Umræða um ferðaþjónustu hefur undanfarin misseri snúist um náttúrupassa og leiðir til að takmarka ágang erlendra ferðamanna um náttúruperlur. Nauðsyn þess að tryggja viðunandi aðstöðu á fjölsóttum náttúruperlum er óumdeild en við þurfum að gæta að því að stanslaus neikvæð umræða um ágang erlendra ferðamanna fari ekki að lita almenna afstöðu okkar til ferðamanna sem kjósa að koma til Íslands.
Fjöldi erlendra ferðamanna sem koma til Íslands tvöfaldaðist á aðeins fimm árum, frá árinu 2010 til 2014. Rétt tæp milljón ferðamanna kom til Íslands í fyrra sem er þrefaldur íbúafjöldi Íslands. Árið 2013 var ferðaþjónustan stærsta útflutningsafurð Íslendinga í fyrsta skipti og tók þá fram úr sjávarútveginum og áliðnaðinum. Ör vöxtur ferðaþjónustunnar undanfarin ár hefur verið mikilvægur þáttur í að efla hagvöxt á Íslandi í kjölfar bankahruns. Þessi atvinnugrein er ennfremur þess eðlis að hún skapar mörg störf, bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni.
Erlendir ferðamenn fara út um allt land og kaupa þjónustu í formi gistingar, afþreyingar, veitinga og vöru. Það vakti athygli fyrir nokkru síðan þegar þingmaður kvartaði yfir því að geta ekki fengið sæti á uppáhaldskaffihúsinu í miðbænum fyrir öllum þessum ferðamönnum. Það er ágætt að hafa í huga að líkur eru á að fjölgun ferðamanna hafi stórbætt rekstrargrundvöll kaffihúsa og veitingastaða með tilheyrandi fjölgun og lengri opnunartíma. Það eru ekki mörg ár síðan að veitingastaðir í Reykjavík opnuðu margir hverjir ekki fyrr en undir kvöld, þar sem ekki var nægjanlega mikið að gera til að opna fyrr. Öll þiggjum við þó með þökkum þá aukna flóru veitingastaða, kaffihúsa og verslana sem fram hafa komið undanfarin ár. Þessi áhrif eru mjög greinileg úti á landi þar sem verslun erlendra ferðamanna stóreykur þjónustustig í fámennum bæjum og sveitarfélögum.
Ferðaþjónusta hefur á fáum árum farið úr lítilli atvinnugrein í að vera ein af undirstöðum í íslensku hagkerfi. Ef við viljum að þetta ástand verði viðvarandi þá þarf að hugsa vel um það allra mikilvægasta: upplifun og ánægju ferðamannsins. Það er grundvöllur alls og til að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur þá þarf allt að haldast í hendur hvort sem það er regluverk, aðstaða við náttúruperlur eða viðmót okkar Íslendinga. Hættum að tala með neikvæðum hætti um ágang ferðamanna og einbeitum okkur frekar að því að styrkja innviði til að upplifun erlendra ferðamanna sem kjósa að koma til Íslands frekar en allra annarra landa í heiminum verði sem allra best – okkur öllum til hagsbóta.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021