Bandaríski hafnaboltinn er framandi heimur sem fæstir Íslendingar þekkja eða hafa áhuga á því að kynnast. Ekki nóg með að íþróttin þyki leiðinleg á að horfa, heldur hefur hún það á móti sér að leikirnir sjálfir taka óratíma. Þess vegna er algeng spurning hjá þeim sem frétta að hafnaboltaáhuga fólks: „En eru leikirnir ekki svo langir?“
Það má til sanns vegar færa. Leikir geta verið býsna langir en auðvitað er algjör misskilningur á þeir séu leiðinlegir. Reyndar má segja að oftast séu þeir skemmtilegri eftir því sem þeir eru lengri, því langir leikir bera það með sér að mikil spenna hafi byggst upp áður en hápunkti er náð, gjarnan með dramatískum lokatilþrifum í framlengingu. En til þess að njóta hafnabolta þarf að hafa þolgæði og vitsmunalegt úthald. Fyrir þá sem leggja í slíka fjárfestingu er ávöxtunin margföld.
Hafnaboltinn hefur ýmsa áhugaverða eiginleika. Allur leikurinn byggist upp á því að einn maður með kylfu keppist gegn einum manni með bolta. Allar viðureignir leiksins eru maður-á-mann. Þetta er ólíkt t.d. handbolta, fótbolta og körfubolta þar sem liðsfélagar láta bolta ganga sín á milli og búa til færi fyrir hvern annan. En þrátt fyrir þennan eiginleika þá er hafnaboltinn samt að líkindum mesta liðsíþróttin af þeim öllum, því einn einstaklingur má sín nánast einskis í hafnabolta á stuðnings góðra liðsfélaga.
Í hafnaboltanum eru stig skoruð með því að ná að hlaupa af heilan hring sem byrjar og endar á heimahöfn. Oftast nær komast leikmenn af sjálfsdáðum á fyrstu eða aðra höfn, en þurfa stuðning liðsfélaga sinna til að komast lengra. Að komast svo í heimahöfn er ekki álitin merkileg staðreynd í tölfræðiuppgjöri eftir leikinn (run). Mun merkilegra er að hafa náð höggi sem gerir öðrum mögulegt að komast í mark (run-batted-in). Þar gildir sannarlega að allir leikmennirnir keppast við að koma einum í mark, og hver og einn leggur sitt fram fyrir alla hina.
Það er líka merkilegur eiginleiki við hafnaboltann að þar raða liðsmenn sér upp í röð fyrir leik og hún helst óhögguð sama hvað á bjátar. Ef sú staða kemur upp að úrslit geti ráðist á einu höggi, svipað eins og ef treysta þarf á flautukörfu í körfubolta eða aukaspyrnu á síðustu mínútu í fótbolta, þá getur þjálfari í hafnabolta ekki ákveðið að setja kylfuna í hendur á sínum besta leikmanni heldur fær sá að gera sem næstur er í röðinni. Þar af leiðandi er hafnaboltinn umfram aðrar íþróttir, leikur hinn óvæntu hetja.
Að sumu leyti hefur hafnaboltinn fallið í skugga annarra íþrótta í Bandaríkjunum á síðustu áratugum. Vera má að það tengist því að eigingirni og græðgi hafa að sumu leyti orðið að nokkurs konar dyggðum í huga margar Bandaríkjamanna. Þegar samfélagsstraumarnir finna sér nýjan farveg á næstu árum, hugsanlega þannig að samhjálp og sjálfsfórn verði á ný álitnar samfélgaslegar dyggðir—þá er ekki ósennilegt að hafnaboltinn öðlist enn á ný sess sem þjóðaríþrótt Bandaríkjanna.
Og hver veit nema tækifæri skapist til þess að hefja þessa íþrótt, sem upphefur liðið umfram einstaklinginn, til vegs og virðingar á Íslandi líka.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021