Það má segja margt um þá 86 daga sem liðnir eru af árinu 2020: válynd veður, víðtæk verkföll, voldugar væringar og síðast en ekki síst, voðaleg veira. Tilvera okkar snýst óneitanlega að miklu leyti um COVID-19 veiruna núna enda eru áhrif hennar á daglegt líf á áður óþekktum skala, fordæmalaus gæti jafnvel einhver mögulega einhver staðar sagt. Afleiðingarnar verða afdrifaríkar og það mun taka tíma, elju og samtakamátt að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan. En mitt í þessum veirustormi er atburður að eiga sér stað sem mikilvægt er að halda til haga í stóra samhenginu fyrir sögu og sjálfsmynd lítillar þjóðar á eyju í Norður Atlantshafi. Við unnum Eurovision! Eiginlega. Eða við hefðum gert það ef hún hefði verið haldin þannig að það kemur nokkurn veginn út á eitt.
Ísland hefur þann vafasama heiður að tilheyra hópi landa sem hafa aldrei unnið Eurovision. Það er því langþráð og mikilvægt að við getum loksins stigið fram úr þessum skugga og verið þjóð á meðal Eurovision þjóða, þrátt fyrir þetta tæknilega smáatriði að keppnin var blásin af vegna veirunnar.
Allir sem hafa kynnt sér málin á hæfilega djúpan hátt sjá að það hefði nánast verið formsatriði að halda keppnina. Framlag Íslands flutt af börkum Daða og Gagnamagnsins var þegar búið að vinna hug og hjörtu heimsbyggðarinnar eins og sjá má af afgerandi stuðningsyfirlýsingum frá Hollywood leikaranum Russel Crowe, írska uppistandaranum Dara O´Briain og sjálfu breska ríkisútvarpinu BBC sem gaf Daða „douze points.“
Sumir velta fyrir sér af hverju Hollendingar ákváðu að aflýsa Eurovision keppninni í stað þess að leita annarra leiða til að skapa vettvang fyrir sigur Íslands í ár. Það hefði verið hægt að halda keppnina fyrir tómum sal líkt og Danir gerðu í undankeppninni þar í landi. Það hefði einnig verið hægt að láta hvert atriði troða upp í sínu landi og streyma beint. Það er nú þegar flakkað á milli útsendinga frá öllum löndum í vandræðalegustu augnablikum sem sjást í sjónvarpi: þegar kynnar flytja stigaskor úr atkvæðagreiðslu sinna landa og beita mismunandi ráðum til að hámarka þessa mínútu frægð. En það er til svar sem róar allar efasemdarmenn og samsæriskenningasmiði: Jon Ola Sand. Þessi norski frændi okkar hefur verið framkvæmdastjóri Eurovision keppninnar frá árinu 2011 og stýrt fleyinu af öryggi sem skín í gegn þegar hann birtist í lok atkvæðagreiðslunnar í lokakeppninni og staðfestir að allt sé með felldu. Keppnin í ár var sú síðasta sem hann stýrði og við getum verið örugg um að hann hafi leitað allra lausna til að kveðja með stæl.
Þar við situr að Ísland verður ókrýndur sigurvegari Eurovision í ár. Þó að árið 2020 bjóði ekki upp á margt þá munum við þó alltaf getað sagt að þetta var árið þegar við unnum Eurovision, eiginlega.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021