Sumir halda að með tilkomu sjálfkeyrandi bíla muni bílum fækka vegna þessa að hægt verði að nýta bílaflotann á hagkvæmari hátt. Ég held að hin náttúrlega þróun verði þveröfug, bílum mun fjölga og þeim mun fjölga mikið.
Það er auðvelt að sjá hvernig fólk kemst að þeirri niðurstöðu að með því að láta bílana rótera milli fólks er hægt að nýta þá miklu betur. Jafnvel bílar sem keyra mikið eru kyrrstæðir langstærsta hluta tímans. Mér reiknast á bíllinn á heimilinu hafi veriði keyrður 40 km á dag frá því hann var framleiddur, sem þýðir svona 1-2 klukkustundir af akstri á dag. Ef meðalbíll myndi keyra 8 tíma á dag, þyrfti fjórfalt færri bíla, hljómar rökrétt.
Vandinn er bara sá að það er enginn sem skipuleggur samgöngur fólks. Ef Dodda langar í bíl þá fær Doddi sér bíl. Sama hvort samfélaginu finnst það hagkvæmt eða sniðugt. Doddi vill vera eiginn herra. Ef Doddi vill fara í bæinn 8:05 þá mun það fara í taugarnar á honum ef hann þarf að fara 7:55 eða 8:15.
Ef við hugsum aðeins um þetta þá er “einka”bíllinn í dag eins og gamli heimilissíminn. Á mínu heimili búa fjórir, en þar er einn bíll. Einu sinni voru símarnir jafnmargir og heimilin. Nú eru símar jafnmargir og fólk.
Það eru, þrátt fyrir allt, ekki allir á bíl. Börn eru ekki á bíl. Fólk sem er ekki með bílpróf er ekki á bíl. Mjög gamalt fólk er ekki á bíl. Fólk sem vill ekki vera á bíl er ekki á bíl. Allir þessir hópar eru vænlegir markhópar fyrir framleiðendur sjálfkeyrandi bíla. Fólk mun “keyra” bíl miklu lengur og byrja að “keyra” hann miklu fyrr. Til hvers að keyra börn í skólann og svo á æfingu og svo heim ef hægt er að forrita bíl til að gera það? Allir nútímalegir grunnskólar verða með risastóra bílakjallara fyrir 600 skólabörn.
Þegar allir verða komnir með snjallbíl til einkanota bílarnir geta gert fullt af leiðindum sem fólk þarf nú að gera sjálft. Bílar mun geta farið sjálfir í skoðun, látið skipta um peru á sér, tekið bensín á sig og verslað í matinn fyrir eigandann. Og þar sem þessi erindi verða þar með fyrirferðarminni mun þeim fjölga. Bílar verða þvegnir oftar. Matur verslaður daglega. Sorpuferðirnar verða tíðari. Og allir munu keyra heim af djamminu, fullir, en löglega.
Allt þetta mun auka mjög álag á gatnakerfið. Og settur verður þrýstingur á að stækka það til muna. “Gatnakerfið er sprungið!” verður sagt og tafarlausra úrbóta krafist. Þetta hefur svo sem gerts áður. Á sjöunda á áttunda áratug seinustu aldar lögðu bæir niður sporvagnakerfi sín til að rýma fyrir meiri bílaumferð. Bara á Norðurlöndunum voru sporvagnar lagðir niður í Árósum (1971), Kaupmannahöfn (1972) og Malmö (1973). Á flestum stöðum sjá menn eftir þessu í dag og fjárfesta í nýjum léttlestarkerfum.
Á Íslandi voru engir sporvagnar til að leggja niður en án nokkurs vafa hefði Aðalskipulagið Reykjavíkur 1962 lagt þá niður væru þeir til. Í staðinn var mörkuð sú stefna að rífa niður hús til að rýma fyrir stofnbrautum og lagður grunnur að því gatnakerfi sem við búum við í dag.
En aftur að framtíðinni. Bílum mun fjölga, umferð mun aukast. Sumt af þessu verður jákvætt. Sumt fólk sem í hag er háð öðrum um ferðalög verður það ekki lengur. En neikvæð áhrif geta orðið heilmikil. Meiri mengun, minni hreyfing, dreifðari byggð, minna mannlíf.
Ég heyri oft þær raddir að við eigum að bíða með að fjárfesta í sporvögnum, borgarlínum, léttlestum. Við eigum að bíða með þetta til að sjá hvernig tæknin varðandi sjálfkeyrandi bíla mun þróast. En ef við gerum það þá vitum við alveg hvað gerist. Stóraukinni umferð verður mætt með miklu fleiri vegum.
Eftir 50 ár verður annað hvort sporvagn meðfram Hafnarfjarðarveginum eða Hafnarfjarðarvegurinn sjálfur verður á tveimur hæðum. Ég veit alveg hvora framtíðarsýnina ég myndi velja.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021