöldum eða eru af einhverjum ástæðum þeim ekki þóknanlegir. Stór hluti jarðarbúa býr bakvið veggi þeirra martraðar sem felst í kerfisbundinni kúgun og ofsóknum ríkjandi valdhafa á hverjum stað og hverjum tíma.
Oft er fjallað um mannréttindamál á Deiglunni og raunar eru fáir málaflokkar sem skilgreina betur fyrir hvað Deiglan stendur. Þetta þarf ekki og á ekki að koma á óvart. Af öllu því sem fólk lætur sig varða þá ættu mannréttindi að standa fremst. Ekkert skiptir í raun meira máli, hvorki heima né að heiman. Mannréttindi liggja sem rauður þráður í gegnum aðra mikilvæga málaflokka. Við verjum öryggi okkar og sameiginlegt öryggi lýðræðisþjóða einmitt til að tryggja að við getum áfram búið í samfélagi þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, svo dæmi sé tekið.
Á allra síðustu misserum hafa mannréttindamál verið sett á oddinn í íslenskri utanríkispólitík. Við höfum verið óhrædd við að gagnrýna stöðu mannréttindamála í einstökum ríkjum sem hingað til hafa skákað í skjóli þagnarinnar. Þessi framganga varð til þess að leitað var til Íslendinga til að fylla sæti Bandaríkjamanna þegar þeir ákváðu að draga sig úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir stuttu síðan. Það verkefni var prófsteinn á annars vegar getu íslensku utanríkisþjónustunnar til að taka að sér viðamikið hlutverk í mikilvægri alþjóðastofnun og svo hins vegar á málafylgju okkar í þessum efnum.
Í stuttu máli stóðumst við þessa prófraun. Starfsfólk utanríkisþjónustunnar gekk til verka af mikilli alvöru og einurð með sterk pólitískt umboð til að láta til sín taka, ekki bara að komast skammlaust frá verkefninu heldur að marka spor.
Í síðustu viku birtist grein á vef hinna virtu mannréttindasamtaka Human Rights Watch eftir Bruno Stagno Ugarte, varaframkvæmdastjóra samtakanna og fyrrverandi utanríkisráðherra Costa Rica. Í greininni er fjallað með gagnrýnum hætti um það hvernig Norðurlöndin, einkum Svíþjóð og Noregur, hafi ekki staðið undir væntingum þegar mannréttindamál eru annars vegar. Þessi ríki hafa gefið ýmis fyrirheit sem síðan hafi ekki orðið að miklu. Þetta sé hins vegar að breytast í kjölfar framgöngu Íslands í Mannréttindaráðinu:
Human Rights Watch has of late been engaging with each Nordic country, encouraging them to lead on specific countries. Notwithstanding the unique circumstances leading to its election to the United Nations Human Rights Council – a seat vacated mid-term by the United States in June 2018 – Iceland has led not only the drafting and negotiating process of an important resolution on the Philippines, addressing the widespread abuses under the “war on drugs” led by President Duterte, but also a first-ever joint statement expressing concern over the widespread extrajudicial killing and other abuses of activists and human rights defenders in Saudi Arabia.
If Iceland with a population of 365,000, found the bandwidth to lead on two issues simultaneously, its larger Nordic neighbors can surely match both its courage and performance.
Bruno Stagno Ugarte, grein á heimasíðu Human Rights Watch 10. júlí 2020, A Nordic Comeback on Human Rights.
Það gefur augaleið að Ísland er ekki ráðandi afl á alþjóðlegum vettvangi, hefur aldrei verið og mun aldrei verða það. Til þess erum við of smá. En það breytir ekki því að það er hægt að hafa áhrif ef til staðar er sterk pólitísk málafylgja og öflugt starfsfólk. Framganga okkar í mannréttindamálum á alþjóðavettvangi síðustu misseri undirstrikar það.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021