Síðasta vor gaf ungverska þingið forsætisráðherra landsins nærri því ótakmarkað vald þegar kórónavíruslögin svokölluðu voru samþykkt. Var það gert undir því yfirskini að slíkar ráðstafanir væru nauðsynlegar vegna heimsfaraldursins.
Viktor Orban hafði um nokkurt skeið unnið markvisst að því að tryggja sér völd en faraldurinn stytti honum leið og stendur nú lítið í vegi fyrir því að hann sé einráður um ókomna tíð. Læðist að manni sá grunur að embættismenn fleiri landa hugsi nú á svipuðum nótum undir því yfirskini að heildarhagsmunir trompi hagsmuni einstaklinganna.
Um 84 ríki1 hafa nú þegar lýst yfir neyðarástandi vegna faraldursins með mismiklum inngripum í líf fólks og ófyrirséðum afleiðingum. Hvort sem það eru ferðatakmarkanir, eðlileg viðskipti, funda- eða tjáningarbann – stór hluti heimsins sættir sig við skerðingu á því sem a.m.k. við á vesturlöndunum lítum á sem sjálfsögð réttindi.
Það er auðvelt að afskrifa hugmyndir um borgaraleg réttindi og frelsi einstaklingsins sem háleitar eða jafnvel barnalegar hugmyndir á tímum COVID. Að göfugri markmið um að vernda viðkvæma hópa og hætta á því að spítalar ráði ekki við ástandið trompi þau einfaldlega. Hver gæti mótmælt fundabanni til að bjarga óræðum fjölda hugsanlegra fórnarlamba veirunnar?
Það er þó einmitt í þessu ástandi sem gagnrýnisraddir eru nauðsynlegar. Alræðisvald er yfirleitt tekið undir því yfirskini að almannaheill krefjist þess. Þó að hægt sé að finna endalaus dæmi um þetta í sögunni, getum við einfaldlega litið okkur nær í tíma til að verða vitni að slíku ofríki. Tyrkland, Rússland, Hong-Kong og jafnvel í nokkur ríki Evrópu – alls staðar eru einræðistilburðir réttlættir út frá heildarhagsmunum og oft vegna yfirvofandi hættu.
Víða um heim eru samfélagsmiðlar ritskoðaðir, eignir gerðar upptækar og mótmælendur handteknir vegna meints neyðarástands. Þó svo að takmarkanir á hópamyndun og ferðafrelsi séu að einhverju leyti skiljanlegar í ljósi heimsfaraldursins minnir ástandið á fyrri tíma þegar slíkar reglur voru nýttar í pólitískum tilgangi með hörmulegum afleiðingum. Oftast undir því yfirskini að gæta þyrfti að hagsmunum heildarinnar.
En sem betur fer er til fólk sem sýnir slíkum tilburðum viðspyrnu, mótmælir og lætur frelsisskerðingu ekki yfir sig ganga möglunarlaust.
Það þýðir þó ekki að þau séu mótfallin tímabundnum aðgerðum til að koma í veg fyrir yfirkeyrslu heilbrigðiskerfisins, óþörf dauðsföll eða fleiri smit. Hugsunin er bara sú að nauðsynlegt sé að taka umræðu um slíkar skorður borgaralegra réttinda – að þær séu vel rökstuddar, takmarkaðar eins og hægt er og að skýrt sé hver beri ábyrgð á þeim.
Og þrátt fyrir allt er líklega nauðsynlegt að sætta sig við slíkar skorður í ljósi ástandsins. Það er þó gert með miklum fyrirvörum. Gera þarf kröfu um að hugsað sé fyrir langtímaafleiðingum þessara aðgerða og að takmarkanir á þessum réttindum gangi að fullu til baka þegar mesta hættan er liðin hjá. Í þessu sambandi er traust stjórnarskrá ásamt ríkri lýðræðishefð nauðsynlegir varnaglar.
Því dæmin sanna að stjórnvöld eru treg til að gefa frá sér þetta vald þegar þröskuldurinn hefur verið lækkaður í krafti þess að vernda hagsmuni heildarinnar.
Því er alls engin ástæða til að gera lítið úr gagnrýni á slík allsherjar boð og bönn og fráleitt að stimpla hana sem akademískar hugleiðingar um frelsi.
Dæmin um ofríki stjórnvalda eru mörg og langt frá því að vera fræðileg.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021