Eyríkið Nauru í Suður-Kyrrahafi var um skeið það þjóðríki í heiminum þar sem landsframleiðsla á mann var hæst. Auður eyjunnar fólst í ríkulegustu fosfatnámum veraldar, sem eftir miðbik 20. aldar skiluðu þjóðinni gríðarlegum verðmætum. Þegar landið öðlaðist sjálfstæði frá Ástralíu var tekin ákvörðun um að grípa til ráðstafana til þess að tryggja að eyjaskeggjar þyrftu ekki að kvíða því þegar fosfatnámurnar kláruðust—sem var auðvitað óhjákvæmilegt. Stofnaður var sjóður, ekki ólíkt olíusjóði Norðmanna, sem tryggja átti, með skynsamlegum fjárfestingum, að óendurnýjanlegur auður námanna kæmi áfram til með að sjá íbúum fyrir fyrsta flokks lífsgæðum.
Þeir sem lært hafa fjármálafræði vita að samkvæmt þeim ætti þetta að vera nokkuð skotheld aðferð. Jafnvel hófleg ávöxtun á miklum verðmætum skilar miklum arði, og þá ætti aldrei að þurfa að ganga á verðmætin sjálf. Íbúar Nauru hefðu því, samkvæmt þessum fræðum, ekki þurft að framleiða nokkurn skapaðan hlut, heldur áttu að geta lifað í sæmilegum vellystingum um alla framtíð á ávöxtum hinna miklu sjóða sem fengust fyrir sölu á námuréttindunum.
En þrátt fyrir þessa framsýni varð raunin allt önnur. Á örfáum árum glutruðust öll þessi verðmæti. Sukkið og svínaríið á valdastéttinni var auðvitað bara toppurinn á ísjakanum. Það vantaði heldur ekki bragðarefi úr fjárfestingarheiminum sem græddu meira eftir því sem galnari áhætta var tekin með þetta lífgæðaforðabúr þjóðarinnar. Hinn ósigrandi lífeyrissjóður eyjaskeggja varð að engu—og þegar í ljós kom til hversu mikilla skuldbindinga ríkið hafði stofnað í ofanálag varð niðurstaðan sú að venjulegir eyjaskeggjar sátu uppi fátækari; stór og ómetanleg náttúruverðmæti voru rústuð fyrir allan aldur, og lífsgæðin hrundu niður í að vera með þeim allra verstu á byggðu bóli.
Nauru er ekki eina dæmið um afleiðingar þess þegar einstaklingar og samfélög verða kyrrstöðu að bráð í trausti þess að hafa aðgang að óþrjótandi verðmætum. Í hagfræðinni er talað um „hollensku veikina“, sem er svolítið kaldhæðnislegt í ljósi þess að Holland er dæmi um land þar sem þegnarnir skapa gríðarleg verðmæti úr hugviti sínu og athafnasemi, en geta ekkert stólað á verðmætar náttúruauðlindir sem hægt er að draga á eftir þörfum. Hollenska veikin leggst á samfélög þar sem engin starfsemi er ábótasamari heldur en sú að hirða upp verðmæti náttúrunnar og selja lítt breytt.
Í slíku samfélagi er langmest upp úr því að hafa að tengjast með einhverjum hætti þeim verðmætum sem smám saman er gengið á—en miklu minna spennandi að skapa eitthvað nýtt.
Þetta þurfti ekki að fara svona í Nauru. Miklar náttúruauðlindir þurfa alls ekki að vera bölvun fyrir samfélög. Ef íbúar Nauru hefðu til dæmis byggt upp þekkingu á námuiðnaði mætti hugsa sér að hagur eyjaskeggja hefði haldið áfram að blómgast jafnvel þótt námurnar þar tæmdust. Enn betra hefði verið ef þeir hefðu nýtt auðæfin til þess að gefa fólki tækifæri, með menntun og góðu fyrirtækjaumhverfi, til þess að skapa úr hugviti sínu vörur og þjónustu sem yrðu alþjóðlega samkeppnishæfar. Þannig hefði verið hægt að sá hinum tímabundnu uppgripum náttúruauðlindanna í frjórri jarðveg og leggja grundvöll að blómstrandi samfélagi þar sem fólki lifir á að skapa verðmæti—en ekki á því að draga þau úr jörðu.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021