Málefni kúbanska drengsins Elians Gonzales taka á sig sífellt furðulegri mynd. Afstaða bandarískra stjórnvalda hefur hingað til verið nokkuð skynsöm í meginatriðum; að um sé að ræða sifjamál, eðlilegt að drengurinn sé hjá föður sínum og heppilegast að stjórnmál komi sem minnst við sögu. En ekkert er svo persónulegt þar vestra að það komi ekki þjóðinni allri við. Populistinn Al Gore hefur farið 180° í málinu eftir að honum varð ljóst að bandaríska þjóðin vildi ættleiða Elian littla og talar Gore nú eins og hann vilji ganga drengnum í föðurstað. Janet Reno virðist loksins kominn í það hlutverk, sem hæfir sérstæðu útliti hennar; eins konar yfirmaður fósturheimilis, og hefur þetta sifjamál dregið alla athygli frá stórsigri Janetar yfir Örmjúku hf. (Microsoft).
Landflótta Kúbverjar, sem eru fjölmennir á Flórída og geysiöflugur lobbýhópur, eru vitaskuld hundóánægðir með eftirgjöf Bandaríkjastjórnar í þessu máli. Þeim finnst þeir vera sviknir af núverandi valdhöfum og það eru slæm tíðindi fyrir Albert Gore. Repúblikanar hafa alltaf haft skýra stefnu gagnvart Kúbu og svipar henni til stefnu Katós gamla í málum Karþagó forðum. Eins virðist vera um flesta Bandaríkjamenn sem líta á málið sem grundvallaratriði og spurningu um trúverðuleika Bandaríkjanna. Ekki svo að skilja að íbúar eyríkisins Kúbu séu eitthvað skárri, þar sem þjóðfélagið er á hvolfi vegna dvalar Elians í Flórída.
En málalok virðast vera í uppsiglingu og að mati DEIGLUNNAR gætu þau orðið ásættanleg fyrir alla aðila, eða að minnsta kosti flesta. Faðir Elians, Juan Miguel Gonzalez, er kominn til Flórída og ólíkt flestum löndum sínum síðustu áratugi ferðaðist hann með flugvél. Flestir ættingjar Juans Miguels eru búsettir á Flórída og því virðist ekki ólíklegt að málin þróist með eftirfarandi hætti: Juan Miguel sækir um hæli í Bandaríkjunum sem pólitískur flóttamaður eftir að hafa fengið Elian son sinn í sína umsjá, sest að í Litlu-Kúbu á Flórída og lifir í sátt og samlyndi með landflótta löndum sínum. Þá geta bandarísk stjórnvöld haldið andlitinu gagnvart prinsiphópunum og Kastró einfaldlega stimplað títtnefndan Juan Miguel landráðamann (eins og alla þá sem flúið hafa til þessa).
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021