Tuttugasta og þriðja útgáfuári Deiglunnar lauk í kvöld þegar Orðunefnd Deiglunnar veitti viðurkenningar fyrir afrek Deiglupenna á árinu sem nú er senn liðið. Deiglan hefur komið út alla daga ársins 2020 og þarf að leita nokkuð mörg ár aftur tímann að slíkri útgáfutíðni. Hefð er fyrir að því að útgáfuárinu ljúki hversu sinni með orðuveitingum sem alla jafna var fara fram á jólaglögg Deiglunnar en vegna samkomutakmarkana var orðuveitingum sjónvarpað beint til Deiglupenna þetta árið.
Deiglan kom fyrst út hinn 3. febrúar 1998 og það var við hæfi að nýliði ársins 2020 skyldi vera fyrsti Deiglupenninn sem fæddur er eftir að Deiglan hóf starfsemi sína. Oddur Þórðarson er nýliði ársins á Deiglunni en skrifaði meðal annars á árinu frábæran pistil um stöðu unga fólksins í kófinu, þar sem eftirfarandi málsgrein var að finna:
Orðunefnd veitti í kvöld sérstök heiðursverðlaun þeim Deiglupennum sem fögnuðu 20 ára starfsafmæli á árinu en það voru þeir Þórlindur Kjartansson, Jón Steinsson og Brynjólfur Ægir Sævarsson. Þórlindur átti ennfremur að mati orðunefndar besta pistil ársins, Jón fékk verðlaun fyrir endurkomu ársins og Brynjólfur fyrir sögulega tilvísun ársins.
Fyrirsögn ársins átti Ásdís Rósa Þórðardóttir fyrir pistil sem hún skrifaði hinn 22. október 2020 í skugga nýafstaðinna jarðhræinga undir yfirskriftinni: Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta. Í pistlinum var ennfremur að finna þessa meitluðu setningu:
Hefð er fyrir því að verðlauna höfund þess pistils sem mest er lesinn og fær sá útnefninguna metsöluhöfundur ársins á Deiglunni. Hinn 21. mars birti Pawel Bartoszek pistilinn Ekkert Evrópuland tafið faraldurinn betur en Ísland og var vísað til pistilsins í beinni útsendingu frá upplýsingafundi þríeykisins daginn eftir. Ekki var að sökum að spyrja og netþjónar Deiglunnar fengu að finna til tevatnsins. Pawel var reyndar einnig verðlaunaður fyrir starfsumsókn ársins.
Það hefur þótt góður siður á Deiglunni að útnefna maka ársins en að þessu sinni ákvað orðunefnd að þau verðlaun kæmu í hlut hjónanna Árna Helgasonar og Sigríðar Daggar Guðmundsdóttur fyrir að hafa ekki látið annir við pistlaskrif – en þau skrifuðu hvort um sig fjölmarga frábæra pistla á árinu – koma í veg fyrir að ganga í hjónaband með pompi og pragt á milli 1. og 2. bylgju. Sigríður var ennfremur verðlaunuð fyrir frumhlaup ársins fyrir pistilinn Bless janúar 2020 þar sem hún sá fram á bjartari tíma það sem eftir lifði árs „…eftir það hlaðborð af leiðindum sem janúar 2020 hefur boðið landsmönnum upp á,“ eins og sagði í pistlinum. Eftirleikinn þekkja flestir.
Formaður ársins var auðvitað Brynjólfur Stefánsson sem samhliða öflugum ritstörfum var kjörinn formaður Deiglunnar á haustdögum, einungis 18 árum eftir að hafa tekið að sér formennsku í stúdentaráði fyrir sama hóp. Forseti ársins var vitaskuld áðurnefndur Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.
Diljá Mist Einarsdóttir var útnefnd repúblikani ársins á Deiglunni fyrir pistilinn Glæpur gegn mannkyni af hálfu sósíalista í Venesúela og Óli Örn Eiríksson var sæmdur nafnbótinni úrbanisti ársins fyrir sitt framlag til skipulagsmála í fjölmörgum vönduðum pistlum á árinu. Annar úrbanisti, Samúel Torfi Pétursson, fékk verðlaun fyrir ákall ársins. Tilfinning ársins kom í hlut Helgu Kristínar Auðunsdóttur sem lýsti sameiginlegri tilfinningu landsmanna í pistli sínum Covidkvíðinn.
Hápunktur kvöldsins var venju samkvæmt útnefning Deiglupenna ársins en fráfarandi handhafi þeirra, Pawel Bartoszek, er sá Deiglupenni sem oftast hefur hampað þeim verðlaunum. Eftir mikla yfirlegu og samanburð á fjölmörgum gæðapistlum var það niðurstaða orðunefndar að Guðfinnur Sigurvinsson hlyti nafnbótina Deiglupenni ársins 2020 fyrir upplýsandi og vandaða pistla, frumleg efnistök og frábæran stíl. Titillinn fór því í Garðabæinn þetta árið, í fyrsta sinn í sögu Deiglunnar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021