Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Ekkert kemur þar frekar fram, hvorki varðandi útfærsluna á þessum þjóðgarði né hugsunina þarna að baki. Öllum er þó ljóst að þegar kemur að þessu mikilvæga hagsmunamáli sem stendur Íslendingum nærri er vænlegra að stíga varlega til jarðar.
Undir lok síðasta árs lagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fram frumvarp um Hálendisþjóðgarð. Meginmarkmið frumvarpsins eru göfug; verndun náttúru, friðlýsing landsvæða og auðveldari aðgangur almennings að þjóðgarðinum svo dæmi séu tekin. Hins vegar gerir frumvarpið einnig ráð fyrir kollvörpun á núgildandi fyrirkomulagi á stjórnsýslu hálendisins.
Í rauninni er stjórnskipulag þjóðlendna Íslands nokkuð einfalt í dag. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skiptist landið í sveitarfélög sem sjálf ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð. Sveitarfélögin hafa ákveðin staðarmörk og eru þar með taldar þær þjóðlendur sem innan þeirra liggja. Sveitarstjórnir fara með stjórn sveitarfélaga og þær eru kjörnar lýðræðislegri kosningu af íbúum þeirra. Ákvörðunarvald um málefni þjóðlendna innan marka sveitarfélaganna er því á hendi sveitarfélaganna sjálfra, en einnig forsætisráðherra samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Þetta fyrirkomulag hefur gilt í áraraðir og reynslan af því er góð.
Því kemur sú stefna sem tekin er í frumvarpinu er varðar þessi málefni spánskt fyrir sjónir. Samkvæmt frumvarpinu mun ráðherra koma á fót nýrri ríkisstofnun sem sér um málefni Hálendisþjóðgarðsins og mun ráðherra fara með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn. Hann mun þá skipa forstjóra yfir stofnuninni til fimm ára í senn auk þess að skipa sérstaka stjórn yfir þjóðgarðinum. Í þessari stjórn sitja ellefu fulltrúar, þar af sex fulltrúar sveitarfélaga, einn frá hverju af sex rekstrarsvæðum þjóðgarðsins. Innan þessara rekstrarsvæða verða svokölluð umdæmisráð þar sem sitja að minnsta kosti níu fulltrúar – þó einungis einn frá því sveitarfélagi sem er innan rekstrarsvæðisins.
Í ofanálag munu útivistarsamtök, umhverfisverndarsamtök, Bændasamtök Íslands og ferðaþjónustusamtök á rekstrarsvæðum og Samtökum ferðaþjónustunnar eiga einn fulltrúa hver. Hvergi er tekið fram hvaða útivistar- eða umhverfisverndarsamtök er átt við í frumvarpinu. Loks mun ráðherra skipa einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar og hafa fagþekkingu á verksviði þjóðgarða.
Af framangreindu er ljóst að frumvarpið gerir ráð fyrir á sjöunda tug fulltrúa í stjórnum og ráðum þjóðgarðsins. Þrátt fyrir allan þennan fjölda fulltrúa er ljóst að áhrif sveitarfélaganna á ákvarðanir um rétt sinn innan þjóðgarðsmarka verða í besta falli minniháttar, þar sem þau hafa einungis einn fulltrúa í hverju umdæmisráði. Þá liggur einnig fyrir að ýmsum aðilum sem hafa ekkert lýðræðislegt umboð, ólíkt kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum, verður hleypt að borðinu.
Í rauninni má segja að sú aukna miðstýring sem frumvarpið boðar leiði til þess að hið endanlega skipulagsvald á svæðunum mun færast frá sveitarfélögum til ráðherra. En til hvers? Hvergi koma fram ástæður fyrir því að hið flókna stjórnskipulag sem boðað er með frumvarpinu sé á nokkurn hátt hentugra en það rótgróna og einfalda fyrirkomulag sem nú þegar er við lýði, enda hefur eingin greining farið fram þar að lútandi.
Mörgum spurningum er ósvarað og frumvarpið ber því miður öll merki um hömlulausa útþennslu hins opinbera án nokkurra röksemda. Þrátt fyrir ríkar ástæður til þess að stíga varlega til jarðar í þessu máli virðist það því miður ekki hafa verið gert. Þvert á móti er ákvörðunarvaldið tekið af íbúum á hverju svæði fyrir sig og fært í hendur annarra. Mér er stórlega til efs að þeim göfugu markmiðum frumvarpsins sem ég nefndi fyrr í pistlinum verði betur náð með flóknari stjórnsýslu, minna íbúalýðræði og auknum valdheimildum ráðherra. Mögulega er þá betur heima setið en af stað farið.
- Barátta sem skiptir máli - 14. júlí 2021
- Grænar tölur alls staðar - 3. júní 2021
- Áreiðanlegir heimildarmenn - 11. febrúar 2021