Það fyrsta sem ég gerði þegar ég fékk ökuskírteinið afhent 5. maí 1992, daginn eftir sautján ára afmælisdaginn minn, var að keyra fyrir Hvalfjörð og upp á Akranes. Alla daga síðan þá, eða langsamlega flesta, hef ég keyrt bíl, af mismikilli nauðsyn. Ég gleymi aldrei tilfinningunni þessa fyrstu daga, algert sjálfstæði og að því að manni fannst, ótakmarkað frelsi. Mánuði síðar keyrði ég hringveginn og hef í kjölfarið farið nánast allar mínar ferðir á bíl.
Fyrir nokkrum árum fór ég að taka strætó einstaka sinnum til vinnu. Ástæðan var fyrst og fremst sú að það var bara einn bíll á heimilinu og brottfarartímar heimilismanna fóru ekki alltaf saman. Síðan fór ég að venjast þessu. Það var hægt að klára allt símahangsið á þessum 15 mínútum og hlusta á tónlist. Við þetta bættust svo smám saman fleiri kostir, einkum sá að maður losnaði undan öllum útréttingum, öllu skrepperíi og annars konar óþarfa sem alltaf þurfti að sinna á bílnum.
Í nýlegum pistli hér á Deiglunni fjallar Oddur Þórðarson um hinn bíllausa veruleika. Sjónarmið Odds eru áleitin, einkum þegar hann skrifar:
Það er óþolandi að búa í borg þar sem maður nánast verður að eiga bíl.
Þetta er alveg rétt og við þetta má jafnframt bæta að það er og verður aldrei annað en óþolandi að búa í borg þar sem allir eiga bíl og fara allra sinna ferða á bíl. Í samfélögum sem seint verða talin til sérstakra sýnidæma um jöfnuð hafa menn fyrir löngu séð að almenningssamgöngur eru forsenda þess að margt fólk geti deilt gæðum á litlu landssvæði.
Fólk á að geta búið í borg án þess að eiga bíl. Og fólk á líka að geta komið sér á milli staða á bifreið ef aðstæður þess eru þannig. Og það er fráleitt að stilla þessu tvennu upp sem andstæðum þegar í raun hvort um sig er hinu nauðsynlegt. Ekki bara þannig að bílasinnar og hinir bíllausu geti átt samfélag saman heldur ekki síður þannig að við getum öll verið hvort tveggja.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021