Afþreying er merkilegt orð. Það er notað um það sem fólk gerir sér til skemmtunar. Afþreyingin er á köflum þannig að við þurfum afþreytingu frá afþreyingunni, til dæmis geta sumir íþróttaviðburðir hreinlega ekki farið fram án þess að þar sé jafnframt boðið upp á skemmtiatriði. Í okkar samfélagi, hér og nú, heitir þetta að slaka og njóta.
Njóttu!
Það er algengasta kveðja þess sem óskar samferðamönnum sínum á samfélagsmiðlum alls hins besta.
Í fábrotnara samfélagi fortíðar, hvort heldur hér á landi eða annars staðar, þekktu menn væntanlega ekki hugtakið afþreyingu. Dægrastytting var notað um það sem fólk hafði fyrir stafni til að láta sér ekki leiðast milli þess sem það sinnti aðkallandi verkefnum. En lífið og lífsbaráttan var þá sami hluturinn.
Nú hefur þetta tvennt verið skilið að.
Margir líta á lífsbaráttuna, þ.e.a.s. aðfangaöflun, barnauppeldi og annað sem felur í sér vöxt og viðgang tegundarinnar, sem illa nauðsyn þess að lifa lífinu, að slaka og njóta. Því meiri tíma sem fólk hefur til að slaka og njóta, því meiri eru lífsgæði þess.
Lífið er endalaust vesen. Það þarf að vinna, það þarf að versla, það þarf að þrífa og þvo þvott, það þarf að elda, það þarf að klæða börnin, það þarf að sækja og það þarf að skutla og það þarf að fara með ruslið á haugana. Það þarf að tannbursta sig, sumir jafnvel tvisvar á dag, það þarf að baða sig, það þarf að snyrta sig hátt og lágt, það þarf að kaupa jólagjafir handa hundrað manns og skreyta, það þarf að muna eftir afmælum og senda kveðju eða mæta, það þarf að fara á íþróttamót með krökkunum og það þarf að standa í skilum með alla mögulega og ómögulega hluti, og síðast en ekki síst skrá raunverulegan eiganda í húsfélaginu svo Ísland komist af gráa listanum.
Það þarf að gera svo ótrúlega margt áður en hægt er að gera það sem lífið raunverulega gengur út á – að slaka og njóta.
En þótt lífsbarátta okkar hér og nú sé ólíkt tilþrifaminni en forfeðra okkar þá er hún okkar líf eins og lífsbaráttan var þeirra líf. Lífið og lífsbaráttan verða ekki aðskilin og eiga ekki að vera aðskilin. Allt sem þarf að gera, það er lífið.
Vandinn er kannski að við þurfum of mikið. Við þurfum svo mikið að slaka og njóta að við njótum ekki þess að standa í þessu sem heitir lífið.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021