Jarðskjálftahrinan sem gengur nú yfir Reykjanesið hefur ekki farið framhjá landsmönnum en upptök stærstu skjálftana hafa verið við Keili og Fagradalsfjall. Upplifun slíkra skjálfta er aldrei sérstaklega þægileg þótt adrenalín-kikkið sem kemur hjá mörgum í kjölfarið geti verið gott. Stundum hef ég svekkt mig á að hafa misst af skjálfta ef ég er að keyra en púlsinn á það til að rjúka vel upp við hristinginn.
Þegar Reykjanesið fer til Ameríku
Undirrituð er borinn og barnfæddur Grindvíkingur sem hefur upplifað marga jarðskjálfta og jarðskjálftahrinur í gegnum tíðina. Þá hef ég fengið að heyra upplifun foreldra minna á skjálftanum 1973, oftar en einu sinni, þegar mjög kröftugur skjálfti reið yfir og stóð yfir í nokkuð langan tíma. Vegur fór t.a.m. í sundur við Ísólfsskála en þá var gamli Krýsuvíkurvegurinn í notkun.
Við áttum það til þegar við vorum krakkar að magna hræðsluna upp í hvort öðru í skólanum og lengi vel trúðum við því að það ætti eftir að koma svo stór jarðskjálfti hér á Reykjanesskaganum að svæðið myndi hreinlega rifna frá landinu. Þá var gantast með að skaginn myndi fljóta til Bandaríkjanna og við gætum þá farið að upplifa ameríska drauminn – og betra veður.
Mikilvægt að koma upplýsingum til erlendra íbúa
En öllu gamni slepptu þá eru mjög margir íbúar á svæðinu sem óttast mikið þessar jarðhræringar. Í Grindavík búa u.þ.b 600 erlendir íbúar af 3600 manna samfélagi. Reynslan sýndi okkur í landrisinu fyrir ári síðan hversu mikilvægt er að koma upplýsingum áleiðis af stöðunni og því sem er í gangi í jarðskorpunni. Haldnir voru fundir í Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga og sérfræðingar eins og Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði og Dr. Benedikt Halldórsson jarðskjálftaverkfræðingur fengnir til að koma og halda erindi. Auðvitað var síðan túlkað fyrir þá sem ekki skilja íslensku. Það skiptir gríðarlegu máli að koma að réttum upplýsingum og yfirveguðum til þeirra sem ekki hafa sama aðgengi og innfæddir eða þeir sem skilja íslensku. Margir fjölmiðlar hafa þó gert sitt í að vekja ótta hjá fólki með fyrirsögnum og augljóst að margir keppast um smelli og lestur sinna frétta.
„Jarðskjálfti mamma – lokaðu augunum mamma“
Í fyrrinótt vaknaði ég töluvert áður en stóri jarðskjálftinn reið yfir. Þar sem maðurinn minn er á sjó svaf ég með báða syni mína uppi í. Sá yngri (3ja ára) áttar sig ekki á jarðskjálftunum en sá eldri (að verða 7 ára) hefur nokkrum sinnum fundið fyrir þeim. Hann var í vettvangsferð með skólanum á miðvikudaginn í síðustu viku þegar stóru skjálftarnir komu og sagðist lítið sem ekkert hafa fundið. Hann vaknaði síðan við bröltið í móður sinni í nótt og fór fram að fá sér að drekka. Þegar við vorum bæði komin upp í aftur og rétt farin að slaka á kom þessi stóri upp á 4,9 stig. Þá segir sonur minn yfirvegað „jarðskjálfti mamma“ „já, við skulum bara fara að sofa, þetta er allt í góðu“. Þar með vorum við farin inn í draumalandið. Í nótt var maður líka á skjálftavaktinni og sá yngri sá mömmu sína grípa símann til að athuga styrkinn í skjálftanum. Fyrirmæli hans voru skýr: „lokaðu augunum mamma“. Þeir kippa sér lítið upp við þetta.
Óvissan óþægileg
Áfram heldur jörðin að hristast en óvissan er óþægileg. Hversu lengi mun ástandið vara? Lýkur því með eldgosi eða fjarar þetta út eins og í fyrra? Þrátt fyrir hættustig vegna óvissu þá er mikilvægt að halda sér á jörðinni og reyna að minna sig á að jarðskjálftar á Íslandi eru ekki að fara að valda miklu tjóni á húsum okkar. Viðbragðsaðilar í Grindavík hafa unnið allt síðasta ár að gerð viðbragðs- og rýmingaráætlana sem liggja fyrir. Þá hafa menn eins og Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur tekið saman gögn um svæðið og farið yfir að stór skjálfti upp á 6,5 muni ekki valda miklum hamförum. Gos á Reykjanesskaga yrði heldur aldrei stórt gos.
Skiptir máli að halda í rökhugsunina
Þegar hræðslan grípur um sig vegna jarðskjálfta er auðvelt að missa stjórn á rökhugsun og óttinn getur náð tökum á manni. Þess vegna hafa sálfræðingar ráðlagt fólki að finna sér „aðgerðarplan“ til að grípa í þegar skjálfti verður. Í dag voru sonur minn og frændi hans að leika saman þegar skjálftinn upp á 5,1 reið yfir. Þeir fundu vel fyrir honum og hrópuð báðir „vá fannstu jarðskjálftann?!“ Það var því farið í ágiskun á stærð hans; sonurinn giskaði á 4,3, frændinn á 4,4 og ég á 5,1. Með því að fara í svona ágiskunarleik þá nær maður að halda rökhugsun áfram og koma í veg fyrir að óttinn fari með mann. Hægt er að bregða á leik í leik- og grunnskólum og hafa einhver verðlaun í kjölfar skjálfta. Þannig upplifa börnin ekki neikvæða tilfinningu við skjálfta heldur þvert á móti eftirvæntingu. Rúsínur ef skjálfti verður yfir 3 stig eða dóta-dagur ef hann fer yfir 4 stig.
Gott að búa í Grindavík
Grindavík er dásamlegur staður að búa á og ég myndi hvergi annars staðar vilja ala börnin mín upp enda sjálf alin hér upp. Þrátt fyrir landrisið og allar fréttirnar sem þeim fylgdu í fyrra hafa langflest hús sem fara á sölu selst strax og eftirspurn eftir húsnæði er umfram framboð. Það er nær ómögulegt að fá leigt húsnæði. Samfélagið er fjölskylduvænt og hér er allt til alls auk þess sem stutt er í borgina og samgöngur góðar.
Verðmæti flekaskilanna
Að lokum er við hæfi að minna á að flekaskilin og þær jarðhræringar sem eiga sér stað á svæðinu hafa fært Reykjanesinu verulega dýrmæta auðlind: jarðvarmann. Á Reykjanesskaga er eini Auðlindagarður sinnar tegundar í heiminum en hér eru 11 fyrirtæki sem öll nýta sér jarðvarmann í sinni starfsemi. Ég þreytist seint á að segja frá UNESCO vottaða jarðvanginum sem er hér, Reykjanes jarðvangi en þá vottun fékk svæðið fyrir að vera með þá sérstöðu að hvergi annars staðar í heiminum koma flekaskil á land jafn sýnilega og hér. Það er því klárlega þess virði að taka rúnt á Reykjanesið, koma við hjá Brimkatli og sjá kraft hafsins, fara síðan að Gunnuhver og lesa skemmtilega þjóðsögu um hverinn og skella sér síðan yfir flekaskilin, frá Evrasíuflekanum yfir á Norður-Ameríkuflekann. Reykjanesið er ótrúlega magnað svæði þar sem ægifegurðin fylgir manni hvert fótmál. Áður fyrr kvarðaði maður undan því að hér væri allt eins og á tunglinu. En glöggt er gests augað og með auknum áhuga erlendra ferðamanna og erlendra kvikmyndaframleiðanda fór maður að sjá þá sérstöðu sem felst í hraunbreiðunni og mosanum.
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021